Mannlíf

Frábært gönguveður og stórt afmælisár
Laugardagur 29. desember 2012 kl. 08:18

Frábært gönguveður og stórt afmælisár

Rannveig Lilja Garðarsdóttir leiðsögumaður á Reykjanesi er sátt við veðrið á árinu sem er að líða. Það hafi verið einstaklega gott og verið til þess að stórir gönguhópar hafi gengið um Reykjanesið alla miðvikudaga í sumar í flottu veðri.

Hvað var eftirminnilegast á árinu 2012 á Suðurnesjum, innlendum vettvangi og í  heimsfréttunum?
Það sem er eftirminnilegast af Suðurnesjum er stofnun Jarðvangs sem á örugglega eftir að koma ferðaþjónustunni  hér vel, mér fannst líka gaman heyra að Suðurnesin skuli vera góður kostur fyrir kvikmyndatökur.

Eitt fannst mér líka merkilegt að Höfuðborgarstofa lét gera nýja jólafígúru sem viðbót við jólasveinana og er einskonar jólahveli sem heitir Rauðhöfði en þessi Rauðhöfði er upprunninn af Miðnesheiðinni og er upprunalega náungi sem átti heima á Melabergi, ég vona að Höfuðborgarstofa sé bara með Rauðhöfða í láni hjá okkur.    

Mér fannst árið 2012 hafa verið einstaklega gott veðurfarslega sem dæmi um það þá fór ég með hópa í gönguferðir alla miðvikudaga í sumar og við fengum dásemdarveður í þeim öllum.  

Frá útlöndum koma fyrst upp í hugann þessi óveður sem hafa geisað á árinu ásamt jarðskjálftum.


En hjá þér persónulega?
Þetta var stórt afmælisár í fjölskyldunni því við vorum fimm sem áttum afmæli sem sem bar upp á fimm og var því blásið til stórrar fjölskylduafmælisveislu á einum fallegasta degi sumarsins, veislan byrjaði með rútuferð um Reykjanes og endaði með skemmtilegu dansi balli á stofugólfinu heima hjá mér. Gönguferðir ársins urðu nokkrar á árinu bæði um uppáhaldsgöngusvæðið mitt Reykjanes og einnig víðar t.d fór ég í dásamlega gönguferð í Þórsmörk sem innihélt m.a hugleiðslu það var mikil upplifun.


Hver eru árámótaheit þín fyrir árið 2013?
Að halda áfram að gera allt sem mér þykir skemmtilegt að gera og gera meira af því.


Á að sprengja mikið um áramótin?
Já það er alltaf mikið sprengt á mínu heimili þó hefur það nú minnkað eftir að börnin fóru að heiman en okkur þykir mikilvægt að kaupa flugeldana af björgunarsveitunum, ég hef góða reynslu af því hve mikilvægar þær eru.

Hvernig á að verja áramótunum?
Þetta verða óvenju róleg áramót við hjónakornin ætlum að borða í góðum félagsskap með góðum vinum góðan mat og njóta kvöldsins.

Hvað er í matinn yfir áramótin?
Í matinn verður sjaldséður eðalsjávarforréttur, í aðalrétt verður Bjarnarvallar fylltur Kalkúnn alaRóbert sem enginn verður svikinn af og í desert verður heimatilbúinn ís og með þessu góðgæti verða bornar fram misheilsusamlegar veigar.