Fyrstu sólseturshátíðargestirnir mættir í Garðinn
Gestir eru farnir að streyma í Garðinn en sólseturshátíð fer þar fram um helgina. Þeir fyrstu komu í gær og nutu veðurblíðu í gærkvöldi. Veðurspáin er góð fyrir helgina og von á því að sólseturshátíðarestir geti notið blíðunnar og fjölbreyttrar dagskrárí Garðinum.
Sólseturshátíðin hefur undanfarin ár fest sig í sessi sem hátíð fjölskyldunnar. Hátíðarhöldin fara fram á Garðskaga en þar er góð aðstaða fyrir tjaldbúa, tjaldvagna og húsbíla. Snyrting, rennandi vatn og rafmagn er til staðar. Sólsetrið á Garðskaga er einstök sjón og tímasetning hátíðarinnar er vel við hæfi þar sem Sumarsólstöður eru nýafstaðnar og sólsetrið gyllir hafið á meðan Garðbúar og gestir þeirra syngja og gleðjast við varðeldinn.
Sjá má dagskrá hátíðarinnar í auglýsingu í prentútgáfu VF og einnig á svgardur.is. Hátíðarhöldum Ferskra vinda lýkur sömu helgi með tónleikum hinnar bresku og heimsþekktu Nicolette og bandarísku tónlistarkonunni Deborah Charles á sunnudaginn.
Meðfylgjandi myndir tók einn hátíðargestanna í gærkvöldi, sem var mættur með tjaldvagninn í sinn gamla heimabæ, Hilmar nokkur Bárðarson.