Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Mannlíf

Hinsegin Plútó fyrir 12-17 ára ungmenni á Suðurnesjum
Fimmtudagur 20. desember 2018 kl. 06:00

Hinsegin Plútó fyrir 12-17 ára ungmenni á Suðurnesjum

„Við ölumst upp í gagnkynhneigðum heimi. Sjónvarpsefni, auglýsingar, allt, alls staðar er byggt út frá gagnkynhneigðri hugsun. Það telst vera normið. Hingað geta krakkarnir komið einu sinni í viku og fengið að vera í sínu normi,“ segir Ragnar Birkir Bjarkarson en hann, ásamt Guðrúnu Maríu Þorgeirsdóttur, stendur fyrir félagsstarfinu Hinsegin Plútó sem ætlað er hinsegin börnum á aldrinum tólf til sautján ára í 88 húsinu í Reykjanesbæ.

„Við ákváðum að stofna þetta þar sem bæjarfélagið okkar fer stækkandi og þörfin fyrir svona starf er mikil. Hingað geta hinsegin ungmenni komið, náð að tengjast og verið sterk í sameiningunni. Við vildum að þau gætu upplifað sig örugg innan um krakka í sömu sporum og þau, með sömu efasemdirnar um lífið og tilveruna,“ segir Ragnar.

Þau fóru af stað með starfið í maí síðastliðnum í sjálfboðavinnu eftir að hafa áttað sig á því hversu lítið væri í boði á svæðinu fyrir hinsegin ungmenni. „Samtökin 78 í bænum eru með svipaða þjónustu en okkur fannst það aðeins of löng vegalengd fyrir þennan aldur að ferðast til að hitta jafningja sína. Við sáum þetta fyrir okkur þannig að þetta muni tengja hinsegin krakka á Suðurnesjum betur saman, sem búa í Garði, Sandgerði, Grindavík, Vogum og í Reykjanesbæ.“

88 húsið var spennt fyrir hugmyndinni og aðeins nokkrum dögum eftir að hugmyndin kviknaði hjá tvíeykinu var starfið farið af stað og hefur hingað til gengið mjög vel. „Þeir krakkar sem hafa verið að mæta eru ekkert öll alveg viss um hvort þau séu hinsegin, eða hverju þau „eiga“ að tilheyra. Síðast var til dæmis ótrúlega mikið spjallað um að þau vissu ekki hvernig þau ættu að flokka sig,“ segir Guðrún.
Það eru allir krakkar á aldrinum tólf til sautján ára velkomnir á hittingana, hvort sem þeir telja sig hinsegin eða ekki. „Vinir krakkanna hafa líka verið að koma með og fræðast um þetta. Það er 100% trúnaður hérna og með því að mæta fá þau kannski betri innsýn í það hvernig vinum þeirra líður.“

Staðreyndin er því miður sú að há sjálfsvígstíðni er hjá þeim hluta hinsegin ungmenna sem ekki getur leitað styrks og stuðnings í réttu umhverfi. „Það gerir þig enginn hinsegin. En fólk getur bælt þig niður og það er sorglegt og hættulegt. Því miður eru alltof mörg dæmi um það í veröldinni,“ segir Ragnar og bætir því við að opin umræða um hinseginleika muni brjóta hræðsluáróðurinn niður. „Það mikilvægasta er að kunna að vera maður sjálfur. Það er bara til eitt eintak af manni.“

Hægt er að kynna sér starf Hinsegin Plútó á Facebook-síðu starfsins.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024