Hvað er ég búinn að koma mér út í?
- Sundkappinn Davíð Hildiberg til fyrirmyndar í Arizona háskóla
Sundkappinn Davíð Hildiberg stundar nám við Arizona State háskólann í Arizona fylki Bandaríkjanna. Fyrir þá sem ekki vita er Arizona fylki heitt og þurrt og þegar blaðamaður heyrði í Davíð þá var hitinn tæpar 40 gráður. Það er grænt og fallegt í háskólabænum þar sem Davíð býr en hann segir eyðimörkina taka á móti manni þegar komið er út fyrir bæjarmörkin.
Skólinn hans Davíðs er sá fjölmennasti í Bandaríkjunum en þar eru rúmlega 70.000 nemendur. Skólinn er staðsettur í bænum Tempe en að sögn Davíðs snýst allt um skólann í bæjarlífinu. Bæði hvað varðar námsárangur og í íþróttum, þá er skólinn gríðarlega sterkur. Skólinn keppir í svokölluðum Pac12 riðli og sá riðill er annar þeirra sterkustu þegar kemur að sundinu. „Það eru margir heimsmethafar og Ólympíufarar sem hafa synt í þessari deild,“ segir Davíð.
Stórir skólar eru ekki að leita að Íslendingum
Birkir Már Jónsson fyrrum liðsfélagi Davíðs í ÍRB í sundinu var kominn í háskólanám í Bandaríkjunum og Davíð var orðinn spenntur fyrir því að kynna sér þann möguleika betur. Hann segir umsóknarferlið vera langt en hann sendi fjölda skóla póst og forvitnaðist um möguleikann á að komast að á skólastyrk. „Það þarf aðeins að ýta á eftir þessu og bera sig eftir björginni,“ segir Davíð. Stórir skólar í Bandaríkjunum eru víst ekki beint að leita eftir íþróttamönnum á litla Íslandi.
Davíð er nú búinn að vera við nám í skólanum í þrjú ár og er að hefja fjórða árið núna í sumar. Hann leggur stund á nám í arkitektúr en mastersnám er fyrir höndum, en það nám tekur önnur þrjú ár. Davíð er á fullum námsstyrk en háskólanám í Bandaríkjunum kostar skildinginn. Hann bjó fyrst um sinn á heimavist með herbergisfélaga en nú leigir hann hús ásamt liðsfélögum sínum í sundliðinu.
Fékk algert sjokk
Æfingar eru virkilega erfiðar þar sem fyrst um sinn er verið að skilja hismið frá kjarnanum en margir hreinlega gefast upp og hætta. Þjálfarar eru þá að athuga hvort fólk hafi karakterinn og viljann til þess að standa sig. „Eftir fyrstu æfinguna hugsaði ég; Hvað er ég búinn að koma mér út í,“ en liðið þurfti að hlaupa í tröppunum á kappvellinum en þar taldi Davíð einar 4000 tröppur sem hlaupið var upp og niður. Þegar Davíð byrjaði fyrst voru um 12 nýir sundmenn sem hófu æfingar en þeim fækkaði fljótlega niður í þrjá. „Þegar ég kom hingað fyrst þá fékk ég algert sjokk. Þetta er mun meiri hasar og keppni en ég átti að venjast. Á æfingum er mikil keppni því það eru kannski þrír aðrir að keppa um þína stöðu í liðinu, og maður vill ekki tapa. Heima á Íslandi er maður meira að keppa við sjálfan sig,“ segir Davíð.
Hvað varðar námið þá tók smá tíma að ná tökum á tungumálinu. „Fyrsta önnin var frekar skrýtin og maður var alltaf að strika undir og með orðabókina við höndina.“ Davíð hafði lokið stúdentsprófi frá FS og í raun voru fyrstu tvö árin ekki svo erfið að hans mati í Bandaríkjunum þegar hann hafði náð sterkum tökum á enskunni. Davíð segist hafa verið að fá hæstu einkunn á öðru ári sínu í háskólanum en í FS taldist hann ekki sterkur námsmaður. „Ég get ekki sagt það. Þá var ég að fá í kringum sjö í meðaleinkunn. Þegar maður er svo kominn út að læra það sem maður hefur áhuga á þá leggur maður meira á sig. Alvaran tekur við.“
Mikill heiður að vera verðlaunaður
Davíð var á vordögum sæmdur heiðursverðlaunum sem veitt eru í nafni Ron Johnson fyrrum þjálfara við Arizona háskólann. Verðlaunin eru veitt þeim sundmanni sem talinn er hvetjandi fyrirmynd og frábær leiðtogi bæði í lauginni og í skólastofunni. Ertu til fyrirmyndar þarna í skólanum? „Greinilega að mati þjálfaranna,“ segir Davíð og hlær.
Davíð er einn þriggja fyrirliða í sundliði skólans en alls eru um 50 manns í liðinu. Hann segist ekki hafa búist við því að gegna þessari stöðu en hlutverk fyrirliða er nokkuð veigamikið. Liðið hefur náð mjög góðum árangri í ár. Lið hans sló m.a. skólamet í 4x100 yarda fjórsundi (100 yardar eru 90 metrar) þar sem fyrrum ólympíufarar áttu fyrra metið.
„Þetta eru stór verðlaun og það var mjög skemmtilegt að hljóta þau. Þetta er í fyrsta skipti sem ég fæ verðlaun hérna. Þetta er mikill heiður,“ segir Davíð.Hlutverk fyrirliða í sundinu er mikilvægt en þeir taka jafnan þátt í því að skipuleggja ferðir liðsins. „Það er alltaf eitthvað vesen á þessum Könum og okkar hlutverk er að halda öllum hægum. Við erum líka milliliðir milli þjálfara og liðsmanna. Ef liðið er óánægt með eitthvað þá erum það við sem þurfum að tala við þjálfarana. Þetta er stórt hlutverk og það er mikil ábyrgð á okkur.“ Davíð átti alls ekki von á því að verða fyrirliði liðsins en þeir eru kjörnir af sundmönnunum sjálfum. Það er því ljóst af því að dæma að Davíð er í miklum metum meðal félaga sinna.
Félögunum fannst Ísland alveg geðveikt
Davíð hefur eignast marga vini í sundliðinu og þeir koma margir hverjir frá hinum ýmsu heimshornum. Það liggur fyrir að krakkarnir í liðinu ætli að heimsækja hvor aðra. Davíð ferðast í Bandaríkjunum með vinum sínum þegar tími gefst til og eins hafa liðsfélagar hans heimsótt Ísland. „Ég fór með þau í sumarbústað og um Suðurlandið. Við enduðum í Jökulsárlóni og þeim fannst Ísland alveg geðveikt. Þetta er mjög skemmtilegt. Nú hefur maður ákveðin tengsl við fólk víða um heiminn og á víða heimangengt.“ Þar á meðal í Frakklandi, Ástralíu, Rúmeníu, Kanada og Kólumbíu svo fátt eitt sé nefnt.
Nú þegar er Davíð kominn með B.S gráðu í hönnun og nú tekur við að sérhæfa sig í arkitektúr. Davíð segist ekki getað útilokað að hann verði í Bandaríkjunum eftir að námi lýkur ef góð vinna er í boði. Hann segir að markaðurinn fyrir arkitekta á Íslandi sé frekar lítill og kannski erfiðara að komast þar að.
Þegar Davíð útskrifaðist var ekki mikill tími til þess að fagna. Hann fór í brúðkaup hjá félaga sínum en svo var haldið til Íslands þar sem þátttaka í Smáþjóðaleikunum var á döfinni. Davíð var nokkuð sáttur við árangur á leikunum og þá sérstaklega með Íslandsmet í boðsundi. „Ég var ekki alveg nógu sáttur með baksundin mín,“ segir Davíð en þau hafa hingað til verið hans sterkasta hlið.
Geggjuð reynsla en vanda skal valið
Það liggur fyrir að Davíð fær ekki skólastyrk alla sína skólagöngu og hann íhugar nú hvert stefnan verði tekin. Hann býst jafnvel við því að leggja sundið á hilluna að ári loknu. „Það er gaman að æfa og keppa en það er ekki hægt að gera þetta endalaust. Þetta kemur allt í ljós eftir næsta ár.“ Davíð segir það vera komið í hálfgerða tísku hjá sundfólki að fara til Bandaríkjanna til náms.
„Heima er ekki verið að reyna að samræma íþróttir og háskólanám. Annað hvort velur maður skólann eða þá íþróttina sína. Ég mæli hiklaust með þessu en þá má ekki velja hvað sem er. Maður verður að vanda valið þegar kemur að skóla.“
„Þetta er geggjuð reynsla. Maður fær ekki mörg svona tækifæri á lífsleiðinni,“ segir Davíð. Hann viðurkennir að hann fái stundum heimþrá en þó var hann alltaf ákveðinn í að kýla á þetta. „Það er ómetanlegt að kynnast nýrri menningu og nýju fólki. Þetta er ótrúlega gaman en maður veit að þetta tekur enda. Þá er líklegt að maður endi heima að lokum.“