Mannlíf

Jólatónleikar Baggalúts í Stapa í kvöld
Sunnudagur 5. desember 2010 kl. 17:14

Jólatónleikar Baggalúts í Stapa í kvöld


Jólatónleikar Baggalúts verða í Stapanum í kvöld en jólaplötu hljómsveitarinnar hefur verið vel tekið. Þeir Baggalútsmenn eru á fullu þessa dagana að fylgja henni eftir með jólatónleikum sem óhætt er að segja að slegið hafi í gegn því húsfyllir var á tvennum tónleikum á Akureyri um síðustu helgi. Tónleikarnir hefjast kl. 20 í Stapanum.

Baggalútur hefur boðað til tveggja jólatónleika í Háskólabíói 13. desember og er uppselt á þá báða þrátt fyrir að þeir hafi eingöngu verið kunngjörðir með tveimur svokölluðum statusum á Fésbók, að sögn Kidda sem telur Bagglút ekki þurfa barnakóra og færeyskar söngdívur til að fylla tónleika.
„Maður á svo sem aldrei von á neinu með Baggalút annars vegar. Maður veit bara aldrei neitt. Baggalútur hefur þó verið nokkuð sterkur í desember með tvær vel heppnaðar jólaplötur. Fólkið virðist elska þetta. Tónleikarnir í Borgarleikhúsinu í fyrra tókust mjög vel og það spurðist út,“ segir Kiddi og telur það geta að einhverju leyti skýrt þær frábæru viðtökur sem sveitin fær núna.
„Við eigum fjórar frumsamdar plötur þar sem við semjum lög og texta sjálfir. En þegar jólin er annars vegar þá er miklu betra að velja lög sem fólk þekkir. Ef maður ætlar að ná vinsældum er um að að gera að velja bara nógu djö..fræg lög,“ segir Kiddi. Baggalútur hefur í þessu skyni fengið lánuð sum af frægustu dægurlögum tónlistarsögunnar og gert úr þeim jólalög sem slegið hafa í gegn, lög eins og You've Lost that Loving Feeling (Ég kemst í jólafíling), Woman in love (Það koma vonandi jól) og I´ve had time of my life (Hvað fæ ég fallegt frá þér), svo nokkur séu nefnd.

Eins og áður segir er Kiddi í mörgum verkefnum um þessar mundir og viðriðin fjórar nýjar plötur fyrir þessi jól, Hjálma, Diskóeyjuna, Sigurð Guðmundsson og Memfism og Baggalút. Það er ærið verk að fylgja þessum útgáfum eftir með tónleikahaldi og spilar Kiddi á eigi færri en sex tónleikum um næstu helgi. „Ég kann bara vel við þetta,“ svarar Kiddi aðspurður hvort álagið sé ekki helst til of mikið.

Helsta verkefnið á nýju ári er næsta plata Hjálma. Vinnsla hennar verður með óhefðbundnu sniði en þeir félagar ætla að taka hana upp í 10 upptökuverum í jafn mörgum löndum. „Þetta er svona grunnplanið fyrir næsta ár ásamt því að setja Diskóeyjuna upp í einhverju leikhúsanna,“ segir Kiddi sem nýlega tók á móti verðlaunum á Degi íslenkrar tungu á dögunum, annað árið í röð sem mun vera einsdæmi.

En fylgdi því ekki „böns of monní“ eins og söngvaskáldið fræga orðaði það forðum daga?

„Vigdís fékk „böns af monní“ en við fengum klapp á bakið“