Mannlíf

Kröfurnar allt aðrar til leikskólastarfsins í dag
Sunnudagur 6. janúar 2019 kl. 07:04

Kröfurnar allt aðrar til leikskólastarfsins í dag

Krakkarnir léku sér með hálfónýtt dót og engar barnabækur voru til á íslensku

Til þess að fá betri innsýn um breytingarnar sem hafa átt sér stað innan leikskólans fengum við þrjár kynslóðir leikskólakennara til þess að segja frá leikskólastarfinu frá 1966. Svala Svavarsdóttir var forstöðukona Tjarnarlundar 1966–1968 og starfaði síðar sem leikskólastjóri á Garðaseli frá 1978 til 1996. Ragnhildur Sigurðardóttir starfar í dag á Tjarnarseli og hefur gert í nítján ár. Hún starfaði einnig undir stjórn Svölu á Tjarnarlundi eitt sumar, árið 1966 þegar hún var aðeins fjórtán ára gömul. Jóhanna Torfadóttir starfar á Tjarnarseli og hefur gert í átta ár en á undan því hafði hún starfað á öðrum leikskólum frá árinu 1999.
 
Áður fyrr var leikskólastarfið og umhverfið í heild sinni heldur ólíkt því sem er í dag. Fyrst um sinn var aðeins rekið dagheimili á sumrin og þeir sem áttu rétt á heilsdagsplássi voru einstæðir foreldrar eða margra barna mæður. Lítið var um leikföng og barnabækur á íslensku og léku krakkarnir sér heilu stundirnar með hálfónýtt dót. Aðlögun barnanna var sama sem engin og pabbar sáust aldrei.
 

Röð af foreldrum náði upp að vatnstanki

 
Svala Svavarsdóttir stýrði Tjarnarlundi árið 1966 og segir ótrúlegt að hugsa til þessa tíma miðað við stöðuna í dag. „Við vorum fjórar starfskonur, tvær rétt yfir tvítugt og tvær fjórtán ára unglingsstúlkur. Það voru 60 börn, tvö klósett og eitt fatahengi. Maður fær sjokk að hugsa til þess í dag! Þegar við opnuðum í upphafi sumars mættu foreldrar til þess að skrá sig og það var biðröð frá leikskólanum alla leið upp að vatnstanki við Langholt. Svo mikil var þörfin,“ segir Svala. „Krakkarnir voru duglegir að dunda sér við leik og komu Kvenfélagskonur með fullan kassa af lélegu dóti, m.a. hjóllausa bíla og aðra leikfangaparta sem krakkarnir voru alsælir með. Börnin elskuðu að láta lesa fyrir sig og það var alltaf dauðaþögn í húsinu þegar við lásum. Enda hefur eflaust ekki verið mikill tími fyrir foreldra að lesa fyrir börnin sín heima.“
 
Lengi vel var úrval barnabóka á íslensku af skornum skammti og var þá brugðið á þann leik að þýða erlendar barnabækur yfir á íslensku. Þetta gerðu leikskólakennararnir í kaffipásum sínum, þýddu úr enskum og dönskum texta sem þær skrifuðu upp á ritvél og límdu yfir erlenda textann í bókunum.
 

Dembt inn á sama tíma og mamma sagði bless

 
Aðlögun barna er eðlilega heilmikið mál fyrir lítil börn sem hafa að mestu verið í umsjá foreldra sinna. Aðlögunarferlið hefur farið í marga hringi að sögn leikskólakennaranna þriggja. Í dag er svokölluð þátttökuaðlögun þar sem foreldrarnir taka meiri þátt og kennarar eru á kantinum. „Þá er ekkert meitlað í stein heldur er unnið eftir þörfum hvers barns og fjölskyldu fyrir sig. Foreldrið sýnir hvernig maður á að vera á leikskóla og barnið fylgir. Þetta tekur misjafnan tíma eftir hverjum og einum,“ segir Jóhanna. Ragnhildur og Svala segja aðlögunarferlið hafa farið í marga hringi. „Þegar við vorum á Tjarnarlundi var engin aðlögun. Börnunum var bara öllum dembt inn á sama tíma og mamma sagði bless. Svo var þetta orðið þannig mörgum árum seinna að foreldrar voru mjög mikið með og fóru meira að segja inn í pínulítið herbergi til að leggja sig í hvíldartímanum með börnunum. Við sáum fljótlega að það gengi ekki upp, það var ekkert pláss fyrir allan þennan fjölda fólks inni á deildunum.“


Þekktist ekki að sjá pabba á leikskólalóðinni

 
Annað sem hefur breyst er þátttaka og virkni foreldra í leikskólastarfinu og sérstaklega feðra. Áður fyrr gátu feður farið með nokkur börn í gegnum leikskólagöngu og aldrei stigið fæti inn á leikskóla. Í dag er þetta miklu jafnara og foreldrar hafa meiri metnað og áhuga á að vita hvað barnið þeirra er að gera og læra á daginn.
 
„Það voru alltaf mæður sem komu með börnin, hlaupandi í fiskvinnu eða afgreiðslustörf og komu svo aftur og sóttu börnin. Við sáum aldrei einn einasta pabba. Það þekktist ekki,“ segir Svala. Núna er þetta allt öðruvísi. Í haust þegar við vorum að aðlaga yngstu börnin kom mamman annan daginn og pabbinn hinn. Við litum út á lóð einn daginn og þar voru bara pabbar! Það er svo mikilvægt fyrir mig sem starfsmann að þekkja andlitið bæði á mömmunni og pabbanum. Ekki að það birtist allt í einu bara maður sem segist pabbi einhvers og ætli að sækja viðkomandi,“ segir Jóhanna. Pabbar sem eru á mínum aldri og eldri hálfsyrgja þetta í dag að hafa ekki fengið að taka meiri þátt í lífi barna sinna á sínum tíma. Samfélagið bara gerði ekki ráð fyrir því,“ segir Ragnhildur.
 

Breyttar kröfur til leikskólastarfsfólks

 
Rétt eins og leikskólastarfið, hefur starfsumhverfi leikskólakennara einnig breyst mikið og þróast. Miklar kröfur eru gerðar til leikskólastarfsfólks og er leikskólakennaranám fimm ára háskólanám í dag.
 
Með tilkomu samfélagsmiðla og aukins hraða í samfélaginu hafa auknar kröfur verið gerðar til leikskólastarfsfólks um að segja frá því hvað börnin eru að gera. Í dag er það svo að flestir leikskólar Reykjanesbæjar notast við sérstakt símaforrit til þess að skrá mætingu, matartíma og hvíld hvers barns og svo eru settar inn fréttir og myndir úr starfinu á heimasíðu leikskólanna. „Við á Tjarnarseli sendum líka alltaf út föstudagspósta og segjum frá því hvað við gerðum í liðinni viku. Við erum í sérstaklega góðu samtali við foreldra hér í leikskólanum því að starfsmennirnir fylgja börnunum eftir allan leikskólaferilinn. Ég færi mig því um deild á hverju hausti til að fylgja þeim hópi sem byrjaði á minni deild í upphafi,“ segir Jóhanna.
 

Endist ekki í starfinu án ástríðu

 
„Ekki eina mínútu hef ég séð eftir að hafa lært leikskólakennarann. Það er búið að koma mér til góða í öllu mínu lífi, hvort sem það er í einkalífi, með börnin og barnabörnin til dæmis. Ég er einbirni og hef alltaf elskað að vera með börnum,“ segir Svala.
 
„Mér finnst gaman hvað þetta er ótrúlega fjölbreytt, enginn dagur er eins. Þú endist ekki lengi í þessu starfi ef þú hefur ekki ástríðu fyrir því. Annars verðurðu bara útkeyrður. Maður heyrir oft frá foreldrum sem koma í aðlögun: Vá, þið eruð algjörar hetjur, ég gæti aldrei unnið á leikskóla!“ segir Jóhanna og Ragnhildur bætir við eftirminnilegri setningu frá pabba sem var með barn í aðlögun: „Ég myndi ekki vinna hérna fyrir milljón á mánuði, þvílíkt áreiti!“