Mannlíf

Lífeyrissparnaður fyrir lítið
Fimmtudagur 10. nóvember 2011 kl. 16:25

Lífeyrissparnaður fyrir lítið

Ég get ekki sagt að hrunið hafi komið neitt sérlega illa við mig. Átti ekkert stofnfé í Sparibankanum og blessunarlega lítið hlutafé í öðrum bönkum, sem þó brunnu upp á einu augabragði. Sá ekkert eftir því en lærði mína lexíu engu að síður. Er drulluhræddur við allt eigið fjármagn og reyni nú yfirleitt að eyða því sem allra fyrst áður en verðbólgudraugurinn étur það upp til agna. Dúfukofarnir okkar rýrna í verði á meðan lánin bólgna út og kostnaðurinn eykst. Ræð lítið við það ferli, sýnist það vera á sjálfstýringu.

 
Ég sé þó enn fyrir mér excel skjalið sem þjónustufulltrúinn í Arion banka lagði í hendurnar á mér þegar ég flutti aukalífeyrissparnaðinn yfir til þeirra. Með sama áframhaldi, þá í góðærinu 2007, reiknuðum við fram í tímann og sáum að ég myndi eiga einhverja tugi milljóna króna með sama áframhaldi þegar ég kæmist á eftirlaun. Ja, hvur þremillinn! Hvað á ég að gera við þetta allt, spurði ég agndofa? Þjónustufulltrúinn fullyrti að ég gæti leikið mér í golfi á Florida hálft árið og þess á milli arkað með barnabörnin í ísbúðina á hverjum sunnudegi. Jafnvel farið á Línu langsokk í Þjóðleikhúsinu annan hvern laugardag ef barnabörnin yrðu orðin svo mörg að ekki dygði ein sætaröð!

Nú, nokkrum árum og engum barnabörnum síðar, er aukalífeyrissparnaðurinn rislítill. Eitthvað af honum leitaði annað í hruninu en einnig hef ég þurft að ganga á hann með aðstoð ríkisvaldsins til þess að standa við eigin útgjöld. Hef enn ekki farið til Florida og missti af Línu langsokk. En minn tími mun koma. Ekki fjárhagslega, heldur og vonandi andlega og líkamlega. Börnin okkar og barnabörn eru framtíðin, gullið sem alla dreymir um. Minn aukalífeyrir gengur út á það núna, að lifa þann tíma og eiga í vændum betri og bjartari framtíð, án fjármagnsdrauga sem framleiddir eru í excel skjölum. Held þó áfram að spara!   

Valur Ketilsson