Mannlíf

Litháinn sem féll af himnum ofan
Laugardagur 20. október 2018 kl. 00:00

Litháinn sem féll af himnum ofan

- Mantas Mockevicius elskar að tilheyra körfuboltafjölskyldu Keflavíkur

Hann minnir frekar á glímukappa en körfuboltamann. Frá sex ára aldri hefur körfuboltinn hins vegar átt hug og hjarta hins 25 ára gamla litháa Mantas Mockevicius sem mun leika með Keflvíkingum í Domino’s-deildinni í vetur. Hann var einn efnilegasti leikmaður Litháen og lék með NBA-leikmönnum. Hann hreinlega datt inn á æfingu hjá Keflvíkingum og gæti reynst mikill happafengur.

Litháenska þjóðin elskar körfubolta og þaðan hafa m.a. komið NBA-leikmenn á borð við feðgana Arvydas og Domantas Sabonis, Sarunas Marciulionis, Zydrunas Ilgauskas og Jonas Valanciunas sem leikur með Toronto Raptors. Mantas spilaði einmitt með þeim síðastnefnda á sínum yngri árum. Mantas var í hópi efnilegustu leikmanna þjóðarinnar og spilaði jafnan gegn strákum sem voru nokkrum árum eldri en hann.

Rambaði á æfingu fyrir slysni

Það var algjör slembilukka að Mantas rambaði inn á æfingu hjá einu af stórveldunum í íslenskum körfubolta. Á góðum sumardegi var hann við leik á körfuboltavellinum við Holtaskóla, þegar hann heyrði einhvern skarkala innan úr íþróttahúsinu við Sunnubraut. „Ég veit hvers ég er megnugur og að ég yrði alveg örugglega ekki að aðhlátursefni á vellinum,“ tjáir hann blaðamanni.

Hann lét slag standa og kíkti inn og sá þar nokkra spræka stráka spila körfubolta. Hann hinkraði eftir þjálfaranum sem reyndist vera Sverrir Þór Sverrison. Mantas sagði Sverri að hann ætti ágætis feril að baki og væri liðtækur körfuboltamaður. Það er ekki ofsögum sagt en hann lék með öllum yngri landsliðum Litháen og var um tíma í skóla í Bandaríkjunum. Hann lék í efstu deild í heimlandinu en sagði skilið við körfuboltann eftir árekstur við landsliðsþjálfara. Mantas lýsir því þannig að hann hafi spilað meiddur fyrir þjóð sína sem tapaði mikilvægum leik í Evrópukeppni. Þjálfarinn skellti skuldinni á hann og Mantas var ekki sáttur. „Ég setti þannig bara körfuboltanum út í horn og fékk nóg,“ segir hann.

Sverrir þjálfari Keflavíkurliðsins staðfestir að Mantas sér flottur leikmaður og góður liðsfélagi. Hann er jafnvel að vonast til þess að leikmaðurinn verði hálfgerður „X-faktor“ Keflavíkurliðsins þegar hann verður kominn í leikform.

Mantas er búsettur á Ásbrú en hann starfar fyrir starfsmannaleigu sem er með starfsemi í nokkrum löndum. Hann er með gráðu í alþjóðaviðskiptum og hefur fengist við ýmislegt í gegnum tíðina þrátt fyrir ungan aldur. Rólyndislífið á Íslandi á vel við hann. Körfuboltinn kom aftur inn í myndina hjá Mantas vegna þess að hann saknaði þess að vera í klefanum að grínast, fara í ferðalög með liðinu og alls þess sem fylgir því að vera hluti af liði.


Körfuboltaáhugafólk má eiga von á öflugum leikmanni í deildina. Líkamlega er Mantas mjög sterkur. Hann segist enn eiga rúmlega tíu kíló til að losa sig við og nokkuð skortir á leikformið. „Fyrstu æfingarnar voru djöfullegar,“ segir hann og dæsir. Blaðamaður spyr hann um hæð og þyngd eins og ekkert sé sjálfsagðara. 186 cm og 109 kíló. Það er góð þyngd fyrir körfuboltamann sem hefur spilað sem bakvörður alla tíð. Í toppformi segist hann vera í kringum 95 kílóin. „Ég hef aldrei verið duglegur við að lyfta, þetta er náttúrulegt,“ segir hann kíminn. „Fólk heldur oftast að ég sé glímukappi. Ég var ekki sá léttasti en alltaf sá sneggsti í mínum liðum.“ Eins og stendur er Mantas á stífu mataræði og æfir aukalega.

Þriggja ára hlé frá körfubolta

Áður en Mantas hætti hafði hann átt gott ár í efstu deild heima fyrir og fjöldi liða sýndi honum áhuga. Hann ákvað að bíða þar til eftir Evrópukeppni U20 með ákvörðun um næsta skref. „Ég vildi sýna að ég væri stríðsmaður og ætlaði að spila í gegnum meiðsli. Eftir tap gegn Ítalíu í undanúrslitum fannst mér eins og sökin væri mín. Ég fór til Serbíu að spila í smá tíma en þetta var ekki eins og áður. Ég snerti svo ekki körfubolta næstu þrjú árin.“

Af tali hans að dæma þá er augljóslega um mikinn liðsmann að ræða. Hann á sér engin sérstök markmið á Íslandi en langar endilega að vinna þá titla sem eru í boði. „Þó ég spili bara eina mínútu í leik, þá vil ég bara hjálpa. Þetta snýst ekkert um peninga eða frama. Ég sakna þess að körfubolti sé hluti af lífi mínu. Að vinna eitthvað hérna á Íslandi yrði hápunkturinn á mínum ferli,“ segir þessi leikmaður sem hefur þó unnið til silfurverðlauna á Evrópumóti.

Mantas hefur fengið að heyra af rígnum milli Keflavíkur og Njarðvíkur. „Ég hef heyrt af þessu El clasico dæmi hér,“ segir hann og hlær. „Ég sá úrslitakeppnina í fyrra og þar sá ég áhorfendurna og skildi strax hvaða þýðingu körfuboltinn hefur fyrir þetta bæjarfélag.“ Í grannaglímunni í upphafi tímabils sást greinilega að Mantas er hvergi banginn, en á tíu mínútum skoraði hann sjö stig og var mjög áræðinn.

Fékk sér í staupinu með Jóni Baldvin

Mantas vissi ekki mikið um land og þjóð en eins og flestir landar hans þá veit hann að Ísland var fyrst til þess að viðurkenna sjálfstæði Litháen. „Ég hitti meira að segja þennan [Jón Baldvin] Hannibalsson í veislu í Litháen. Það er svalur náungi og gaman að tala við hann. Við fengum okkur kannski nokkur staup saman,“ segir hann og hlær. Mantas er áhugasamur um sögu og hefur kynnt sér talsvert um íslenska sögu og hefðir.

„Ég er þannig náungi að ég yrði sáttur á Grænlandi eða í Afríku. Ég elska að kynnast nýju fólki og kann að meta góðar samræður. Ég trúi því að körfubolti snúist um meira en bara þann hluta sem á sér stað innan vallar. Það er þegar afrek fyrir mig að vera hluti af þessu liði og taka þátt í samfélaginu hérna í Reykjanesbæ. Mér líður vel hérna og gæti alveg hugsað mér að vera hérna eitthvað áfram.“