Mannlíf

Miðvikudagur 24. nóvember 1999 kl. 21:13

MÁLA FEGURÐINA

segir listakonan Elínrós Í Gallery Rós í Keflavík Elínrós Eyjólfsdóttir er með vinnustofu og gallerí við Iðavelli 3 í Keflavík. Stór málverk af blómum erum áberandi hjá henni en á vinnustofunni má einnig finna fallega handmálaða postulínsmuni, íkona, vatnslitamálverk o.fl. Galleríið verður opið milli klukkan 13-18 alla daga fram að jólum og einnig er hægt að ná sambandi við Elínrós í síma 869-2026. Heillaðist af myndlistinni „Ég gifti mig ung kona, eignaðist börn og hugsaði um þau eins og gengur og gerist. Ég fór svo að læra postulínsmálun í Bandaríkjunum og byrjaði í Baðstofunni í Keflavík 1981 og heillaðist þá af myndlistinni. Mig langaði til að læra meira á þessu sviði og fór í málaradeild Myndlista- og handíðaskóla Íslands. Síðan ég útskrifaðist þaðan hef ég lært myndlist í Bandaríkjunum og postulínsmálun í Danmörku og á Ítalíu. Ég hef einnig haldið námskeið í postulínsmálun”, segir Elínrós. Málar íkona Elínrós er mjög fjölhæf listakona því hún málar bæði með olíu, pastel, akryl og á postulín. Hún hefur einnig numið þá aldagömlu list að mála íkona, sem eru helgimyndir unnar með sérstakri tækni. Hvað kom til að þú lærðir að gera íkona? „Ég lærði það hér á Íslandi en fyrir nokkrum árum var hér sýning á rússneskum íkonum. Listamaðurinn kenndi sjö listakonum, þ.á.m. mér 12. aldar tækni við gerð íkona. Þeir eru málaðir með litadufti og eggjarauðu með litlum pensilstrokum, en þetta er mjög mikil nákvæmnisvinna.“ Hrifin af blómum Elínrós segist hafa mikla ánægju af því að mála blóm vegna litadýrðarinnar og formanna. „Ég hef þrjóskast við að mála blóm þó að þau hafi kannski ekki verið eins vinsæl og myndir af fjöllum eða fólki. Ég bjó á eyjunni Majorka í einn vetur og hélt þar sýningu á verkum mínum. Sýningunni var afar vel tekið og gallerí þar selur verkin mín. Á Majorka er mikið af blómum og verkin féllu því mjög vel inní umhverfið. Ég er viss um að það hefði lítið þýtt fyrir mig að sýna þar myndir af fjöllum“, segir Elínrós. Komin aftur til Keflavíkur Hvernig finnst þér að vera komin aftur til Keflavíkur eftir öll þessi ár? „Mér finnst það alveg frábært. Það er ánægjulegt að sjá hvernig bærinn vex og dafnar. Ég man eftir því þegar það voru pollar á Hafnargötunni en nú finnst mér öll þjónusta og bæjarbragurinn vera til mikillar fyrirmyndar.