Viðreisn
Viðreisn

Mannlíf

Öflugt samstarf ólíkra starfsgreina
Erla Ósk Pétursdóttir.
Sunnudagur 8. júní 2014 kl. 10:00

Öflugt samstarf ólíkra starfsgreina

Umræða um sjávarútveg er að breytast.

Fyrirtækið Codland í Grindavík var tilnefnt til Menntaverðlauna atvinnulífsins 2014, sem Menntasproti ársins. Það var stofnað árið 2012 og sérhæfir sig í hámarksnýtingu á hráefnum þorsks. Á bak við Codland standa ýmis ólík fyrirtæki en öll eiga þau það sameiginlegt að leggja áherslu á fullnýtingu og verðmætaaukningu á áður illa nýttum hráefnum.

Stóðu frammi fyrir förgunarvandamáli
„Þetta byrjaði sem hugmynd með kennitölu. Vísir og Þorbjörn, sem eru eigendur Codlands, hafa lengi unnið saman; átt Haustak sem stofnað var 1999,“ segir Erla Pétursdóttir, framkvæmdastjóri. Útgerðarfyrirtækin hafi staðið frammi fyrir förgunarvandamáli á slógi og því farið í að horfa á hvernig hægt væri að nýta það. „Á svipuðum tíma kemur hingað maður sem var með lausn á því. Við fórum í samstarf við hann með verksmiðju sem býr til heilsuvörur úr slóginu. Einnig kom Þór Sigfússon frá Íslenska sjávarklasanum og hjálpaði okkur að horfa hærra og lengra. Úr því varð skemmtileg samvinna sem er Codland í dag.“



Einhæf umræða um sjávarútveg
Erla segir að fyrirtækið hafi fengið ótrúlega athygli miðað við að vera einskonar vettvangur til að nýta hráefni. Margir hafi verið að nýta hráefni vel en ekki verið fjallað eins mikið um. Hjá Codlandi hafi reyndar líka verið markviss efling á ímynd sjávarútvegarins og sagt frá því hvað sé á döfinni innan hans. „Umræðan um sjávarútveginn hefur verið einhæf og fréttir neikvæðar. Nú var kominn vettvangur til að fjalla um það sem við og aðrir erum að gera.“ Þau hafa verið með kynningar í skólum, setið fundi með snyrtifræðingum um snyrtivörur, tæknifræðingum um tækni og ýmislegt annað. „Þetta er í raun komið út fyrir hefðbundinn sjávarútveg. Þá sáum við þessa þörf til að fá ungt, kraftmikið fólk úr öðrum atvinnugreinum inn í þetta. Við höfum ekki haft jafn greiðan aðgang að slíkum nemendum áður. Það er svo nauðsynlegt að nemendur viti af því sem er að gerast í sjávarútveginum og hugsanlega velja það sem starfsvettvang. Við þurfum fólk með alls kyns menntun og úr mörgum atvinnugreinum, með alls kyns metnað, til að efla sjávarútveginn,“ segir Erla.

Búin að ráða matvælafræðing
Í framhaldi af því segir Erla Codland hafa nýverið ráðið til sín matvælafræðing. Hann þekki líffræði og efnafræði og sé með sterkan bakgrunn til þess að finna leiðir til áframvinnslu; hvað hægt sé að gera við virku efnin. „Það var ekki lagt upp með þetta fyrst en við sjáum að það er þörf á því. Markmiðið er fullnýting á aflanum, okkur er treyst fyrir kvótanum og að gera sem mest og best úr því sem fæst. Við stefnum á að henda engu.“ Verkefni Codlands í dag séu t.d. að vinna hrálýsi og mjöl úr slógi og collagen úr fiskroði. „Roðið er eina afurðin sem við sendum út óunna. Það er klárlega verðmæti úti í heimi og af hverju ekki hér? Mjölið er svo notað í dýrafóður og ensím úr innyflum þorsksins eru notuð í snyrtivörur.“ Collagen verkefnið sé unnið í samstarfi við Spánverja og sé ekki ný framleiðsla. „Við erum að læra af þeim. Svo erum við að byggja upp markaði til þess að getað myndað viðskiptasambönd annars staðar í heiminum. Auðvitað reynum við að vera raunsæ og kanna markaðinn,“ segir Erla brosandi.

Samstarfsgrundvöllur við ólík fyrirtæki
Erla segir starf sitt mjög skemmtilegt og fjölbreytt því frekar sé unnið að því að nýta það sem áður var hent. „Samstarfið er breiðara og við sjáum smám saman hvers konar þekkingu við þurfum inn í fyrirtækið. Til að mynda samstarf við önnur fyrirtæki og háskóla. Við erum t.d. að leita að sumarfólki.“  Tveir starfsmenn eru í fullu starfi hjá Codlandi frá því um síðustu mánaðamót og Erla vonar að smám saman muni þeim fjölga. „Við höfum gert of mikið af því að hólfa niður námsleiðir og þá eigi að fara í einhverja ákveðna átt. Núna kynnum við fyrir nemendum hvaða möguleika þeir hafa og kynnast þeim í leiðinni. Nemendur í dag geta gert hvað sem þeir vilja og fundið sínar leiðir. Rótgróin fyrirtæki hafa gott af ferskum og kraftmiklum námsmönnum samhliða reynslu starfsmanna sem þegar eru til staðar.“

Viðreisn
Viðreisn



Sjávarútvegur verði fyrsta val nemenda
Aðspurð segir Erla að mest hafi komið á óvart hversu margir séu að gera frábæra hluti í sjávarútvegi og hversu fjölbreyttur hann sé. „Mörg fyrirtæki myndu ekki tengja sig við sjávarútveg en eru það samt og ættu að vera stolt af því. Það hefur einnig komið mér á óvart hversu gott og auðvelt er að vinna með fjölbreyttu fólki. Við höfum verið að nálgast fólk með sameiginlega hagsmuni og þá er eftirleikurinn auðveldur. Það fer áfram sem er beggja hagur og samskiptin í lagi.“ Framtíðarsýn Codlands segir Erla vera skýra. „Nýta allan afla sem kemur á land og framleiða vörur sem eru mikilvægar. Koma þeim í verð og skoða hversu langt við komumst. Halda áfram að vera fjölbreytt. Sjávarútvegur er svo spennandi vettvangur og draumurinn er að hann verði fyrsta val hjá námsfólki,“ segir Erla að lokum.