Mannlíf

„Og svo nýja í næstu höfn“ - á morgun
Þriðjudagur 8. maí 2007 kl. 09:55

„Og svo nýja í næstu höfn“ - á morgun

Dagskrá undir heitinu „Sjómannslíf, sjómannslíf...“ þar sem teknir eru fyrir textar í sjómannalögum, með lifandi tóndæmum, verður í Saltfisksetrinu í Grindavík miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20.
 
Sjómennskan lokkar og laðar! Í sjómannalögum fyrri tíma kemur fiskeríið, ástin, hið ljúfa líf, draumar og allt þar á milli við sögu.  Menningararfur okkar Íslendinga á sér djúpar rætur í þessum lögum og þeir eru ófáir Íslendingarnir sem þekkja þau út og inn.
 
Textar í sjómannalögum verða til umfjöllunar í Saltfisksetri Íslands í Grindavík miðvikudagskvöldið 9. maí kl. 20.  Það eru þau Ásgeir Tómasson frétta- og dagskrárgerðarmaður hjá Ríkisútvarpinu og Úlfhildur Dagsdóttir bókmenntafræðingur sem stíga á stokk og fjalla um texta í sjómannalögum. Hljómsveitin Meðbyr, sem staðið hefur fyrir söngskemmtuninni Óskalög sjómanna í Grindavík, mun sjá um að flytja tóndæmi inn á milli. Það verður því rífandi vertíðarstemmning í Saltfisksetrinu en á meðal þeirra laga sem hljómsveitin Meðbyr tekur má nefna Þórð sjóara, Einsa kalda og Suðurnesjamenn.
 
Fyrirlestur Ásgeirs “Fley og fagrar árar”,  fjallar að mestu um sjómannatexta í íslenskum dægurlögum á árunum 1953-70, hvernig það vildi til að farið var að yrkja þá og hvað ýtti undir að sjómennska og sjómannslíf var eitt aðalyrkisefni íslenskra textahöfunda um árabil.  Aðeins er tæpt á sjómannatextum fyrri alda og skoðað hvernig þróunin hefur verið síðastliðin ár.
 
“Og nýja í næstu höfn....” er umræðuefni Úlfhildar en hún ræðir um stöðu og ímynd kvenna í sjómannalögum. 
 
Það er Menningar- og bókasafnsnefnd Grindavíkur og Óskalög sjómanna sem standa að kvöldskemmtun þessari.  Aðgangur er ókeypis og allir velkomnir.

 

Mynd: Ásgeir Tómasson