Mannlíf

Þriðjudagur 12. nóvember 2002 kl. 08:10

Rosa fín revía

Í bænum okkar er best að vera - er heiti nýrrar revíu Leikfélags Keflavíkur en hún er sú fjórða í röðinni hjá félaginu. Þessi gefur hinum þremur ekkert eftir sem allar voru mjög vel sóttar og ekki er ólíklegt að aðsóknin verði jafn góð að þessari. Hvort það er innansveitarkrónika eða nágrannaforvitni þá er það ljóst að revíur félagsins hafa verið vinsælustu stykkin hvað aðsókn varðar.
Ljóst var að það var fyrir löngu kominn tími á nýja revíu enda síðast sýnd 1996, rétt eftir sameiningu sveitarfélaganna Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna. Þá tók höfundurinn Ómar Jóhannsson sameininguna
nokkuð fyrir en núna var hluti viðfangsefnisins bæjarbragurinn í Reykjanesbæ fyrir og eftir kosningar sl. vor. Árni Sigfússon, nýi (Kefll-?)Víkingurinn og bæjarstjóri Reykjanesbæjar og félagar hans í bæjarstjórninni fengu auðvitað góðan “skammt" og uphafsatriðið var “minning" um Ljósanótt. Þessi tvö fyrstu atriði eru stórgóð, skemmtilegur upphafssöngur um Ljósanóttina og síðan fjallar næsta atriðið (sem heitir: Tilboð sem ekki er hægt að hafna!) um atburðarásina þegar sjálfstæðismennirnir Þorsteinn Erlingsson og hinn Steininn; Steinþór Jónsson, heimsækja fyrrverandi borgarstjórann. Ekki skal sagt meira frá atriðinu sem er mjög skemmtilegt. Jón Marinó Jónsson og Guðrún Theodórsdóttir leika skötuhjúin og gera það vel. Jón Marinó nær vel töktum nýja bæjarstjórans og Guðrún leikur vel bæjarstjórafrúnna. Þau eru auðvitað nefnd eftir frægu forsetapari,
Kennedy nokkrum og Jackie!
Í næsta atriði “Aðgerðin Duty Free" (Fríhöfnin þið vitið!) er tekið á uppákomu tollvarða á meintu smygli starfsmanna Fríhafnarinnar og Leifsstöðvar fyrr á þessu ári. Þar fer mikinn nýi sýslumaðurinn, kallaður Bene (Jóhann Benediktsson) og er leikinn af Sigurði Ágúst Sigurþórssyni. Næsta atriði er “Löggustjórinn" en það er auðvitað nýráðinn yfirlögregluþjónn í Keflavík; fyrrverandi fótboltakappinn og Hljómamaður Karl Hermannsson, ekki “Léttur í lundu", heldur “Léttur í löggunni". Atriði um læknavandræði Heilsugæslu Suðurnesja er ágætt. Arnar Fells nær yfir- og fæðingalækni okkar ágætlega. Saumaklúbburinn
Sporið er frábært atriði þar sem tekið er á margumræddum súlustað í Reykjanesbæ og toppað með innkomu “prinsessu úr Sandgerði". Tinna Kristjánsdóttir, ung leikkona nær prinsessunni vel.
Eftir hlé eru mjög skemmtileg atriði um knattspyrnuna sem og unglingana í Reykjanesbæ í dag! Blámann rekur bláa herinn sem flestir þekkja og bróðir hans flugvallarstjórinn á stórt “leikfangasafn".
Bakarasonurinn sem kom sá og sigraði í Ljósanæturlaginu er “tekinn í bakaríið" og nýja bæjarstjórnin ræðir málin í nýja víkingaþorpinu. Þar kemur spákona nokkur við sögu sem segir “Arne" og félögum að það eina sem vanti séu peningar! Lokaatriðið heitir “Veislan" og þar segir Árni bæjarstjóri að það sé komið að honum og hans fjölskyldu. Af hverju? Jú, bæjarstjórinn fyrrverandi og stjórnarformaður
Suðurnesja kíkir í “veisluna", nokkuð fyrirferðamikill og fyndinn, með hitaveitustjóranum, sem skaffar peningana í allt saman!
Sem sagt; flott revía þar sem tekið er á helstu málefnum Suðurnesja og Reykjanesbæjar síðustu mánuði. Hreinlega eins og hér væri “Spaugstofa Suðurnesja" því þetta eru allt nýleg mál sem nær allir
ættu að þekkja, jafnvel ekki heimamenn. Manni leiðist ekki stundarkorn. Ekki skal leikur þessara áhugaleikara dæmdur stíft. Slíkt er ekki sanngjarnt nema ef mjög illa tækist til en svo er ekki. Þetta er þræl skemmtilegt. Flestir stóðu sig mjög vel og enginn illa. Það helsta sem mætti bæta er söngurinn sem í nokkrum atriðum mætti vera hærri og greinilegri. Rúnar Jóhannesson er greinilega mikið efni í leikara. Hann nær persónunum sem hann leikur frábærlega, sérstaklega “Ljósálfinum og hótelstjóranum". Einnig tekur Ómar Ólafsson fyrrverandi bæjarstjóra mjög vel. Eins og fyrr greinir
leikur Jón Marinó nýja bæjarstjórann vel. Textinn í verkinu er mjög góður, bæði talað mál og söngtextar eru sérlega skemmtilegir. Ingibjörg Ósk Erlendsdóttir syngur og leikur bæjarstjóradótturina Védísi og stendur sig vel. Það var mikil gleði í sýningunni og ljóst að Helga Braga hefur náð vel til ungu leikaranna. Ómar Jóhannsson sýnir það og sannar að hann leikur sér að skrifa revíu og það þótt hann hafi búið og starfað í Reykjavíkinni mörg undanfarin ár og aldrei í Reykjanesbæ! Miðað við hvað það var mikið nýtt efni í henni er alveg ljóst að það er leikandi hægt að “rigga upp" revíu að minnsta kosti annað hvert ár.
Það er alveg ljóst að viðfangsefnin hér á svæðinu eru næg.

Páll Ketilsson.