„Segið það við mig“
Nýkjörinn sóknarprestur Keflavíkurkirkju vill heyra skoðanir sóknarbarna sinna.
„Tilfinningin er mjög sérstök og dálítið óraunveruleg ennþá. Í huganum er ég ennþá bara litla stúlkan í sunnudagaskólanum á kirkjubekk í Keflavíkurkirkju. Nú er ábyrgðin mín - að halda utan um fólkið og starfið,“ segir Erla Guðmundsdóttir en rétt tæpir þúsund sóknarbörn í Keflavíkursókn mættu á kjörstað og kusu ungu konuna sem næsta sóknarprest. Hún er fyrsta konan sem gegnir þessu embætti í Keflavíkurkirkju og þykir það við hæfi á 100 ára afmæli kosningarréttar kvenna.
„Ég kom hingað fyrir níu árum og hef starfað með góðu fólki; prestunum tveimur, Sigfúsi og Skúla, organistanum Arnóri og rekstrarstjóranum Þórunni. Nú er bara að halda áfram því sem við höfum verið að byggja upp síðustu árin. Jafnframt tek ég til mín það sem ég hef heyrt síðustu vikur í þessu ferðalagi sem „kosningabaráttan“ hefur verið; hvað ég og kirkjan getum gert betur. Mitt er að hlusta og hugleiða hvernig á að halda áfram.“
Arnór, Sigfús, Skúli og Erla.
Uppbyggjandi gagnrýni til góðs
Eðlilega hafa sóknarbörn skoðanir og Erla segist gjarnan vilja heyra þær. „Segið það við mig, látið mig vita og okkur sem berum saman ábyrgð á safnaðarstarfinu. Við getum ekki breytt, bætt og styrkt okkur öðruvísi. Oftast hafa skilaboðin komið með öðrum leiðum sem fólk vill koma á framfæri. Ef gagnrýnin er jákvæð og uppbyggjandi er hún vissulega til góðs. Hana þarf ég.“
Bent var á löglega og lýðræðislega leið
Aðspurð hvort erfitt hafi verið að vera ein í kjöri segir Erla það hafa verið sérstakt ferli. „Þegar Skúli fékk embætti í Neskirkju kom upp orðrómur um hvort ég fengi ekki starf sóknarprests en það var vissulega ekki þannig. Ég er ekki með doktorspróf og þetta er opinber stjórnsýsla og það ber að ráða þann sem er hæfastur varðandi menntun og reynslu.“ Skúli hafi þá benti sóknarbörnum á að þetta væri lögleg leið sem hægt væri að fara - að kalla til almennrar prestkosningar. „Sú varð raunin og yndislegt fólk sem stóð að baki því. Ég átti ekki von á að fólk myndi ganga í hús og styðja kirkjuna sína á þennan hátt. Allir sem skrifuðu undir voru ekkert endilega að styðja mig heldur lýðræðislegu leiðina sem var farin.“
Langt í frá keppnismanneskja
Svo kom á daginn að Erla var ein í kjöri og það fór hljótt um kosningabaráttuna. „Ég er langt í frá keppnismanneskja, ég er frekar persónan með 'takk fyrir þátttökuna'-spjaldið. Fólkið í kringum mig sagði við mig að ég yrði að fá gott kjör og styrk inn í starfið. Ég er því mjög þakklát fyrir þessi tæp þúsund sem gengu á kjörstað því það er ekkert sjálfgefið. Það var dásamleg stund hér í Kirkjulundi þegar formlega var tilkynnt að ég hefði náð kjöri,“ segir Erla, sem jafnframt er fyrsta konan sem gegnir starfi sóknarprests í Keflavíkurkirkju.
„Já, þetta eru sérstök tímamót af því að kirkjan er að hefja nýtt árhundrað. Svo er það með karlana sem voru á undan. Ég get vel lært af þeim og ég á enn sóknarprestinn að sem er farinn. Ég kvíði þessu ekki, ég er með svo gott fólk í kringum mig, góða sóknarnefnd og sjálfboðaliðana alla.“
Nýr prestur hafi einlæga trú í hjarta
Nýr prestur verður kjörinn við hlið Erlu á næstu vikum og hún er spurð um hvernig það gangi. „Það ferli er að fara í gang og þau sjö sem sóttu um preststöðuna koma í viðtal hjá valnefnd. Það leggst bara vel í mig. Þetta eru allt frambærilegir einstaklingar og einn þeirra hlýtur svo prestvígslu í sumar ásamt mér. Ég vona að sá eða sú sem kemur verði einstaklingur sem vill vinna af krafti og heilum hug fyrir Keflavíkurkirkju og samfélagið hér. Og hafi einlæga trú í hjarta,“ segir Erla að lokum.