Mannlíf

Skemmtileg samvinna barnabókahöfundar og kennara í Sandgerði
Miðvikudagur 16. nóvember 2011 kl. 15:57

Skemmtileg samvinna barnabókahöfundar og kennara í Sandgerði

Rithöfundurinn Selma Hrönn Maríudóttir og kennararnir Erla B. Rúnarsdóttir og Margrét A. Sigurvinsdóttir hafa tekið upp skemmtilegt samstarf í Sandgerði. Eins og margir vita er Selma höfundur bókanna Grallarasögur sem fjalla um kisurnar Glingló og Dabba, hundinn Rex og ævintýri þeirra. Erla og Margrét eru kennarar við Grunnskólann í Sandgerði og starfa báðar í lestrarteymi skólans.

Erla og Margrét hafa verið að útbúa vinnubækur sem fylgja bókunum og auka þannig notagildi þeirra í skólastafi. Grallarabækurnar eru orðnar fimm talsins og eru vinnubækur við fyrstu tvær bækurnar tilbúnar og hinar þrjár í vinnslu.

Í verkefnunum eru notuð nokkur málfræðiheiti, t.d. samheiti, andheiti, samsett orð, samhljóð og sérhljóð. Þá er einnig unnið með rím, stafarugl, orðarugl og orðaleit svo eitthvað sé nefnt.

Áskrifendur á vefnum www.grallarar.is geta skráð sig inn á áskriftarsvæðið og hlaðið vinnubókunum niður á pdf sniði.

Nú á dögunum var þeim stöllum veittur styrkur frá Menningarráði Suðurnesja í þetta samstarf. Til gamans má geta þess að bókin Sumar í Sandgerði sem er önnur bókin í bókaflokknum Grallarasögur, kom út á táknmáli fyrr í mánuðinum og eru nú fjórar bækur af fimm fáanlegar í táknmálsútgáfu.

Það var Samskiptamiðstöð heyrnarlausra og heyrnarskertra sem sá um gerð táknmálsútgáfunnar og táknmálsþulur er Kolbrún Völkudóttir.

245.is

Mynd frá vinstri: Erla B. Rúnarsdóttir kennari, Selma Hrönn Maríudóttir barnabókahöfundur og Margrét A. Sigurvinsdóttir kennari.