Spennandi gönguferð á Reykjanesi á laugardag

Á laugardaginn verður haldið frá Gunnuhver að litla vitanum á Skarfasetri á Reykjanestá sem er upphafsstaður „Langleiðarinnar“.
Fylgt verður slóða sem liggur með ströndinni eftir Krossavíkur- og Háleyjabergi að brimkatlinum sem er sérkennilegt náttúrufyrirbæri. Þarna er gaman að fylgjast með samspili sjávar og lands einkum þegar það er brimasamt. Miklir skipskaðar hafa orðið á þessu svæði. Áfram verður haldið eftir Staðarbergi að Staðarhverfi en þar var prestssetur og kirkjustaður. Staðarkirkja var flutt í Járngerðarstaðahverfi árið 1909. Vegalengd er 19 km og göngutími 6-7 klst, segir í leiðarlýsingu.
Allar nánari upplýsingar er hægt að nálgast á heimasíðu Útivistar www.utivist.is
VF-mynd/elg: Reykjanesviti.