Samkaup
Samkaup

Mannlíf

Sundfólk í Grindavík synti 416 kílómetra á tveimur sólarhringum
Hluti af hópnum sem tók þátt í maraþonsundinu tekur hér víkingaklappið. VF-mynd: Hilmar Bragi
Miðvikudagur 2. nóvember 2016 kl. 06:09

Sundfólk í Grindavík synti 416 kílómetra á tveimur sólarhringum

„Við reynum að gefa af okkur líka. Við fréttum af ástandinu hjá honum Jóhannesi Gíslasyni og að hann væri orðið mikið lasinn. Við fórum að tala saman og vildum leggja honum lið. Þetta spurðist út og það finnst öllum mikið til Jóhannesar koma og vildu taka þátt. Í fyrra var það bara sunddeildin að synda með tvo eða þrjá gesti í einu en núna mættu með okkur knattspyrnudeildin með marga flokka og einnig körfuknattleiksdeilin þar sem meistaraflokkurinn synti með okkur síðasta klukkutímann. Þá hafa leikskólakonurnar sem voru með hann þegar hann var lítill, kennararnir úr skólanum og fjölmargir aðrir komið og synt honum til stuðnings. Það er gríðarlega mikill samhugur hér í Grindavík,“ segir Magnús Már Jakobsson hjá sunddeild Grindavíkur í samtali við Víkurfréttir.

Magnús Már segir að það sé eitthvað svo stórkostlegt að gerast í Grindavík sem endurspeglast í þeim samhug sem fólk hafi fundið í tengslum við maraþonsundið um síðustu helgi þegar sunddeild Grindavíkur stóð fyrir fjáröflun fyrir Jóhannes Gíslason sem er með mjög sjaldgæfan hrörnunarsjúkdóm.

Maraþonsundið hófst síðasta föstudag klukkan 14 og lauk tveimur sólarhringum síðar, á sunnudag klukkan 14. Þá höfðu krakkarnir í sunddeildinni synt, með aðstoð frá körfuknattleiks- og knattspyrnudeilinni og ýmsum gestum, samtals 416 kílómetra. Það jafngildir því að þau hafi synt frá Grindavík til Akureyrar eða frá Grindavík til Súðavíkur eða næstum því að Höfn í Hornafirði. Áður en maraþonsundið hófst voru hugmyndirnar að synda til Bolungavíkur, Akureyrar eða jafnvel Egilsstaða, þannig að eitt af þeim markmiðum náðist.

Nánar verður fjallað um maraþonsundið í máli og myndum í Víkurfréttum á morgun og í Sjónvarpi Víkurfrétta á ÍNN á fimmtudagskvöld kl. 21:30.