Mannlíf

Sýningin Völlurinn opnar á mánudaginn
Miðvikudagur 25. mars 2009 kl. 10:14

Sýningin Völlurinn opnar á mánudaginn


Sýningin Völlurinn verður opnuð í  Duushúsum næstkomandi mánudag kl. 18 en þann dag eru 60 ár liðin frá því að Alþingi samþykkti að Ísland yrði stofnaðili að NATO.

Í hverju fólst starfsemi bandarísku herstöðvarinnar og hvaða áhrif hafði hún sem vinnustaður og nágranni á byggðarlögin í kring? Um þetta fjallar sýning Byggðasafns Reykjanesbæjar og er hún liður í viðleitni safnsins til að varðveita og sinna þessari sérstöku sögu.

Í hugum flestra Íslendinga var Keflavíkurflugvöllur fyrst og fremst pólitískt bitbein. Fyrir Suðurnesjamenn var hann stór vinnuveitandi og nágranni innan girðingar. Völlurinn var ekki aðeins herstöð, heldur heilt byggðarlag með skólum, kirkju, sjúkrahúsi, verslunum, kvikmyndahúsi, skemmtistöðum, útvarpi, sjónvarpi, blaðaútgáfu og öðrum fylgifiskum daglegs lífs, verkstæðum og vinnustöðum. Allt var þar með öðrum brag, hvort heldur það var rafmagn, byggingar, húsbúnaður eða gjaldmiðill, þar var allt upp á ameríska vísu.