Viðreisn
Viðreisn

Mannlíf

Það er heiðarleikinn sem gildir
Kolbrún Guðjónsdóttir.
Laugardagur 21. júní 2014 kl. 09:00

Það er heiðarleikinn sem gildir

Nýr formaður taekwondosambands Íslands.

Keflvíkingurinn Kolbrún Guðjónsdóttir er með svarta beltið í taekwondo og er nýr formaður taekwondosambands Íslands. Hún er jafnframt fyrsta konan til að gegna þeirri stöðu og fyrsti Suðurnesjabúinn til að gegna formennsku í stjórn sérsambands innan ÍSÍ. Hún segist bæði hlakka til og kvíða fyrir að takast á við nýja hlutverkið.

Allir sitji við sama borð
Kolbrún hefur setið í stjórn taekwondosambandsins undanfarin tvö ár og finnst formannsstaðan ekki skipta máli sem slík. „Það sem skiptir mig máli er að stjórnin nái að vinna vel saman og sé samstillt í að ná settum markmiðum. Ég er reyndar ekki búin að sofa síðan ég sagði já við að taka þetta að mér,“ segir Kolbrún og hlær, því það er svo margt sem að hana langar til að breyta. Hún bætir við að eðlilegt hafi verið að hún hafi velt fyrir sér hvort hún sé hæfasti einstaklingurinn til að stjórna þessu. Það eiga örugglega eftir að koma einhverjar hraðahindranir en þær sé bara hægt að yfirstíga því ég veit að ég hef gott fólk með mér. Það þarf einnig stundum að stíga aðeins á mig ef ég verð of bráðlát og með of margar hugmyndir sem ganga alls ekki upp.“ Eftir að Kolbrún tók við hófst hún strax handa við að skipuleggja sig og punkta niður hvernig best væri að vinna með öðrum. „Ég er ekki búin að kalla saman fyrsta fundinn. Ég hef aldrei verið formaður áður og á ýmislegt ólært. Ég veit að ég þarf að halda utan um ákveðna hluti og stjórna að allt sé rétt gert og allir sitji við sama borð.“ Og þar veit ég að ég á eftir að standa mig vel því það er heiðarleikinn sem gildir,“ segir Kolbrún með áherslu.

Viðreisn
Viðreisn

Kolbrún ásamt dóttur sinni Ástrósu Brynjarsdóttur.

Að kunna að stíga til hliðar
Kolbrún segist vera mjög fylgin sér og geri það vel sem hún gerir. „Ég er einnig mjög fylgin skoðunum mínum en þær eru ekki alltaf þær réttustu. Stundum verð ég að sjálfsögðu að gefa eftir líka. Svo er örugglega ekkert auðvelt að eiga dóttur sem er svona framarlega í íþróttinni og kunna að stíga til hliðar þegar ákvarðanir eru teknar sem viðkoma henni, sem er mjög mikilvægt. Ég held samt að fólkið sem stýrir hinum deildunum á landinu viti hvernig hún stendur sig og því þurfi ég ekkert að hafa áhyggjur af illu umtali eða afbrýðisemi. Þó svo að það geti alltaf komið neikvæðar raddir inn á milli verð ég bara að vera dugleg að loka eyrunum og trúa á sjálfa mig og réttlætið,“ segir Kolbrún.

Ungir taekwondo iðkendur.

Yngri og öflugri iðkendur
Taekwondoíþróttin er sífellt að stækka á Íslandi og iðkendum fer fjölgandi. „Við erum að fá meira af efnilegu ungu fólki. Iðkendur verða öflugri og yngri og uppbygging íþrótta yfirleitt hefst miklu fyrr. Bæði hérlendis og erlendis. Krakkar á unglingastigi eru að komast í landslið,“ segir Kolbrún og að það sem skipti miklu máli sé eftirfylgni foreldra og svo náttúrulega umfjöllun í fjölmiðlum skiptir gríðarmiklu máli. „Við þurfum að vera duglegri að fylgja því eftir. Það hjálpar til því þá eru einhverjir tilbúnir að leggja okkur lið og styrkja okkur og í framhaldinu getum við styrkt betur starfið. Við eigum ekki fjármagn til að fylgja sterkum einstaklingum eftir eins og við myndum gjarnan vilja gera. Að fara erlendis að keppa og í æfingabúðir hefur svo mikið að segja fyrir iðkendur íþróttarinnar.“ Í kringum taekwondo vinni margir þjálfarar, keppendur og foreldrar sjálfboðavinnu til að draumur margra geti orðið að veruleika. Svo öflug sé taekwondofjölskyldan.

Sigursæll hópur.

Hefur lært mikið í keppnisferðum erlendis
Kolbrún var Íslandsmeistari í sínum flokki og ákvað eftir það mót að taka sér hlé í bardaga, en langar samt að halda sér við og mun halda áfram að æfa með dóttur sinni. Hún ætlar samt að einbeita sér að formennskunni. Flestir í stjórn taekwondosambandsins eru, eins og Kolbrún, foreldrar barna sem æfa íþróttina og hafa í framhaldi byrjað að æfa sjálf, en hún segir að mestu máli skiptir að þar sé fólk sem hafi sjálft æft íþróttina. „Það er ekki nóg að hafa skoðun fyrir hönd barna sinna heldur þarf að hafa gengið í gegnum það sem þau ganga í gegnum til að vita út á hvað þetta gengur. Ég hef lært mjög mikið af því að fara á mót erlendis með dóttur minni og séð hvernig aðrir gera þetta og því tileinkað mér ýmislegt sem nýtist okkur hér heima við uppbyggingu starfsins.“ Margir erlendir þjálfarar verði oft heillaðir af ungum iðkendum hér því þeir vilji leggja sig svo fram að ná langt. „Stórasta land í heimi!“

Á móti erlendis.

Góð samvinna og samheldni
Góður stuðningur og bakland segir Kolbrún skipta miklu þegar tekið er að sér hlutverk eins og hennar. Hún segir gott fólk vera með sér í stjórninni og hún geti leitað til fjölmargra. „Ég veit hvar ég hef fólk og gott að geta nýtt mér styrkleika fólksins í kringum mig. Það er mikil samheldni og samvinna hjá deildinni okkar í Keflavík og ég tek það viðhorf með mér í formennskuna. Vonandi getur sambandið notið góðs af því og iðkendur um land allt,“ segir Kolbrún og bætir við að lokum að hennar mottó hafi alltaf verið að gera hlutina eins og þeir væru hennar eigin því það skili alltaf bestum árangri.

VF/Olga Björt