Þrír jafnir með hæstu einkunn frá FS
Skólaslit haustannar við Fjölbrautaskóla Suðurnesja fóru fram í gær og að þessu sinni útskrifuðust 48 nemendur frá skólanum. Alls voru 30 nemendur úr Reykjanesbæ, átta úr Grindavík, fimm frá Sandgerði, fjórir úr Garði og einn úr Vogum.
Að venju veitti Sparisjóðurinn í Keflavík nemendum skólans viðurkenningar fyrir góðan námsárangur og afhenti Baldur Guðmundsson þær fyrir hönd Sparisjóðsins. Að þessu sinni voru þrír nemendur jafnir þegar kom að því að veita viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á stúdentsprófi en það voru þau Guðmundur Benjamínsson, Katrín Pétursdóttir og Þórunn Kristín Kjærbo.
Þau Guðmundur Benjamínsson, Þórunn Kristín Kjærbo og Chalida Jaidee fengu viðurkenningu fyrir góðan árangur í stærðfræði og raungreinum, Guðmundur Benjamínsson fyrir árangur í tungumálum og Katrín Pétursdóttir fyrir íslensku.
Við athöfnina voru veittar viðurkenningar fyrir góðan námsárangur. Þórunn Kristín Kjærbo fékk gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og viðurkenningar frá skólanum fyrir árangur sinn í raungreinum, ensku og spænsku. Guðmundur Benjamínsson fékk einnig gjöf frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og viðurkennningar frá skólanum fyrir árangur sinn í sögu og þýsku. Þá fékk Chalida Jaidee viðurkenningu frá Verkfræðistofu Suðurnesja fyrir góðan árangur í stærðfræði og frá skólanum fyrir árangur sinn í efnafræði og frönsku.
Katrín Pétursdóttir fékk viðurkenningar fyrir góðan árangur í frönsku, líffræði og sögu og Adam Hart Rúnarsson Fjeldsted fyrir jarðfræði, spænsku og sögu. Þær Helga Rut Hallgrímsdóttir og Marína Ósk Þórólfsdóttir fengu verðlaun í stærðfræði fyrir nemendur sem ekki eru á náttúrufræðibraut en auk þess fékk Helga Rut viðurkenningar fyrir spænsku og þýsku og Marína Ósk fyrir ensku og spænsku. Þá fékk Harpa Rakel Hallgrímsdóttir viðurkenningar fyrir góðan árangur í spænsku og þýsku og Ingi Eggert Ásbjarnarson fyrir árangur í tölvufræðigreinum. Þær Katrín Pétursdóttir og Rakel Lárusdóttir fengu gjöf frá skólanum fyrir störf í þágu nemenda.
www.fss.is