Mannlíf

Varð jólabarn í Ameríku
Laugardagur 25. desember 2010 kl. 14:38

Varð jólabarn í Ameríku

Hún stelst stundum í að hlusta á jólalög á sumrin, henni finnst þau svo falleg og setja hana í ákveðna stemningu. Konan heitir Helga Kristín Guðmundsdóttir, gift Eyjólfi Sverrissyni, nú búsett í Innri Njarðvík. Þau eiga þrjú uppkomin börn Guðmund Árna, Ingveldi og Sævar Frey.

„Já, ég byrja alltaf á því að spila diskinn með Bing Crosby, sú tónlist er svo falleg og kemur mér strax í jólagírinn”, segir Helga og heldur áfram. „Mér finnst alltaf svo róandi að hlusta á jólalög og ég fer alltaf í ákveðna stemningu við það. Sennilega er ég svona mikið jólabarn af því ég ólst upp að hluta til úti í Ameríku en þar vann pabbi hjá Sameinuðu þjóðunum í 23 ár,“ segir Helga. Pabbi hennar vann einnig sem lögregluþjónn í hliðinu hérna uppi á Velli í 17 ár en hann hét Guðmundur Sigurðsson og er nú látinn. Eygló Jensdóttir, mamma Helgu, býr ennþá í Bandaríkjunum ásamt Sonju og Ásgeiri yngri systkinum Helgu. Þrjú systkin búa hérna á Íslandi, þau Helga sem er næstelst, Sólveig, sem er elst og Gummi yngri bróðir, ásamt fjölskyldum í Reykjanesbæ.
Blaðamaður kíkti í nýbakaðar smákökur einn fallegan morgun í desember til Helgu Kristínar.


Jólaljós og jólahefðir
„Þegar ég var lítil stelpa í Ameríku sá ég svo mikið af jólaljósum og jólaskrauti en lítið var þá um jólaskraut á Íslandi. Það voru mjög fáir með ljósaseríur í gluggum hérna heima. Núna hefur þetta alveg snúist við. Hérna er miklu meira ljósaskraut hjá fólki heldur en í Ameríku fyrir jólin, því það er svo dýrt rafmagnið þar,“ segir Helga.
Heima hjá Helgu og Eyfa er alltaf mikil jólastemning í kringum jólin og jólatréð á heimilinu skipar fallegan heiðurssess. Helga keypti stórt gervitré í Ameríku fyrir mörgum árum og skreytir tréð alltaf á sama hátt. „Jólatréð geymir góðar minningar úr lífi fjölskyldunnar og á það hengjum við jólaföndrið, sem börnin okkar gerðu þegar þau voru lítil. Á það hengjum við líka allt gamla jólatrésskrautið frá því að við Eyfi byrjuðum að búa. Alltaf sama skrautið ár eftir ár, það er svo skemmtilegt. Það sem gerir jólin spes eru allar hefðirnar.Við Sólveig systir og dætur okkar bökum alltaf smákökur saman fyrir hver jól. Á aðventunni förum við Eyfi með krakkana okkar, fjölskylduna saman á kaffihús eða veitingahús. Við byrjuðum á þessu þegar þau voru lítil, fara með þau á kaffihús og þetta vekur alltaf upp góða tilfinningu.Við mæðgur, ég og dóttir mín, eigum einnig saman notalega stund á aðventunni og horfum alltaf á sömu jólamyndirnar ár eftir ár, Home Alone eða Christmas Vacation með Chevy Chase. Það er alltaf jafn gaman. Á Þorláksmessukvöld erum við alltaf með grafinn lax og reyktan fyrir okkur hérna heima ásamt jólaöli en fyrr um daginn förum við hjónin til vinahjóna okkar í Njarðvík í skötu. Svo förum við alltaf niðrí bæ og um klukkan hálfellefu förum við til tengdó í flatkökur með hangikjöti, jólaöl og smörrebrauð. Ég bý einnig til jólaísinn á Þorláksmessu. Á aðfangadag byrja ég að elda kalkúninn klukkan tvö en svo skreppum við aðeins frá um fjögurleytið með ljós og greni í kirkjugarðana og hugsum til ættmenna sem farnir eru. Við borðum alltaf klukkan 6 þegar klukkurnar í útvarpinu hringja jólin inn. Þá óskum við hverju öðru gleðilegra jóla og borðum svo. Eftir að búið er að opna pakkana fyllist húsið af gestum úr stórfjölskyldunni okkar. Þá fá allir jólaísinn og smákökur. Jólin eru svo hátíðleg og full af yndislegum hefðum,“ segir Helga sæl á svip.


Það er aldrei of seint að búa til hefðir, við getum alltaf búið þær til. Hvaða hefð langar þig að búa til í kringum jólin fyrir ástvini þína? Framkvæmdu hugmynd þína og endurtaktu hana á hverju ári, þá ertu komin með hefð, sem vonandi gleður alla. Þetta er það sem börnin muna eftir og yljar okkur fullorðna fólkinu einnig um hjartarætur þegar fram líða stundir.

Helga Kristín ætlar að leyfa okkur að glugga í gömlu uppskriftabókina sína og njóta uppskrifta af hátíðarkvöldverði fjölskyldu hennar á aðfangadag.


Hátíðarkalkúnn
-frá Ingveldi Eyjólfsdóttur tengdamóður Helgu

5 – 6 kg fugl

Fylling
2 bollar sellerí (tvö búnt)
2 ½ bolli laukur (tvo lauka)
2 bollar græn papríka (tvær)
2 hvítlauksrif
- Allt steikt í íslensku smjöri.

1 bolli sjóðandi vatn
2 kjúklingateningar
-Hellt yfir grænmetisblönduna að ofan

½ ristað brauð (mylja það)
- Blanda við

4 egg (pískuð)
- Hella yfir
Hræra öllu saman.
Troðið inn í kalkúninn og afgangur settur í eldfast mót og steikt í 20. mín. í lokin.

Kalkúnn settur inn í 170° heitan ofn. Steiking 3 ½ til 4 klst.
Það er talað um ca. 30 til 40 mín. á hvert kíló í steikingu.

50 g íslenskt smjör brætt á hálftíma fresti og hellt yfir kalkúninn allan steikingartímann.

Sósan:
Sjóða hálsinn í tvo tíma.
- Baka sósuna upp.
Bæta kjúklingateningum út í soðið og rjóma eftir smekk.

Meðlæti:
- Sætar kartöflur stappaðar og bætt í þær smá kanil, smá púðursykur og nokkrar valhnetur til skrauts ofan á.
- Kartöflumús.
- Cranberry sulta bragðast vel með.
- Ferskt grænmetissalat ef vill.
- Gul maískorn.
- Laufabrauð.
Spari salat frá Helgu:
kokteil ávextir
þeyttur rjómi
saxað suðusúkkulaði

Jólaísinn á
aðfangadagskvöld

- frá Sollý æskuvinkonu Helgu

3 eggjarauður settar í skál
125 g sykur
- þeytt saman
2 pelar þeyttur rjómi
3 eggjahvítur þeyttar sér

Öllu blandað saman í skál og Toblerone súkkulaði brytjað út í. Sett í frysti deginum áður.

Verði ykkur að góðu!

„Þegar ég var lítil stelpa í Ameríku sá ég svo mikið af jólaljósum og jólaskrauti en lítið var þá um jólaskraut á Íslandi.“

Jólastofur hjá Helgu.

Viðtal: Marta Eiríksdóttir. Myndir frá Mörtu og úr einkasafni.