Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
sunnudaginn 10. maí 2020 kl. 10:51

Áhugi á námi alltaf að aukast

Um 1100 nemendur sækja nám og námskeið á vorönn Keilis á Ásbrú. Áskoranir í rekstri og mikilvægt að gera skólann sjálfbæran. Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri er bjartsýnn á framtíð skólans og unnið sé að því að auka námsframboð.

„Keilir hefur allt frá stofnun verið framsýnn í tækni og þjónustu við nemendur og því er skólinn vel undirbúinn vegna aðstæðna sem hafa skapast á tímum COVID-19. Við höfum ekki fundið fyrir brottfalli úr námi en að sama skapi haft þetta auðvitað haft áhrif á starfsfólk. Það er ljóst að næstu mánuðir verða áhugaverðir fyrir Keili því við höfum verið að vinna að fjárhagslegri endurskipulagningu á sama tíma og við þurfum að leggja áherslu á að auka námsframboð,“ segir Jóhann Friðrik Friðriksson, framkvæmdastjóri Keilis á Ásbrú.

Keilir er nýsköpunarfyrirtæki og var stofnað í kjölfar brotthvarfs Varnarliðsins sem fór árið 2006 og á meðan unnið var að stofnun skólans kom bankahrun með afleiðingum sem flestir þekkja. Það hafa verið margar áskoranir á vegi Keilis sem, eins og mörg önnur nýsköpunarfyrirtæki, hefur þurft að feta sinn veg, sem hefur ekki alltaf verið beinn og breiður.

Með atvinnuleysi í hæstu hæðum mun aðsókn að námi aukast. Jóhann segir að það hafi verið óskað eftir því að skólinn mætti eftirspurn eftir auknu námsframboði í sumar og haust. „Við höfum verið að vinna í því með Háskóla Íslands og senda menntamálaráðneyti hugmyndir um það eins og fleiri skólar eru að gera.

Keilir er nýsköpunarmenntastofnun og stofnuð eftir tvö hrun á Suðurnesjum, brotthvarf Varnarliðs og bankahrun, þannig að áföll eða stærri verkefni eru ekki nýlunda. Það er ekki nema ár síðan að WOW féll og það hafði margvísleg áhrif á Suðurnesjum, m.a. Keili. Nú liggur fyrir mikið atvinnleysi og þetta fólk þarf að komast í virkni og nám og við verðum að vera tilbúin að taka á móti því. Við höfum verið í góðu samtali og samstarfi við menntamálaráðuneytið og sent okkar áherslur þangað og vonum að það skili okkur árangri. Þetta eru vægast sagt erfiðir og sérstakir tímar en í því geta falist tækifæri sem ég tel að geti verið fyrir Keili.“

Framsækinn skóli

Frá upphafi hefur Keilir bæði verið með tæknina í fararbroddi í sinni starfsemi sem og áhugaverða blöndu í námsframboði, vinsælasta greinin hefur verið svokölluð háskólabrú en að henni lokinni er hægt að sækja um nám í Háskóla Íslandi.

„Við erum nýsköpunarsetur í menntamálum, höfum prófað ýmislegt, margt hefur gengið en sumt ekki eins og gengur. Við höfum reynt að vera víðsýn og framsýn og bjóða eitthvað sem aðrir hafa ekki gert. Yfir níutíu ungmenni sóttu um í tölvuleikjagerð síðasta haust og það er yfir höfuð mikil aðsókn í okkar fjölbreytta nám. Við sjáum á þeim umsóknum sem hafa borist að það er mikill áhugi á háskólabrú sem er að veita fólki annað tækifæri til náms. Þar erum við að sjá öðruvísi hóp en almennt í framhaldsskólum. Háskólabrúin okkar veitir aðgang inn í Háskóla Íslands, stærsta háskóla landsins. Margt fólk sem hefur verið að vinna í mikilli uppsveiflu ferðaþjónustunnar undanfarin ár hefur núna tækifæri til að sækja sér meiri menntun og vera þannig betur undirbúið þegar atvinnulífið fer á fleygiferð aftur. Við búumst við miklum fjölda umsókna í þetta nám okkar. Við höfum verið að leggja drög að sjálfbærni skólans til að vera í stakk búinn til að taka á móti þessu fólki. Á sama tíma erum við að berjast við fjárhagslega endurskipulagningu. Keilir hefur kannski aldrei verið sjálfbær sem er kannski eðlilegt fyrir nýsköpunarfyrirtæki en okkur hefur tekist ótrúlega vel á undanförnum árum að auka námsframboð sem er mikilvægt. Í vetur hafa aldrei verið fleiri í námi og á námskeiðum hjá okkur eða yfir ellefuhundruð manns.“

Við eigum gott bakland í sveitarfélögum og þeim sem standa að skólanum þannig að framtíðin er björt en við verðum að klára að hnýta hnútinn í fjárhagslegri endurskipulagningu.“

Þróunarvinna

Aðspurður um stuðning ríkisvaldsins segir Jóhann að einkaskólar eigi ekki heimtur á fjármagni frá ríkinu. Einkaskólum á Íslandi hafi þó gengið ágætlega á Íslandi, t.d. Tækniskólinn sem Keilir hefur átt í góðu samstarfi við sem og fleiri skólar, margir rótgrónir. „Keilir er orðinn rótgróinn á Suðurnesjum þó hann sé ekki. Við lögðum fram ígrundaða skýrslu til menntamálaráðuneytisins og hún snérist fyrir og fremst um það að við getum tryggt sjálfbærni skólans. Við höfum átt gott samstarf við Menntamálayfirvöld. Ég vænti þess að það verði tekið tillit til okkar starfs, sérstaklega í ljósi aðstæðna. Það skiptir máli að þessir skólar sitji við sama borð þegar gerðir eru þjónustusamningur við ríkið en við myndum vilja sjá samninga til lengri tíma. Þróunarvinna í námi er löng vegferð og það myndi auðvelda einkaskólunum að ákveðnir tekjupóstar séu til lengri tíma en til eins árs eins og verið hefur.“

Vinsælt flugnám

Flugnám og fleira nám tengt flugi fékk fljúgandi start í Keili en þegar til þess var stofnað var auðvitað horft til aukningar í fluginu og þeirrar stöðu sem Suðurnesin eru í með Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem stærsta vinnustað svæðisins og landsins. Jóhann segir að flugheimurinn sé sveiflukenndur.

„Hlutirnir geta verið fljótir að breytast í flugmálum. Það er stutt síðan við settum kraft í nám til flugmanns í samvinnu við Icelandair sem fyrir aðeins tveimur árum vantaði fjölda flugmanna. Svo fengum við fall WOW og svo núna COVID-19. Flugið er svolítið sveiflukennt en þörfin er samt um 700 þúsund flugmenn næstu tuttugu árin. Við bíðum eftir að veirutímum ljúki og vélarnar fari aftur á loft. Nú er frábær tími til að fara að læra flugið og vera tilbúinn eftir tvö ár þegar flugið fer í gang aftur. Það er ekki nema tvö ár síðan að allt var á fleygiferð og hafði þá verið í mikilli uppsveiflu í nokkur ár. Hér hafa allmargir flugmenn lokið námi frá Keili. Við munum fljúga mikið í sumar og vonum að veðrið verði gott. Keilir keypti Flugskóla Íslands á síðasta ári, erum því stærsti flugskóli á Íslandi, með flottan flota og kennara og góða stjórnendur. Við eigum eftir að sjá hverjar heimturnar verði í umsóknum en það er augljóslega frábært tækifæri fyrir þá sem vilja stefna á flugnám að fara í það núna.“

Aukið námsframboð

Jóhann segir að stöðugt sé unnið í þróunarvinnu varðandi námsframboð og nú er ljóst að þörfin verður mikil þegar atvinnuleysi er í hæstu hæðum eftir COVID-19.

„Við höfum verið að vinna í því að undanförnu að mæta svæðinu kannski meira. t.d. með námi í leikskólafræðum og geta verið háskólasetur. Einnig höfum verið áhuga á að setja aftur af stað Rannsókn og þróun sem var áður hér í Keili en datt niður þegar Tæknifræðiháskóli Íslands fór í Hafnarfjörð. Við viljum geta staðið undir merkjum okkar sem miðstöð vísinda, fræða og atvinnulífs. Þetta er m.a. það sem við höfum verið að vinna að í samvinnu við Háskóla Íslands. Þarna eru tækifæri í samstarfi við sveitarfélögin. Við vitum að menntunarstig leikskólakennara á svæðinu hefur verið lægra en við höfum viljað sjá það. Það eru kannski sóknarfæri líka fyrir fólk til að ljúka sínu námi í heimabyggð og þetta eru líka klár sóknarfæri fyrir Keili.“

Stór vinnustaður

Keilir er ekki bara mikilvæg menntastofnun á Suðurnesjum heldur líka stór vinnustaður en um eitthundrað manns starfa hjá fyrirtækinu, fólk með fjölbreytta menntun og bakgrunn.

„Eitt af því sem hefur einkennt starfið er kraftur og mikil samheldni hjá starfsfólki allt frá stofnun Keilis. Við erum bjartsýn þrátt fyrir að standa í þeim sporum að þurfa að berjast í fjárhagslegri endurskipulagningu á meðan það er óskað eftir því að við aukum námsframboð. Það er sérstök staða að vera í en það eru engu að síður spennandi tímar framundan þrátt fyrir allt og áhugi á námi er alltaf að aukast. Ef við lítum á Keili sem framsækinn ungling þá þurfum við kannski að fullorðnast aðeins og horfa enn lengra fram í tímann og móta stefnuna til lengri tíma en hefur verið gert. Það eru mjög spennandi tímar framundan. Áhugi á á námi er alltaf að aukast og við verðum að vera tilbúin.“

Menntunarstig hefur hækkað

Menntunarstig á Suðurnesjum hefur hækkað með stofnun Keilis en Jóhann segir þó enn nokkuð í land og það sé langtímaverkefni að hækka menntunarstigið. „Það hefur alltaf verið mikil aðsókn í Háskólbrú og við sjáum áframhaldandi mikla aukning þar. Það sækjast færri eftir staðnámi, aðsóknin er meiri í fjarnámið og það er í takti við breytingar í tækni og fræðslu almennt. Í Menntaskólanum okkar er 80% ungmenni héðan af Suðurnesjum og skiptist á milli sveitarfélaganna á Suðurnesjum. Sumir nemendur eru þó að koma langt að og gista þá í aðstöðu okkar, Keilisgörðum. Það er mikið fagnaðarefni að menntunarstig hefur hækkað en Suðurnesin eru þó hálfdrættingur á við meðatalið á landinu. Þetta er langt og strangt verkefni sem mun taka lengri tíma og Keilir er þátttakandi í þeirri vinnu,“ segir Jóhann Friðrik.

Um 1100 hundruð nemendur í ársbyrjun

Í ársbyrjun 2020 voru samtals um ellefu hundruð nemendur skráðir í nám og ýmiss konar námskeið á vegum Keilis og hafa aldrei fleiri aðilar lagt stund á nám við skólann en nú.

Fjöldi nemenda hefur þannig nærri því tvöfaldast frá því á sama tíma árið 2019. Munar þar mestu um nýnema í Menntaskólanum á Ásbrú sem hófu nám á stúdentsbraut með áherslu á tölvuleikjagerð í ágúst og atvinnuflugnema sem lögðu áður stund á nám í Flugskóla Íslands en hann sameinaðist Flugakademíu Keilis fyrr á árinu. Þá tók Keilir einnig yfir umsjón með námskeiði til inntökuprófs í læknisfræði sem hefur verið gríðarlega vinsælt, sérstaklega meðal framhaldsskólanema á undanförnum árum.

Stærstu námsbrautirnar í Keili eru Háskólabrú og atvinnuflugnámið. Á vorönn 2020 leggja rúmlega þrjú hundruð einstaklingar stund á nám í Háskólabrú, bæði í fjarnámi og staðnámi. Frumgreinanámið, sem gildir til inntöku í allar deildir Háskóla Íslands ásamt fjölda háskóla, bæði hérlendis og erlendis, hefur frá upphafi verið ein eftirsóknarverðasta deild Keilis og hafa nú um tvö þúsund einstaklingar lokið náminu.

Flugakademía Keilis – Flugskóli Íslands er orðinn einn öflugasti flugskóli á Norðurlöndunum með um þrjúhundruð nemendur í atvinnuflugnámi og yfir tuttugu kennsluvélar. Með auknum umsvifum er skólinn með starfsstöðvar bæði við alþjóðaflugvöllinn í Keflavík og á Reykjavíkurflugvelli. Þá geta nemendur sótt bóklegt nám annað hvort í aðalbyggingu Keilis á Ásbrú eða í húsnæði skólans í Hafnarfirði.