Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 27. mars 2024 kl. 17:27

Kátt á hjalla hjá Keflvíkingum

Keflvíkingar urðu tvöfaldir bikarmeistarar þegar þeir unnu báða leiki úrslitanna í Laugardalshöllinni síðasta laugardag. Karlaliðið vann Tindastól 92-79 og kvennalið Keflavíkur vann Þór Akureyri 89-67.

Karlaleikurinn var spennnandi lengst af og fyrri hálfleikur var jafn en Tindastóll leiddi 44-42. Þeir náðu svo mest fjórtán stiga forskoti í upphafi síðari hálfleik en Keflvíkingar tóku þá öll völd á vellinum og sigldu mögnuðum sigri í höfn, 92-79.

Í kvennaleiknum voru norðankonur númeri of litlar en þær unnu sannfærandi sigur á Grindavík í undanúrslitum. Keflavík er hins vegar með afar sterkt lið og hleypti Þórsurum aldrei nálægt sér. Lokatölur 89-67.

Karakter og kraftur

„Þetta er gersamlega frábært, liðsheildin, karakterinn og krafturinn í liðinu alveg til fyrirmyndar, við lentum fjórtán stigum undir í þriðja leikhluta en rúlluðum svo yfir þá í fjórða, við getum ekki annað en verið stolt. Það er frábært að sjá stúkuna svona fulla af Keflvíkingum. Kvennaliðið kláraði svo sitt verkefni með stæl. Þetta er magnaður Keflavíkurdagur,“ sagði Magnús Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur.

Skemmtilegra að vinna

„Jú, heldur betur góð tilfinning, miklu skemmtilegra að vinna en tapa. Fór um mig í byrjun seinni hálfleiks, já og nei. Við vorum með okkar leikskipulag sem var að keyra á fullu til að þreyta andstæðinginn, ef ég hefði hætt að hafa trú á því hefði ég eflaust gert einhverja vitleysu. Ég tók leikhlé til að stöðva þetta áhlaup þeirra og vissi að leikurinn er í 40 mínútur, þóttist vita að við kæmum til baka og það kom á daginn, þeir voru orðnir þreyttir og við gengum á lagið,“ sagði Pétur Ingvarsson, þjálfari karlaliðs Keflvíkinga.

Extra sætt fyrir mig

„Það var frábær tilfinning að taka á móti bikarnum, ég er ótrúlega stoltur af liðinu mínu, við lentum undir í byrjun seinni hálfleiks en komum brjálaðir út úr leikhléinu og eftir það var í raun bara eitt lið á vellinum. Það er erfitt að skýra út hvað gerist, þeir byrjuðu seinni hálfleikinn mjög vel með nokkrum þristum en svo komum við til baka, þetta var risastór sigur! Þetta er kannski extra sætt fyrir mig, það var stór spurning hvort ég gæti tekið þátt og ég er bara mjög ánægður með þessar tólf mínútur sem ég skilaði í dag,“ sagði Halldór Garðar Hermannsson, fyrirliði Keflvíkinga, en hann tognaði aftan á læri viku fyrir úrslitin en hann lét það ekki stoppa sig í bikarleikjunum.

Fyrirliðarnir og kærustuparið, Halldór Garðar og Katla Rún, með bikarana.

Skemmtilegast að skrifa

„Að árita svona ávísanir er það skemmtilegasta sem ég geri, körfuknattleiksdeild Keflavíkur á þetta svo sannarlega skilið eftir frábæra frammistöðu í dag. Ég er mjög stoltur bæjarstjóri þessa frábæra sveitarfélags, gaman að sjá alla þessa fjölmörgu Keflvíkinga sem komu í Laugardalshöllina í dag. Nú er kátt á hjalla, ég geri ekki ráð fyrir að taka fiðluna fram, hún passar ekki við þetta tækifæri, ég gríp í hana síðar,“ sagði Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri Reykjanesbæjar, sem lét sig ekki vanta í höllina.

Bæjarstjórinn og formennirnir; Kjartan Már, Björg Hafsteinsdóttir og Magnús Sverrir Þorsteinsson.

Hafði fulla trú á liðinu

„Auðvitað var gaman að taka við sem fyrirliði en Katla er áfram mjög mikilvæg liðinu, hún er með okkur á öllum æfingum og leikjum og er svo sannarlega hluti af okkur,“ sagði Anna Ingunn Svansdóttir, varafyrirliði Keflavíkur, en hún tók við fyrirliðabandinu af Kötlu Rún Garðarsdóttur sem er ólétt.

„Það kom ekkert annað til greina en hún myndi lyfta bikarnum með mér. Ég var alls ekki sigurviss fyrir þennan leik en ég hafði fulla trú á liðinu mínu. Við sáum að þær unnu Grindavík og hafa unnið okkur einu sinni í vetur svo það kom ekki til greina að vanmeta þær eitthvað. Þær eru með gott lið en við mættum tilbúnar og áttum sigurinn skilinn,“ sagði Anna Ingunn.

Gaman að fá að lyfta bikarnum

„Ég er ekki farin neitt þó svo að ég sé ólétt. Það var gaman að fá að lyfta bikarnum líka, ég er búin að vera á öllum æfingum og leikjum síðan ég þurfti að hætta, við erum saman í þessu. Þetta er öðruvísi hlutverk, skemmtilegt en ég hlakka samt mikið til að snúa aftur á parketið. Ég hafði góða tilfinningu fyrir þessum leik, við þurftum að fókusera á það sem við gátum stjórnað og ef það myndi takast voru sigurlíkur okkar góðar, sem kom á daginn. Við vorum náttúrulega búnar að tapa fyrir þeim einu sinni í vetur svo það var ekki erfitt að mótivera sig fyrir þennan leik fyrir framan alla þessa áhorfendur,“ sagði Katla Rún Garðarsdóttir, fyrirliði liðsins, en var í öðruvísi hlutverki að þessu sinni.

Alltaf sá næsti

Blaðamaður efast um að það séu margir einstaklingar sigursælari heldur en Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Keflavíkur. Hann vann ítrekað sem leikmaður Keflavíkur og hefur landað ófáum titlunum sem þjálfari en er hann með tölu yfir þá titla sem hann hefur unnið?

„Það þýðir ekkert að vera velta sér upp úr gömlum sigrum, það verður alltaf að hugsa um þann næsta, maður lifir ekki á fornri frægð. Ég var alls ekkert öruggur fyrirfram, þetta var hundleiðinlegur dagur, að þurfa hanga svona og bíða eftir leiknum, ég var spenntur en alls ekki sigurviss. Þetta Þórslið er mjög gott, þær hafa unnið okkur einu sinni og ég veit manna best að ef að liðið mitt mætir ekki tilbúið til leiks, erum við bara ekkert góðar. Ef við hins vegar myndum mæta tilbúnar til leiks og vinna baráttuna, voru sigurlíkur okkar góðar. Ég var mjög ánægður með hvernig við komum inn í þennan leik, þetta er frábær dagur fyrir körfuboltann í Keflavík,“ sagði Sverrir Þór.

Frábær fjölskyldudagur

Björg Hafsteinsdóttir vann bikarinn margoft sem leikmaður og hún getur ekki byrjað betur sem nýr formaður Keflavíkur, íþrótta- og ungmennafélags.

„Já, þetta gæti flokkast undir ágætis byrjun, það er rétt. Þetta er búinn að vera frábær fjölskyldudagur hjá okkur Keflvíkingum, ég get varla lýst hversu ánægð ég er. Mig grunar að það verði stuð í Keflavík í kvöld. Ég var ánægð með stelpurnar í seinni hálfleik, hvernig þær hristu Þórskonurnar af sér, fljótlega sá maður hvernig þetta myndi enda og það var gaman að vera í stúkunni. Það var kominn tími á svona bikarsigur, eigum við ekki að segja að risinn sé vaknaður,“ sagði Björg að lokum.

Góður stuðningur úr stúkunni

Keflvískir stuðningsmenn fjölmenntu í stúkuna í Laugardalshöllinni og hvöttu sín lið af miklum móð. Keflvísku bikarliðin voru ánægð með stuðninginn og Keflavík fagnaði bikarsigri hjá körlum í fyrsta sinn síðan 2012 en þetta var sjöundi titill liðsins. Karlarnir hafa tíu sinnum leikið í úrslitum (7-4). Konurnar eru lang sigursælasta bikarliðið en Keflavík sigraði nún í sextánda sinn. Þær unnu fyrst 1988 og unnu þá þrjú ár í röð. Þær unnu síðan sex ár í röð frá 1993 til 1998. Á þrettán árum (1988-2000) sigruðu þær alls tíu sinnum. Þær hafa tuttugu og fimm sinnum leikið til úrslita og hafa sigraði 16 sinnum en tapað níu sinnum.

Þetta var í sjötta sinn sem Keflavík fer með bæði liðin í bikarúrslit og í þriðja sinn sem tvöfaldur sigur vinnst.

Fjórar millur í kassann

Magnús Sverrir Þorsteinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Keflavíkur, brosti breitt eftir árangursríka bikarhelgi. Fjórar nýjar milljónir komu í kassann, VÍS gaf sitt hvora milljónina fyrir sigrana og Reykjanesbær sömuleiðis.

Jaka maður leiksins

Jaka Brodnik var valinn maður leiksins í karlaleiknum. Hann hélt liði sínu á floti í fyrri hálfleik en átti magnað leik og skilaði 22 stigum og tók níu fráköst.

Sverrir og Sigurður með fimm kvennatitla

Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari kvennaliðs Keflavíkur, var að vinna sinn fimmta bikartitil sem þjálfari kvennaliða. Hann á einn titil með UMFN og UMFG en þrjá með Keflavík.

Sigurður Ingimundarson á einnig fimm titla, alla með Keflavík, og hann hefur þrisvar verið þjálfari þegar Keflavík hefur unnið bikarinn hjá körlunum.

Wallen besta konan

Daniella Wallen var kjörin leikmaður kvennaleiksins, hún var frábær frá fyrstu mínútu, endaði þó ekki með „nema“ fimmtán stig, tók tólf fráköst og gaf sex stoðsendingar. Til marks um að hún var best, Keflavík vann með 34 stigum á meðan hennar naut við. Annars skoruðu fimm leikmenn tíu stig eða meira í leiknum. Wallen hefur verið með Keflavík síðustu árin og staðið sig frábærlega.


Fleiri myndir má sjá í myndasafni neðst á síðunni.

Keflvíkingar tvöfaldir VÍS-bikarmeistarar | 25. mars 2024