Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
laugardaginn 19. september 2020 kl. 07:49

Töffaralegt trylllitæki í nýjum búningi

Önundur Jónasson eignaðist 1979 árgerð af TRANS AM og tók hann í gegn skrúfu fyrir skrúfu.

Það var einn bíll sem vakti meiri athygli en margir aðrir á Ljósanæturrúnti fornbíla í Reykjanesbæ núna á bæjarhátíðinni sem ekki varð. Hljóð og útlit á dökkgráum Trans Am 1979 heillaði margan bílaáhugamanninn. Bíllinn hefur verið í bílskúrsumsjón Önundar Jónassonar sem hefur eytt þúsundum klukkustunda og mörgum krónupeningum í þennan draumabíl margra síðustu sex árin. Víkurfréttir fengu að setjast í þennan glæsilega bíl sem er í raun ekki fornbíll heldur eldri gaur í nýjum fötum og nýjum skóm.

„Ég fór fyrst rúnt í þessum bíl árið 1997 en frændi minn átti hann þá og flutti hann inn árið á undan frá Bandaríkjunum. Það var eitthvað átt við bílinn þá en hann lenti í óhappi og síðan endaði hann í mínum höndum árið 2014. Þá var ekki aftur snúið. Ég hef síðan verið að dunda mér við endurbyggingu bílsins síðustu sex ár og hann kom á götuna í sumar,“ segir Önundur með nokkru stolti.

Þúsundir klukkustunda

Þegar hann er spurður hvað vinnustundirnar séu margar á þessum árum og hvað þetta kostaði allt brosir hann og segir að það sé ekki stóra málið. „Ég ákvað að skrá ekki niður tímann sem hefur farið í bílinn en það eru margar þúsundir klukkustunda. Það er margt sem er tímafrekt og sést ekki en ég einn veit um. Ég tók bílinn skrúfu fyrir skrúfu, bæði boddí og grind. Boddíið var allt sandblásið eftir að ég ryðbætti það og sama með grindina. Allt fullunnið undir málun en það er það sem fólk sér þegar það lítur á bílinn en hann er eiginlega fallegri undir þótt ótrúlegt sé. Ég lagði mikinn metnað í þessa vinnu og það er ekkert í bílnum sem ekki hefur verið átt við.“

Önundur segir að verkefnið hafi átt hug hans allan en við spyrjum hann meira út í þá vinnu.

„Allur undirvagninn er endursmíðaður og bílinn er með aksturseiginlega á við splunkunýjan bíl. Hann er til dæmis með nýtt fjöðrunarkerfi en bíllinn er með gorma og dempara allan hringinn, ekki bara á fjöðrum að aftan eins og upphaflega gerðin. Sama með bremsukerfið. Það er ekki nóg að komast hratt áfram. Það þarf líka að vera hægt að stoppa fljótt en ég setti bremsukerfi úr Corvettu í bílinn. Ég breytti stýrinu þannig að maður þurfi að snúa því minna en var í upphaflegu útgáfunni. Þessir bílar voru svolítil „sófasett“ og það þurfti að snúa stýrinu mikið þegar maður beygði. Svo setti ég í hann 600 hestafla mótor og stærri skiptingu og það kallaði á nýja afturhásingu. Þannig að það er nýtt kram í bílnum. Svona vindur þetta upp á sig þegar maður byrjar í alvöru endurgerð.“

Góður í ísrúnt

– Þú ert sem sagt fljótur upp í 100 km – en hversu hratt?

„Ég veit það ekki. Ég er mjög fljótur upp í 50 km því ég hef bara verið að keyra rólega hér innanbæjar.“

– Þú hefur sem sagt ekki farið á kvartmílubrautina þar sem hægt er að gefa í?

„Nei, þetta er líka í raun meiri ísrúntari þessi bíll. Maður keyrir hann meira svona ljúft í góðu veðri, til dæmis í fornbílaheimsókn á Ljósanótt.“

Kínverskar konuhendur í sætum

Við höldum áfram að skoða bílinn og setjum inn í hann. Það er hægt að spyrja um margt og við gerum það.

„Ég tók mælaborðið í gegn en það var orðið lúið eftir að bílinn hafði staðið í mörg ár í sólinni í Kaliforníu. Það var allt sprungið. Ég gerði það eins og nýtt og ég skipti líka um alla mæla, setti í það stafræna mæla svo þeir gætu „talað“ við vélina. Innréttingin er úr afmælisútgáfu af Trans Am en þessi bíll var upphaflega með plusssætum. Ég fékk kínverska konu til að sauma fyrir mig ný áklæði en hún býr í Bandaríkjunum og sérhæfir sig í svona vinnu. Það tók nokkurn tíma en svo kom þetta og ég græjaði þau eitthvað aðeins til, svampinn og svoleiðis. Sætin eru mjög flott og eru úr leðri og þessi bólstrun kostaði ekki mikið. Ég var í tölvupóstsambandi við konuna og um tíma hélt ég að hún væri ekkert að gera – en svo kom þetta bara og var mjög vel gert hjá henni.“

App fyrir tónlist og skiptingu

– Í gamla daga þegar svona bílar voru á götunni var eitt af stórum atriðunum hljómflutningstækin í þeim. Tónlistin. Hvernig er því háttað í nýuppgerðum Trans Am?

„Það eru ekki hljómflutningstæki í bílnum heldur „bluetooth“-magnari sem ég tengi við símann og spila músíkina þaðan. Bíllinn er frekar hávær og maður heyrir ekki mjög mikið ef maður er á mikilli gjöf en annars fínt hljóð sem heyrist vel á rólegum rúnti.“ Tónlistin er því spiluð úr „appi“ (smáforriti) úr símanum en það var nokkuð langt í slíka tækni árið 1979.

Fjarstýrðir hurðahúnar

Önundur vildi hafa sérstakt „shaved“ útlit á bílnum þar sem mjúkar línur í bland við skarpari línur gefa glæsilegum Trans Am-inum svakalegan svip svo eftir er tekið. Hurðahúnar sjást til dæmis ekki. Þeir eru fjarstýrðir og Önundur smellir bara á litla fjarstýringu til að opna dyrnar tvær. Fleiri litla hluti lagaði okkar maður að sínum hugmyndum. Ýmislegt sem gerir bílinn meira að 2020 árgerð en ekki 1979. Ytri línurnar halda þó sér á bílnum og Önundur vildi halda því útliti. Það enginn vafi þegar maður sér bílinn að hér er á ferðinni Trans Am. Hjólbarðarnir eru til dæmis aðeins breiðari að aftan og felgurnar flottar. Það eru hlutir sem skipta máli í heildarútliti.

En þar sem Önundur ákvað að gera bílinn meira að nútímabíl í gömlum búningi þá er hann ekki bara með app fyrir tónlistina. Í símanum sýnir hann okkur app sem stýrir skiptingunni. Hvort bíllinn sé að skipta sér hart eða mjúkt segir hann okkur. „Ekki beint eins og 1979,“ segir hann og opnar vélarhúddið.

Sexhundruð hestar

„Þetta er 2018 módelið af LS 3 mótor sem ég lét smíða fyrir mig í Georgíu í Bandaríkjunum, það er sérhæfður aðili í þessu þar.“

– Þú hlýtur að eiga skilningsríka konu og ekki geturðu átt önnur tímafrek áhugamál?

„Ég er mjög heppinn með eiginkonu og hún hefur verið mjög skilningsrík í þessu verkefni. Allur minn aukatími hefur farið í þetta, kvöld og helgar.“

– Og kostað helling?

„Þetta hefur kostað mikið og ég hefði örugglega getað fengið nýjan bíl fyrir minni pening og þá er ég ekki að reikna með vinnutímann minn sem fór í þetta. Mér finnst mjög gaman að vera út í skúr og vera að dunda í þessu. Margir vinir mínir hafa heimsótt mig og oft hafa þeir horft á mig og haft á orði að þeir hafi ekki séð neina breytingu frá því þeir komu síðast. Það er partur af svona vinnu. Það eru margir hlutir sem þú sérð ekki utan frá. Ég lagði mikla vinnu í að útlitið væri eins hreint og hægt var, þ.e. ekki snúrur og aukahlutir úti um allt þar sem hægt var að komast hjá því. Nýja vélin tekur til dæmis miklu minna pláss í húddinu en sú gamla en er miklu aflmeiri.“

Við fórum rúnt með Önundi á þessari flottu græju og hann gaf aðeins í fyrir okkur. Fílingurinn er magnaður og krafturinn líka. Kannski er þetta töffaralegasti Trans Am á landinu. Við höldum það alla vega.

Glæsileg nýsaumuð sæti eru í bílnum.

Sexhundruð hestar.....

Bílskúrsvinnan tók sex ár og þúsundir klukkustunda.

Flottur undir líka.