Codland: Tvöfalda verðmæti þorsksins
Stórkostleg tækifæri eru í íslenskum sjávarútvegi að mati Péturs Pálssonar, framkvæmdastjóra Vísis hf. í Grindavík. Fyrirtækin Vísir hf. og Þorbjörn hf. settu nýverið á laggirnar fyrirtækið Codland og binda forráðamenn fyrirtækjanna miklar vonir við að sú fjárfesting gæti tvöfaldað virði þorsksins áður en langt um líður.
Hugmyndin á bak við Codland er að fyrirtækið starfi sem eins konar regnhlíf fyrir fjölda fyrirtækja sem sérhæfa sig í að nýta hinn svokallaða seinni hluta þorsksins. Nokkur fyrirtæki á Suðurnesjum hafa í mörg ár nýtt aukaafurðir þorsksins en Íslendingar nýta að meðaltali 75% af veiddum þorski í framleiðslu sem er öllu hærra en gerist víða í Evrópu. Nú er stefnan sett á að fullvinna þorskinn og telur Pétur að verðmætin í þessum hluta þorsksins gætu orðið meiri til lengri tíma litið.
„Það eru stór og mikil tækifæri til staðar. Ef sjávarútvegurinn fær að halda aflinu þá er góður möguleiki á að tvöfalda verðmæti þorsksins. Við höfum allt til þess að ná því takmarki. Verðmætin í þessum seinni helmingi eru líklega meiri en í þeim mat sem við búum til úr fyrri helmingnum,“ segir Pétur.
Verðmæti 5 kg þorsks er í dag í kringum 2000-2500 kr.- og telur Pétur að það sé hægt að tvöfalda þá upphæð. „Miðað við þau verð sem við höfum séð þróast úr seinni helming þorsksins þá teljum við okkur geta tvöfaldað virði þorsksins upp í 5000 kr.- Það er okkar markmið.“
Fjárfesta í nýrri kynslóð
Vísir hf. og Þorbjörn hf. hafa ýtt þessu verkefni úr vör en fjölmörg minni fyrirtæki á Suðurnesjum taka þátt og þróar hvert á sínu sviði verðmæti úr þorskinum. Þessi grindvísku sjávarútvegsfyrirtæki fjárfesta fyrir um 1500 millj. kr.- á þremur árum. Pétur segir að með þessum fjárfestingum skapist fjöldi nýrra starfa fyrir ungt og háskólamenntað fólk.
„Við ætlum að draga að okkur öll þau fyrirtæki sem vilja starfa í þessum geira. Við sjáum mikil tækifæri fyrir ungt fólk og sækjumst eftir ungu fólki úr háskólunum í sumarstörf til að vinna þetta með okkur. Þetta er verkefni nýrrar kynslóðar í sjávarútveginum. Yfirleitt finnur unga fólkið ekki störf sem hentar því þegar það kemur til baka í sjávarplássið eftir háskólanám. Ég er mjög bjartsýnn á það að þetta geti orðið svar við því,“ segir Pétur.
„Það eru mikil verðmæti í boði fyrir snyrti- og lyfjavörur. Sem dæmi þá er fyrirtæki á Ísafirði að vinna mjög verðmætan plástur úr fiskroði. Það má engan tíma missa því erlend fyrirtæki hafa verið að vinna að þessu í tíu ár sem við ætlum að byrja á núna. Ég er bjartsýnn og hef mikla trú á að okkur takist ætlunarverk okkar.“
Samstarf fyrirtækja nauðsynlegt
Hugmyndin á bak við Codland byggir á samstarfi fjölda sjávarútvegsfyrirtækja. Til að ná fram hagkvæmni við nýtingu á þorskinum þá vinna sérhæfð fyrirtæki, t.d. við nýtingu á ensími, próteini, lifurframleiðslu o.fl., saman og geta þannig skapað aukin verðmæti.
„Það eru mörg fyrirtæki hér á Suðurnesjum að vinna að þessu með okkur. Þetta verður aldrei að veruleika nema að menn vinni saman og tjaldi til öllu sem þeir eiga. Í dag er búið að reisa þrjár verksmiðjur og verkefnið er komið vel af stað. Að slást við þennan draum er það sem heldur manni á tánum. Þetta er framtíðin.“