Máltaka og hlustun byrjar í móðurkviði
- Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur segir að það sé mikilvægt að vernda tungumálið okkar
„Jú, það er mikilvægt að við verndum málið okkar. Tungumálið er ekki bara orð, orðin þau tjá eitthvað, tjá tilfinningar og merkja menningu og það sem er mikilvægt og það sem ég upplifi meira og meira í starfinu er að ef við skimum reglubundið börn sem eru í áhættu eða jafnvel börn á ákveðnum aldursstigum þá erum við að grípa inn í miklu fyrr. Þá erum við að koma fram með snemmtæka íhlutun og róum þar með áhyggjufulla foreldra sem vilja vita hvort að barnið þeirra sé að mynda þau hljóð sem það á að geta myndað samkvæmt aldri.“
Bryndís Guðmundsdóttir talmeinafræðingur fagnar sínu þrítugasta starfsári sem talmeinafræðingur í ár en hún hefur hannað íslensk forrit fyrir snjalltæki sem hjálpa ungum börnum að ná taki á íslenskunni. Nýjasta forritið hennar heitir Íslenski málhljóðamælirinn en það forrit er ætlað fyrir fagaðila eða svokallað skimunarpróf til að meta framburð íslensku málhljóðanna. Við hittum Bryndísi í íþróttaakademíu Reykjanesbæjar þar sem hún hélt námskeið vegna útgáfu forritsins.
Hvað er að gerast hér í íþróttaakademíunni?
„Ég er hér með fríðum hópi leik- og grunnskólakennara, talmeinafræðinga, sérkennara og annara fagaðila frá fræðsluskrifstofu Reykjanesbæjar og við erum að fara yfir íslenska málhljóðamælinn, þau eru að læra að nota hann sem skimunarpróf til að meta framburð íslensku málhljóðanna.
Er þetta tengt appinu sem þú hefur verið að þróa?
„Já, ég legg þetta upp hér á námskeiðinu þannig að fólk fær fræðilegan bakgrunn um íslenskuna og um máltökuna, hljóðkerfi og hvenær börn eiga að hafa náð ákveðnum hljóðum og svo framvegis, svo fer ég í það að útskýra hvernig forritið eða appið virkar og svo þjálfum svo saman í framhaldi en að námskeiðinu loknu fer fólk á sínar starfstöðvar og þjálfar sig áfram þar.“
Nú er oft talað um snemmtæka íhlutun, hversu ung þurfa börn að vera til þess að ná tungumálinu?
„Í rauninni byrjar máltakan og hlustunin í móðurkviði en við tuttugu vikna meðgöngu er barn farið að heyra þannig að heyrandi barn sem fæðist eftir fjörtíu vikur hefur heyrt í móðurkviði og er tilbúið til þess að taka við tungumálinu og þá tekur við örvun sem foreldrar eða þeir sem annast barnið byrja á. Barnið fer að mynda hljóð, orð og setningar og í þessu ferli viljum við gjarnan meta hvort barnið er aldurssamsvarandi, hvort að barnið er að ná málinu eins og önnur börn í dag og viljum við meta okkar íslensku. Skimunarprófið sem ég er að fræða um í dag miðar að því að við finnum börnin sem þurfa hjálp eins fljótt og hægt er, eða þau börn sem eru í áhættu hvað varðar framburðar eða málhljóðamyndun.“
Það stafar ákveðin hætta af íslenskunni vegna snjalltækjanotkunar, er það eitthvað sem þú ert smeyk við?
„Já, ég sem útgefandi að smáforritum sem eru lærum og leikum með hljóðin og froskaleikirnir og núna íslenski málhljóðamælirinn, þá er ég að nýta mér tæknina til góðs því snjalltækin geta verið ógn en líka ótrúlegt tækifæri til þess að kæra og það sem er svo erfitt við íslenskuna er að við erum svo lítið málsamfélag og við höfum verið svo sein að ná þessari máltækni þannig að öll tækin okkar, allt viðmótið sem við erum að nota það er ekki á íslensku og það er mikilvægt að það tali eða skilji íslensku og þýtt hana yfir á önnur tungumál og svo framvegis þannig að þetta framlag mitt er held ég mikilvægt til þess að við grípum inn í eins fljótt og hægt er hjá öllum börnum, einstaklingum af erlendum uppruna og metum hvort það er ástæða til þess að koma að varðandi málhljóðin.“
Þú átt þrjátíu ára starfsferil að baki, er þetta alltaf jafn skemmtilegt?
„Já þetta er frábært. Það er yndislegt að vinna með börnum og líka fullorðnu. Fullorðið fólk sem á við erfiðleika í tjáskiptum að etja, það er afskaplega þakklátt og endurgjöfin er svo góð, það er gaman að vinna með fólki þar sem maður upplifir það að litlu skrefin verða að stórum skrefum og hvað þetta getur allt skipt máli fyrir lífshamingju fólks.“
Er íslenskan ekki mikilvæg í dag í heimi snjalltækjanna og Youtube?
„Jú, það er mikilvægt að við verndum málið okkar. Tungumálið er ekki bara orð, orðin þau tjá eitthvað, tjá tilfinningar og merkja menningu og það sem er mikilvægt og það sem ég upplifi meira og meira í starfinu er að ef við skimum reglubundið börn sem eru í áhættu eða jafnvel börn á ákveðnum aldursstigum þá erum við að grípa inn í miklu fyrr. Þá erum við að koma fram með snemmtæka íhlutun og róum þar með áhyggjufulla foreldra sem vilja vita hvort að barnið þeirra sé að mynda þau hljóð sem það á að geta myndað samkvæmt aldri. Ef við getum svarað því þá erum við líka að koma í veg fyrr það að stærri hópur sem á erfitt með framburð eða er með málhljóðaröskun fari ekki í langtímanám. Það er stærri hópur sem fer ekki í langskólanám, þeir sem halda ekki áfram í námi samkvæmt rannsóknum eru þeir sem eiga erfitt með framburð, lestur, skrift og stafsetningu. Þessi hópur er oft í starfi sem ófaglært starfsfólk og það er einnig líklegra að börnin þeirra verði líka með málhljóðaröskun þannig að það eru ýmsir þættir sem styðja það að við grípum snemma inn í og gefum öllum þessi jöfnu tækifæri.
Við segjum svo oft á Íslandi að við séum ekki í söm u stöðu og aðrar erlendar þjóðir en það er mjög stór hluti af Íslendingum í dag sem er af erlendu bergi brotinn og mjög stór hópur af erlendum börnum sem er að koma til okkar talmeinafræðinganna en við sinnum þeim eins vel og við getum og eigum að gera það. Við eigum að hlúa að því að þau geti lært sitt tungumál og notað það til að styrkja íslenskuna, íslenskan framburð og orðaforða en þetta þarf allt að vinna saman í þá átt að við fáum öll jöfn tækiæri til náms og er hluti af því ferli.“