Sunnudagur 3. mars 2019 kl. 11:59

Plötuspilarinn opnar í Rokksafni Íslands

Rokksafn Íslands opnar nýtt sýningaratriði í samstarfi við Gagarín

Á Safnahelgi Suðurnesja um komandi helgi mun Rokksafn Íslands opna nýtt sýningaratriði sem unnið hefur verið í samstarfi við margmiðlunarfyrirtækið Gagarín. Sýningaratriðið sem nefnt hefur verið “Plötuspilarinn” er afrakstur hugmyndavinnu starfsmanna Hljómahallar/Rokksafns Íslands og Gagaríns en markmið hópsins var að gera Rokksafnið gagnvirkara og upplifunarríkara fyrir alla.
 
Sýningaratriðið hylur stærsta vegg Rokksafnsins sem er um 12 metra breiður og er þar hægt að framkalla fjölmargar tímalínur með upplýsingum um einstaka tónlistarmenn sem sett hafa svip á tónlistarsögu Íslands.
 
Tilgangur plötuspilarans er að gera safngestum kleift að kafa enn dýpra í sögu listamannanna sem til umfjöllunar eru, en á tímalínunni er textum, ljósmyndum, myndböndum og tónlist blandað saman í eina ríka og spennandi frásögn sem gestirnir stjórna sjálfir.
 
Plötuspilarinn í raun einstakt atriði án fyrirmyndar og enn ein spennandi viðbótin í Rokksafn Íslands.