Flughótelið breytir um svip

Kaupfélag Árnesinga á Selfossi rekur Flughótel en kaupfélagið rekur einnig Hótel Flúðir og Hótel Kirkjubæjarklaustur undir Icelandair merkinu samkvæmt sérleyfissamningi. K.Á. var áður með Hótel Selfoss, Gesthús á Selfossi og Hótel Vík.
Listakokkurinn Sverrir Þór Halldórsson rekur nú veitingadeildina á Flughóteli, en hann tók við rekstri hennar 15. júní sl. Þá var opnaður veitingasalur á annarri hæð, og Kaffi Flug opnaði þann 10. ágúst. „Við erum með morgunmat í veitingasalnum frá kl. 5-10 á morgnana en þá tekur Kaffi Flug við. Í hádeginu er boðið upp á súpu, brauð, salatbar og heitan rétt til kl. 13:30. Þá byrjum við með heitar vöfflur, tertur, samlokur og ýmsa smárétti. Veitingasalurinn opnar aftur kl. 18 og þá er boðið upp á a la cart matseðil. Salurinn er opinn til kl. 22 og barinn til kl. 23:30“, segir Sverrir Þór veitingastjóri og bætir við að með þessum breytingum er ætlunin að þjóna hótel- og fundagestum enn betur.
Að sögn Bergþóru Sigurjónsdóttir, hótelstjóra á Flughóteli, hefur nýting á herbergjum verið góð í sumar og mikil aukning frá fyrra ári. „Ferðaiðnaðurinn hefur breyst mikið til batnaðar hér á Suðurnesjum. Sérstaklega hvað varðar afþreyingu, t.d. með tilkomu go-kart brautar og fleiri hvalaskoðunarskipum. Bláa lónið heillar einnig marga útlendinga sem og Íslendinga. Ég hef séð ferðaiðnaðinn vaxa hratt hér á Suðurnesjum á síðustu árum og ferðamenn gera nú meiri kröfur en áður. Til gamans má benda á að það eru ótrúlega margir Íslendingar sem búa úti á landi og vita lítið um Suðurnesin. Það þarf í raun að fara mjög stutt til að sjá hreinar náttúruperlur eins og Reykjanesskagann. Nú vantar okkur tilfinnanlega upplýsingamiðstöð hér í Reykjanesbæ þar sem ferðamenn geta leitað upplýsinga um alla þjónustu og afþreyingu á svæðinu“, segir Bergþóra.