Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Amerískt – látum það ganga!
Þriðjudagur 29. september 2020 kl. 14:44

Amerískt – látum það ganga!

„Þegar þú verslar hér heima skilar það sér aftur til þín. Þú styður við framleiðslu, ferskleika, úrval og gæði. Þannig skapast verðmæti og ný störf, samfélaginu til góða.“ Þannig hljóma skilaboð til Íslendinga í markaðsherferð sem nú er í gangi undir kjörorðinu „Ísland – Láttu það ganga.“

Hægt er að sjá þessar auglýsingar m.a. í ljósvakamiðlum, á völdum vefsíðum sem eiga lögfesti á suðvesturhorni landsins, tveimur dagblöðum þar, en þó ekki síst á erlendum efnisveitum. Fyrir kynningarátakinu stendur atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið ásamt Samtökum iðnaðarins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum verslunar og þjónustu, Samtökum ferðaþjónustunnar, Samtökum fyrirtækja í sjávarútvegi, Samtökum fjármálafyrirtækja, Samorku og Bændasamtökum Íslands.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Eitt er að leggja grunn að stóru markaðsátaki en annað er að velja að birta það í miðlum sem hæfa efninu. Það finnst okkur, tveimur ritstjórum landshlutablaða á Íslandi, ekki hafa tekist sérlega vel. Í þessu risavaxna og mjög svo kostnaðarsama innanlands markaðsátaki stjórnvalda og hagsmunafélaga, er ákveðið að sniðganga með öllu auglýsingakaup í miðlum okkar; Víkurfréttum á Suðurnesjum og Skessuhorni á Vesturlandi. Vafalítið sitja aðrir héraðsfréttamiðlar sömuleiðis utan borðs.

Nú veltum við því óneitanlega fyrir okkur hver skilaboð stjórnvalda og heildarsamtaka í atvinnulífinu til okkar séu. Báðir höfum við í áratugi gefið út alíslenska fjölmiðla, höfum fólk í vinnu, skapað verðmæti og markmið okkar er einmitt að hvetja til; „íslenskt – láttu það ganga.“ Þegar stór hópur samtaka með sjálft atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið í broddi fylkingar fer af stað með átak sem þetta, þar sem markmiðið er að velja íslenskt, þá eru okkar miðlar sniðgengnir kerfisbundið í dreifingu boðskaparins. Okkur finnst felast í þessu holur hljómur. Ef markmiðið er, eins og þetta blasir við okkur, að styðja erlendar efnisveitur með auglýsingakaupum, hefði þá ekki verið hreinskiptara að láta átakið heita: „Amerískt – látum það ganga“? Vafalítið mun svar þeirra sem bera ábyrgð á vali fjölmiðla til birtingar verða á þá lund að þetta sé hagkvæmast og nái til flestra. Við getum hins vegar upplýst að ekki var leitað verðtilboða í birtingar hjá okkur og því hafa forsvarsmenn átaksins ekki hugmynd um hver sá kostnaður hefði orðið.

Það hefur ekki farið framhjá neinum sem fylgst hefur með umræðunni um fjölmiðla og stöðu þeirra að þeir allflestir róa nú lífróður. Umræðan um fjölmiðlafrumvarp Lilju D Alfreðsdóttur menntamálaráðherra hefur verið mikil og fært þá vitneskju upp á yfirborðið. Meðal annars hefur ráðherra bent á að einn stærsti vandi fjölmiðla sé einmitt sú staðreynd að erlendar efnisveitur eru sífellt að soga til sín stærri hluta þeirra auglýsingapeninga sem eru í umferð. Fjölmiðlar eins og okkar sitja eftir. Í ljósi þessa finnst okkur falskur tónn vera sleginn í annars góðan boðskap um kaup á íslenskri vöru og þjónustu. Með vali á innlendri framleiðslu- og þjónustu verður nefnilega til hringrás sem stuðlar að nýjum störfum, verðmætasköpun og efnahagslegum stöðugleika – á Íslandi!

Páll Ketilsson, ritstjóri Víkurfrétta

Magnús Magnússon, ritstjóri Skessuhorns.