Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn fóru með valdið til Reykjavíkur
Það er orðið ljóst að baráttan á landsbyggðinni verður á milli sósíalískrar byggðastefnu Sósíalistaflokksins annars vegar og gömlu landsbyggðarflokkanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins hins vegar. Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkurinn hafa stjórnað landinu meira og minna frá stofnun. Framsóknarflokkurinn tók samvinnuhreyfingu almennings og skildi hana eftir í rjúkandi rúst, eftir að innvígðir Framsóknarmenn höfðu stolið úr henni bestu bitunum eins og Samskipum. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ávallt verið flokkur stórfyrirtækjanna og erfitt að sjá hvaða hag almenningur á landsbyggðinni hefur af því að styðja þann flokk. Á vakt þessara tveggja flokka hafa völd og auður streymt frá landsbyggðinni. Ákvarðanir um uppbyggingu samfélagsins eru ekki lengur teknar heima heldur langt í burtu. Þar sem áður voru sjálfstæðir bæir er núna stærsti hluti fyrirtækjanna útibú stórfyrirtækja með höfuðstöðvar annars staðar. Bæjarútgerðir voru færðar vildarvinum og seldar úr heimabyggð og með þeim fór kvótinn. Það er í raun ótrúlegt að fólk í landsbyggðarkjördæmum kjósi Framsóknar- og Sjálfstæðisflokkinn enn. Gegn þessari eyðileggingarstefnu teflir Sósíalistaflokkurinn fram sósíalískri byggðastefnu.
Heilbrigðisþjónustuna heim
Nýfrjálshyggjuvæðing almannaþjónustunnar hefur leitt til þess að heilbrigðiskerfið er út frá reiknilíkönum úr Excel-skjölum í stað þess að miða þjónustuna við þörf íbúanna. Meira og meira af þjónustunni er flutt til Reykjavíkur og er staðan jafnvel sú að engan geðlækni er að finna á mestöllu Suðurlandi. Fátækt fólk ræður illa við að sækja slíka þjónustu til Reykjavíkur. Fólk með börn sem þurfa sérstaka þjónustu þurfa að vera sífellt á ferðinni með börnin sín. Heilbrigðisstarfsfólki er þrælað út, sérstaklega yfir aðalferðamannatímann. Fólk gefst upp í starfi þar sem það brennur einfaldlega út sem síðan leiðir til enn meira álags á þá sem eftir eru. Úr þessum vítahring verðum við að losna. Það þarf að stórauka fjármagn til heilbrigðiskerfisins til viðbótar við að byggja hátæknisjúkrahús í Reykjavík. Það þarfaverk má ekki bitna á þjónustunni úti á land.
Stórfelld uppbygging óhagnaðardrifins húsnæðis
Þegar herinn fór af landi brott þá eignaðist almenningur hundruðir íbúða á Suðurnesjum. Það var tilvalið tækifæri til að nota það húsnæði sem byrjunina á að byggja upp félagsleg húsnæði. Það var ekki gert heldur voru íbúðirnar seldar Heimavöllum fyrir slikk. Á lánum sem ætluð voru fyrir óhagnaðardrifið húsnæði! Það var auðvitað augljóst frá upphafi að leigan myndi hækka upp úr öllu valdi, sem hún gerði. Til viðbótar komust húsnæðisbraskararnir yfir blokkir á Selfossi og í Hveragerði. Þetta var gert í tíð ríkisstjórnar Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks, enda eru þessir flokkar gegn félagslegum lausnum. Gegn þessari einkavæðingarstefnu nýfrjálshyggjunnar teflum við Sósíalistar fram öflugri húsnæðisstefnu þar sem við viljum byggja 30 þúsund óhagnaðardrifnar íbúðir út um allt land. Það er ekki bara fólk á höfuðborgarsvæðinu sem býr í leiguhúsnæði, á Suðurlandi eru fjölmargar fjölskyldur að greiða bröskurum okurleigu. Þessu munum við Sósíalistar breyta.
Sósíalísk landbúnaðarstefna og gjaldfrjálst vegakerfi
Framsóknar og Sjálfstæðisflokkurinn hafa ávallt lagt áherslu á stórbýli og milliliði. Gegn þessu tefla Sósíalistar alvöru landbúnaðarstefnu sem leggur áherslu á smærri og millistór býli og uppbyggingu fjölskyldurekinnar ferðaþjónustu. Við viljum veita afslátt á raforkuverði til gróðurhúsaræktar og setja búsetuskyldu eða aðrar takmarkanir á jarðir sem seldar eru. Sósíalistar hafna algjörlega stefnu Samgönguráðherra, Sigurðs Inga Jóhannssonar, um vegagjöld. Vegagjöld eru skattur á lágtekjufólk og fólk sem þarf að ferðast daglega vegna vinnu. Vegir og samgöngur eru almannagæði.
Valdið heim
Grundvallarstefna Sósíalistaflokksins er að fá valdið og þjónustuna heim í byggðirnar. Sósíalistaflokkurinn er landsbyggðarflokkur og sósíalísk byggðastefna er eitt af lykilstefnumálum flokksins. Ákvörðun okkar sem kjósenda í haust er því gífurlega mikilvæg. Kjósum því J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Alþingiskosningunum 25. september næstkomandi.
Guðmundur Auðunsson.
Höfundur er oddviti J-lista Sósíalistaflokks Íslands
í Suðurkjördæmi.