Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Hvatagreiðslur fyrir eldri borgara og öryrkja
Miðvikudagur 11. maí 2022 kl. 10:17

Hvatagreiðslur fyrir eldri borgara og öryrkja

Við í Samfylkingunni höfum verið einhuga í að efla heilsu og heilbrigði íbúa bæjarins okkar. Barist gegn heilsuspillandi stóriðju, komið á lýðheilsuráði, ráðið til okkar lýðheilsufulltrúa og stóraukið hvatagreiðslur til barna úr 7.000 í 45.000 kr. Börnin geta nýtt hvatagreiðslur í tómstundir, listgreinar og til íþrótta að þeirra eigin vali.

Við höfum verið þátttakendur í lýðheilsuverkefninu Janus heilsuefling frá byrjun eða síðan árið 2017. Við erum mjög ánægð með verkefnið og samstarfið við Janus og HSS. Áttundi hópurinn er í fullum gangi núna þar sem heildarfjöldinn er 156 einstaklingar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Samkvæmt lýðheilsuvísum fyrir Suðurnes fyrir árið 2021 voru fleiri fullorðnir sem mátu líkamlega og andlega heilsu slæma miðað við önnur landssvæði. Í ljósi þessa viljum við ná til fleiri einstaklinga – en í Reykjanesbæ eru einstaklingar 60 ára og eldri alls 3.463 og öryrkjar um 3.110. Ljóst er að sökum fjöldans mun það taka okkur mörg ár að koma öllum sem vilja til Janusar.

Jöfn tækifæri til heilsueflingar

Markmið Samfylkingar er að gefa öllum jöfn tækifæri á styrkjum til heilsueflingar og tómstunda og val um það í hvað umræddur styrkur fer. Eldri borgarar og öryrkjar geta því notað hvatagreiðslur sínar í Janusar-verkefnið sem við hvetjum til en einnig má nota styrkinn í að kaupa sundkort, kaupa kort í ræktina, fara í golf, velja sér tómstundir við hæfi o.s.frv. Einstaklingarnir ráða því sjálfir og við hleypum fleirum að.

Lýðheilsa er okkur mjög mikilvæg og við viljum m.a. koma á samstarfi við íþróttahreyfinguna um stofnum öldungadeilda til að efla virkni eldri borgara. Þá munum tryggja áframhaldandi uppbyggingu á Nesvöllum en skóflustunga var tekin nýverið að nýju 60 rýma hjúkrunarheimili sem rís þar á næstu árum.

Ef við náum að virkja þennan stóra hóp í samfélaginu okkar og efla lífsgæði þeirra og vellíðan þá stuðlum við að betra samfélagi fyrir alla.

Höfum hlutina í lagi!

Guðný Birna Guðmundsdóttir, hjúkrunarfræðingur og bæjarfulltrúi, 2. sæti S-lista Samfylkingarinnar og óháðra í Reykjanesbæ.