Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Passaðu að slasa þig á virkum degi,  alls ekki um helgar!
Föstudagur 21. maí 2021 kl. 07:29

Passaðu að slasa þig á virkum degi, alls ekki um helgar!

Þetta virðist vera tilfellið á HSS og er algjörlega óásættanlegt fyrir okkur íbúa á Suðurnesjum.

Átta ára stúlka dettur úr rólu á föstudagskvöldið, hún finnur til og sefur ekki vegna verkja þá nóttina. Móðir hennar fer með hana á HSS á laugardagsmorgun þar sem kalla þarf út röntgentækni til að taka röntgenmyndina. Þegar því er lokið er barnið sett í teygjusokk og móðurinni tjáð að hringt verði í hana á mánudaginn ef um brot sé að ræða þar sem ekki er hægt að lesa út úr röntgenmyndum um helgar. Ef barnið er verkjað, vinsamlegast gefið henni þá verkjalyf.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Sem betur fer er þessi átta ára gamla stúlka algjört hörkutól, hún fann til og fór svo í skólann á mánudagsmorgun, ennþá með teygjusokk um höndina.

Klukkan 13 á mánudag fær móðirin símhringingu frá HSS þar sem hún er beðin um að koma með barnið þar sem hún er brotin og þurfi að fá gifs.

Er þetta virkilega svona árið 2021 að ekki sé læknir á vakt um helgar sem les út úr röntgenmyndum?

Er það virkilega þannig að ef að fólk slasar sig um helgi þá þurfi það vinsamlegast að harka af sér og taka verkjalyf til mánudags? Eitthvað þarf að laga í heilbrigðisþjónustunni á Suðurnesjum.

Þetta er klárlega ekki eina dæmið en þessi saga og þessi átta ára stúlka stendur mér nær og mér fannst ég þurfa að koma þessu frá mér.

Kveðja,
Ester Grétarsdóttir,
Suðurnesjabæ.