Tilraun sem ekki tekst
Guðbrandur Einarsson svarar Sveinbjörgu Birnu Sveinbjörnsdóttur.
Sveinbjörg Birna Sveinbjörnsdóttir, oddviti Framsóknar- og flugvallarvina í Reykjavík, bendir mér og lesendum VF réttilega á að það hafi verið rangt af mér að leggja stöðu Framsóknarflokksins í Reykjavík og Reykjanesbæ að jöfnu eins og ég gerði í viðtali við Vf.is þann 4. júlí sl. Tek ég undir hennar orð og biðst velvirðingar á því. Þetta taldi ég mig geta gert eftir að hafa lesið m.a þessa grein.
Hlutfallslegur styrkleiki Framsóknarflokksins í Reykjavík er annar og meiri en hér í Reykjanesbæ og því áttu þeir rétt á ákveðnum nefndum. Þar sem þessa styrkleika naut hins vegar ekki við fengu þeir ekki mann í nefnd eins og í heilbrigðisnefnd, Orkuveitu Reykjavíkur og Faxaflóahöfnum (sjá hér).
Sé það hins vegar tilgangurinn með þessum skrifum að reyna að sýna fram á fordæmaleysi þess að meirihluti bæjarráðs Reykjanesbæjar hafnaði beiðni Framsóknarflokksins um áheyrnarfulltrúa í fastanefndum, þá tekst það ekki þrátt fyrir þessa tilraun. Ég hefði átt að nefna skýrara dæmi og geri það hér með. Sama staða og hér er, kom upp á Ísafirði þar sem Framsóknarflokknum var ekki heimiluð seta í nefndum (sjá hér).
Í þessari grein kemur eftirfarandi fram haft eftir oddvita Í listans Örnu Láru Jónsdóttur að „Framsóknarflokkurinn er með mann í bæjarstjórn og áheyrnarfulltrúa í bæjarráði þannig að sjónarmið flokksins munu koma fram.“ Fordæmin eru því fyrir hendi og í samræmi við núgildandi sveitarstjórnarlög og þá bæjarmálasamþykkt sem m.a núverandi oddviti Framsóknarflokksins í Reykjanesbæ og fyrrverandi meirihluti sjálfstæðismanna samþykktu á sínum tíma.
Guðbrandur Einarsson,
oddviti Beinnar leiðar