Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Aðsent

Treystum rekstur og árangur íþrótta í Reykjanesbæ
Föstudagur 4. febrúar 2022 kl. 07:19

Treystum rekstur og árangur íþrótta í Reykjanesbæ

Reykjanesbær er þekktur íþróttabær. Hér er vagga körfuboltans á Íslandi með óteljandi Íslandsmeistaratitla og knattspyrnuliðin okkar ekki síður verið í fremstu röð og skilað mörgum titlum hús. Árangur og aðstaða í íþróttum er eitt af því sem fólk horfir til þegar það velur sér nýtt bæjarfélag til að búa í. Þess vegna er það mikilvægt að bæjarfulltrúar hlúi að íþróttastarfsemi, uppbyggingu íþróttamannvirkja og standi vörð um stuðning við rekstur íþróttahreyfingarinnar í bænum. Ég hef kynnt mér stöðu hreyfingarinnar og mun, ef ég verð til þess kosinn, leggja áherslu á stuðning og uppbyggingu íþróttafélaganna í Reykjanesbæ.

Styrkari stoðir undir rekstur

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Ég tel það mikilvægt að við skoðum hvað önnur sveitarfélög eru að gera í þessum málaflokki og taka það besta af því til okkar. Sjálfboðaliðar og starf foreldra að málefnum íþróttahreyfingarinnar er afar mikilvægur þáttur í starfseminni en í dag orðið erfiðara að fá sjálfboðaliða til starfa fyrir íþróttafélögin. Að fá sjálfboðaliða til að sinna stærri verkefnum eins og að stýra einhverri deild er enn verra. Þeir sem gefa sig í þetta endast ekki lengi, þeir enda á að brenna út og hætta algerlega afskiptum af íþróttum og þar með er þekking þeirra farin úr hreyfingunni. Hér verður Reykjanesbær að stíga inn í hlutina ef ekki á illa að fara. Bærinn þarf að gera úttekt á íþróttamálum í Reykjanesbæ og gera samanburð við önnur sveitarfélög þar sem hlutirnir eru að ganga mjög vel, hvað er öðruvísi hjá þeim og hvernig viljum við hafa hlutina, og koma svo með alvöru stuðning frá bænum þegar búið er að hanna módel sem þarf að fara eftir.

Tekjulindir horfnar

Í dag eru félögin að kalla eftir fleiri starfsmönnum greidda af bænum en það er bein afleiðing af því að umfangið hefur aukist og erfiðara er að fá sjálfboðaliða til starfa. Félögin hafa orðið fyrir gríðarlegu tekjufalli. Áhorfendur á leiki síðastliðin tvö ár hafa nær alveg horfið og þorrablót og aðrar skemmtanir sem hafa verið stór þáttur í að afla fjár til að halda úti metnaðarfullu starfi hafa fallið niður.

Aukum þátttöku

Til þess að auka hér þátttöku í íþróttum þá ættu börn og unglingar að fá að prófa allar íþróttir ef vilji er til þess hjá þeim. Reykjanesbær getur samið við íþróttafélögin um að fyrstu tvö árin sem barn stundar íþróttir verði að kostnaðarlausu og bærinn hreinlega kaupir þjónustuna af íþróttafélögunum.

23% Íbúa

Um 4.400, eða 23%, íbúa Reykjanesbæjar eru af erlendu bergi brotin en aðeins lítill hluti barna þeirra skila sér í íþróttir. Börnum innflytjenda sem stunda íþróttir gengur betur að aðlagast og festa rætur í nýju samfélagi. Það liggur því alveg ljóst fyrir að gera þarf gangskör í að fá börn innflytjenda til þess að vera með í íþróttum. Það er liður í að láta þau finna það að þau eru velkomin í Reykjanesbæ.

Auðvelt fyrir fjölskyldur

Það þarf að gera fjölskyldum auðveldara fyrir til þess að krakkar geti stundað íþróttir.

Það gerum við meðal annars með því að samræma betur skóla og íþróttastarf og frístundabílar sem eru fyrir 1.– 4. bekk verði fyrir alla grunnskólanemendur.

Tökum höndum saman og gerum Reykjanesbæ aftur að íþróttabæ.

Eiður Ævarsson,
frambjóðandi í 4. sæti í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins.
www.eiduraevarss.is