„Nú sem aldrei fyrr reynir á samstöðu Grindvíkinga“
Björgunarsveitin Þorbjörn í Grindavík hvetur Grindvíkinga til samstöðu í þeim hamförum sem nú ganga yfir en margir bæjarbúar eru orðnir langþreyttir á ástandinu en jarðhræringar eru mjög nálægt byggðinni í Grindavík og jörðin hefur nú nötrað nær látlaust í 20 daga.
„Nú sem aldrei fyrr reynir á samstöðu Grindvíkinga þar sem margir bæjarbúar eru orðnir langþreyttir á ástandinu eða jafnvel hræddir. Það er hlutverk okkar allra að hjálpast að við að róa taugar þeirra sem eiga erfitt þegar svona hamfarir ganga yfir og við getum verið fegin því að ekki hefur orðið tjón á fólki. Óvissan er okkar versti óvinur þessa dagana og þess vegna er svo mikilvægt að standa saman og upplýsa hvort annað. Ef fólki líður illa heimavið vegna skjálftanna bendum við fólki á að skella sér aðeins út og fá sér frískt loft. Það er t.d. mjög sniðugt að fara í gönguferð eða bíltúr svona aðeins til þess að dreifa huganum. Ef þið þekkið einhvern sem á erfitt þessa dagana og kemst jafnvel illa út úr húsi þá hvetjum við ykkur til þess að kíkja í heimsókn eða bjóða viðkomandi út í stutta stund,“ segir í færslu sem björgunarsveitin Þorbjörn birtir á Facebook-síðu sveitarinnar.
Björgunarsveitin ítrekar í sömu færslu þau skilaboð til Grindvíkinga að ef hættuástand skapast þá verða allir látnir vita með mjög áberandi hætti. Fyrst með skilaboðum, svo með hljóðmerkjum og að lokum verður gengið í hvert einasta hús í Grindavík.
„Ef til eldgoss kemur hér í nágreninu þá stöndum við Grindvíkingar saman eins og svo oft áður og tæklum verkefnið af æðruleysi,“ segir að lokum en með færslunni er birt myndband úr eftirlitsmyndavélum í húsnæði sveitarinnar sem sýnir kraftinn í jarðskjálftanum sem varð kl. 14:15 í gær og mældist M5,4 að stærð. Eins og sjá má þá eru þetta gríðarlega miklir kraftar sem eru í gangi þegar svona skjálftar ganga yfir.