Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

„Þið megið þá bara eiga hann. Þetta er ykkar bæjarstjóri“
Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
föstudaginn 15. janúar 2021 kl. 07:10

„Þið megið þá bara eiga hann. Þetta er ykkar bæjarstjóri“

sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins á bæjarstjórnarfundi í Reykjanesbæ. Margrétarnar í bæjarstjórn ósáttar og fóru mikinn.

„Ég sagðist styðja Kjartan Má Kjartansson sem bæjarstjóra á sínum tíma. Við studdum ráðningu hans, að hann yrði ráðinn yrði ópólitískur bæjarstjóri og yrði hafinn yfir pólitískt karp sem framkvæmdastjóri okkar allra. Núna er ég gersamlega miður mín yfir því að hafa verið höfð að fífli. Nú er hann búinn að setja sig í gír með meirihlutanum en þið megið þá bara eiga hann. Þetta er ykkar bæjarstjóri,“ sagði Margrét Sanders, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Bæjarstjórn Reykjanesbæjar, á bæjarstjórnarfundi 5. janúar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Þar gagnrýndi hún ummæli bæjarstjórans í Facebook-færslu á gamlársdag og sagðist taka undir gagnrýni Margrétar Þórarinsdóttur, bæjarfulltrúa Miðflokkins, á bæjarstjóra en hann svaraði spurningum hennar á bæjarráðsfundi fyrr í desember með því að senda henni spurningar um hvernig hún teldi rétt að forgangsraða í frekari hagræðingum. Í færslu bæjarstjóra á gamlársdag sem fylgdi með deilingu fréttar af Víkurfréttum um umræður frá bæjarstjórnarfundi við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2021 sagði hann að minnihlutinn hafi ekki komið með neinar tillögur til hagræðingar. Minnihlutinn sagði í þessum umræðum á bæjarstjórnarfundinum um fjárhagsáætlun að aðhald væri ekki nógu mikið og um það var fjallað í þessari frétt. Þessi ummæli féllu í grýttan jarðveg hjá  Margréti Sanders og Margréti Þórarinsdóttur sem sögðu þetta ekki rétt og svöruðu þær bæjarstjóra á Facebook. Þær fylgdu því eftir á bæjarstjórnarfundi 5. janúar 2021 og voru vægast sagt ósáttar.

Á bæjarstjórnarfundi 5. janúar sögðust sjálfstæðismenn ætla að hafa sem flestar tillögur skrifaðar í framtíðinni. Ekki þýddi að ræða neitt við meirihlutann nema að það kæmi fram skriflegt. Sjálfstæðismenn báru upp nokkrar tillögur á fundinum, m.a. um að leggja niður Framtíðarnefnd og að fresta ritun sögu Keflavíkur um eitt ár. Þær voru studdar af minnihlutanum en felldar af meirihlutanum.