Ánægð með varnarsigur
segir Vilhjálmur Árnson, Sjálfstæðisflokki
Vilhjálmur Árnason var nokkuð ánægður með niðurstöður kosninganna um síðustu helgi en hann skipaði 2. sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.
„Niðurstöður kosninganna voru mun betri en allar kannanir og umræður höfðu gefið til kynna undanfarin misseri. Að því leytinu til erum við ánægð með varnarsigurinn og fundum það í baráttunni hvernig stemmningin jókst með okkur með hverjum deginum. Við fundum að fólk kallaði eftir meiri Sjálfstæðisflokki en voru hvekkt eftir sjö ára ríkisstjórnarsamstarf þvert á hið pólitíska litróf. Okkur finnst við ekki hafa notið sannmælis með þeim árangri sem við náðum í fjármálum ríkisins, ná tökum á landamærunum, orkuöflun og breyttu örorkulífeyriskerfi þrátt fyrir fall Wow-air, heimsfaraldur, jarðhræringar og tvenn stríð. Við erum stolt af okkar vinnu og endalaust þakklát fyrir allt það öfluga fólk sem tók þátt í kosningabaráttunni með okkur. Markmiðið var vissulega að ná hærra og vera áfram með þrjá þingmenn í kjördæminu og ekki missa fyrsta þingmann kjördæmisins til oddvita sem býr ekki í kjördæminu, það voru vonbrigði.
Við erum samt keik og munum áfram leggja okkur öll fram við að fylgja þeim fjörlmörgu málum eftir sem skipta kjördæmið miklu máli,“ segir Vilhjálmur Árnason sem skipaði annað sæti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi.