Áttum mjög erfitt þegar fólkið var að fara
– Finnbogi Björnsson hefur verið framkvæmdastjóri DS í 37 ár
Finnbogi Björnsson hefur verið framkvæmdastjóri Dvalarheimila aldraðra á Suðurnesjum [DS] í 37 ár. Á þessum árum hafa heimilismenn á Garðvangi og Hlévangi verið næstum 700 talsins að ótöldu öllu starfsfólkinu. Finnbogi segir líka að það sé eftirminnilegast frá öllum starfsárunum hjá DS hvað hann hafi kynnst mörgu fólki. Það var því líka undarleg stund á sunnudegi fyrir næstum hálfum mánuði þegar allt fólkið á Garðvangi borðaði saman hádegisverð í matsal heimilisins. Eftir að hafa fengið nautagúllas og tertusneið komu ættingar heimilisfólks og sóttu það og fluttu á nýtt heimili á Nesvöllum í Reykjanesbæ. Eftir sat Finnbogi í yfirgefnu hjúkrunarheimilinu í Garðinum sem var áður heimili allt að 40 einstaklinga og örugglega stærsti kvennavinnustaður byggðarlagsins.
Víkurfréttir tóku hús á Finnboga daginn eftir að Garðvangur lokaði og ræddu við hann um starf hans hjá Dvalarheimilum aldraðra á Suðurnesjum og þau tímamót sem eru nú í öldrunarmálum á svæðinu.
Hófst með samstarfi sjö sveitarfélaga
- Þetta eru veruleg tímamót þegar allur rekstur af Garðvangi er að flytja á Nesvelli. Ef þú rifjar upp þessa sögu, hvernig þetta byrjaði allt saman.
„Þetta hófst með því að sveitarfélögin á Suðurnesjum, sem þá voru sjö, tóku sig saman um rekstur dvalarheimilis hér á Garðvangi. Þau keyptu þá þetta fyrsta húsnæði sem var risið þá og hét þá Grímshóll. Þá var þetta dvalarheimili og hér bjuggu 22 aðilar. Þróunin hér hefur verið sú að við bættum við árið 1984. Síðar var bætt við allri aðstöðu eins og sal fyrir félagsstarf, hand- og fótsnyrtingu og fleira árið 1996. Þetta þróaðist þannig að þegar mest var hér þá bjuggu hér liðlega 40 aðilar en Garðvangur breytist hægt og rólega úr dvalarheimili yfir í hjúkrunarheimili og hefur verið hjúkrunarheimili allar götur síðan 1986“.
Keflavíkurbær hafði rekið Hlévang frá árinu 1958 en Dvalarheimili aldraðra á Suðurnesjum yfirtaka reksturinn árið 1981. Þá voru þrettán einstaklingar á Hlévangi og það voru allt dvalarrými. Árið 1992 var lokið við að byggja við Hlévang og heimilismenn þar verða þrjátíu talsins og allt í dvalarrýmum.
„Rýmin á Hlévangi breyttust svo hægt og rólega yfir í hjúkrunarrými þar sem fólkið var að eldast og var að koma veikara inn á heimilið en áður og nú eru þar 30 hjúkrunarsjúklingar. Hrafnista tók yfir rekstur þess heimilis þann 1. mars sl. og heimilisfólkið af Garðvangi flutti á Nesvelli um þarsíðustu helgi“.
- Hvað hafa margir dvalið á Garðvangi?
„Við erum mjög nálægt því að hér hafi farið í gegn 450 aðilar á Garðvangi og 230 manns verið heimilismenn á Hlévangi í gegnum tíðina, þannig að það eru að nálgast 700 manns sem hafa búið á þessum heimilum á minni vakt“.
- Já, þú ert búinn að vera hérna frá upphafi.
„Já, ég byrjaði hérna 1. nóvember 1976 en þá hafði enginn fengist til að sjá um launamál og annað, þannig að ég lét til leiðast að fara í þetta. Þetta þróaðist áfram, það fékkst ekki í þetta starfsmaður og ég var með þetta í hlutastarfi og gerði þetta með aðstoð konunnar minnar sem sá um launaútreikninga og eitt og annað. Það gerðist svo ýmislegt fleira, þannig að ég var ekki einvörðungu í þessu í 37 ár, það var sem betur fer meiri fjölbreytni í þessu líka“.
Kynnst alveg ótrúlega mörgu fólki
- Hvað er eftirminnilegast frá þessum tíma hjá dvalarheimilum aldraðra?
„Þú kynnist alveg ótrúlega mörgu fólki. Af því heimilisfólki sem var hér að flytja á Nesvelli þá voru tveir sem hafa verið hér á Garðvangi í nær 10 ár. Fyrr á tíð var heimilisfólk hér enn lengur þegar þetta var dvalarheimili. Ég þekkti mikið af eignaraðilum DS, sveitarstjórnarmönnunum, í krafti þess að ég var það sjálfur hér í Garðinum. Þannig var þetta léttara, því ég hafði kynni af þessu fólki á öðrum vettvangi“.
- Hvernig finnst þér skilningur ríkis og bæjar vera á því sem fer fram á þessum heimilum?
„Ef við tölum um eignaraðilana að DS, þ.e. Reykjanesbæ, Sandgerði, Garð og Voga, þá er skilningur þeirra prýðilegur. Hér á Garðvangi stóðu menn frammi fyrir því að það þurfti að leggja töluvert fjármagn til endurbóta ef við ætluðum að reyna að nálgast þær kröfur sem gerðar eru af hálfu hins opinbera til hjúkrunarrýma í dag. Rekstur hjúkrunarheimila á Íslandi er þungur. Hið opinbera hefur viðurkennt að daggjöldin eru of lág. Vonandi stendur það til bóta að það verði léttara fyrir reksturinn. Hjá sveitarfélögunum eru menn vel opnir fyrir þörfum þessara heimila“.
- Reksturinn hefur orðið flóknari með árunum þar sem þeir sem koma hingað inn eru veikari?
„Já, og það sem fólk hefur alla tíð átt erfitt með að sætta sig við er, að hafi fólk haft góðar tekjur og talsverðan lífeyrissjóð þá er þannig komið núna að fólk er farið að taka töluverðan þátt í dvalarkostnaði sínum. Það finnst mörgum ekki sanngjarnt. Fólk getur þurft að borga með sér 350-60 þúsund krónur ef fjárhagur þess er þannig. Það leiðinlega sem okkur varðar sem rekstraraðila er að við fáum pappíra sem segja, þú átt að innheimta þetta mikið hjá þessum aðila. Síðan eigum við að skila þessu til Tryggingastofnunar. Ef að við náum ekki þessum fjármunum frá heimilisfólkinu, þá draga þeir það frá daggjöldunum næsta mánuð á eftir. Við höfum ekkert með þessa peninga að gera annað en að innheimta þá. Eins og vel er hægt að ímynda sér, þá er ekki alltaf skemmtilegt að rukka fólk um fleiri hundruð þúsund, vegna þess hversu góðan lífeyri það hefur unnið sér inn“.
- Þeir sem eiga meiri pening, þeir þurfa að borga meira. Hver eru viðbrögð ættingja sem hjálpa sínu fólki?
„Það tekur oft tíma að koma því í skilning um þetta. Skrifstofustjórinn hjá mér til 28 ára, Guðrún Eyvindsdóttir, hefur þetta verkefni. Hún er ósköp þægileg viðureignar og það hefur því aldrei skapast leiðinlegt ástand þess vegna“.
Glæsileg aðstaða á Nesvöllum
- Hvernig finnast þér svo aðstæður á Nesvöllum og þessar breytingar?
„Þetta er glæsileg aðstaða og þetta er það sem koma skal. Hvort að rýmið á að vera 32 fermetrar nettó, eða 27 fermetrar eða eitthvað annað - það kostar mikið að byggja svona heimili. Þetta eru glæsilegar vistarverur og gefur ekki eftir öðrum nýjum heimilum sem ég hef skoðað á landinu“.
-Hvernig er tilfinningin að sjá þetta heimili hér í Garðinum tómt og alla vistmenn farna á nýjan stað. Hvernig er sú tilfinning?
„Við áttum mjög erfitt þegar fólkið var að fara. Fólkið sjálft skiptist nokkuð í hópa. Sumir voru með mikinn trega gagnvart þessu, aðrir glaðir og ánægðir. Það getur maður vel skilið. Af þessum 38 sem hér bjuggu, þá voru 30 að flytja heim í Keflavík og Njarðvík og örugglega finnst því fólki það notalegt en það er heldur ekki algilt. Við starfsfólkið vorum tregablandin og það var afskaplega einkennilegt að ganga hér um ganga og heilsa ekki á báðar hendur eins og maður var vanur“.
Verður Garðvangur gistiheimili?
- Hvað verður um þetta húsnæði?
„Nú veit ég ekki. Nú þarf DS og eignaraðilar DS að taka ákvarðanir um það. Mikið af búnaðinum höfum við selt yfir til Nesvalla. Þetta verður mjög líklega auglýst til leigu eða sölu.
Húsið er í mismunandi ástandi. Elsti hlutinn þarf verulegra endurbóta við. Það eru allir í ferðamálum í dag og þetta húsnæði er á margan hátt heppilegt í slíkt. Það sem hefur háð starfseminni hér er að herbergin hafa verið lítil, mörg þeirra og salernisaðstaðan ekki nógu góð. Á nýju heimilunum eru allir með salerni upp á 6 fermetra og það er allt önnur staða fyrir fólk.
Ég hef setið í nokkrum nefndum sem hafa haft samskipti við ráðuneyti og hæsta talan sem ég hef heyrt nefnda að menn hafa viljað slást fyrir í rými eru 40 fermetrar. Á Nesvöllum eru rýmin 32 fermetrar nettó en þar eru 75 fermetrar alls á hvern einasta mann í því húsi“.
- Hvernig var með starfsfólk sem var hérna, fékk það vinnu hjá nýjum aðila?
„Já, ég held að allir sem óskuðu eftir því og vildu flytjast fengu vinnu. Mér bauðst það ekki, enda orðinn of gamall og það eru tveir aðrir sem bauðst ekki sambærileg vinna. Tveir kusu að hætta en 96-7% af starfsfólkinu fékk vinnu áfram hjá Hrafnistu. Og það gerðist líka á Hlévangi, þar fengu allir vinnu áfram sem vildu vinna“.
- Svona að lokum, hvernig sérðu þróunina í þessu á næstu árum?
„Það er mikið talað um stefnur og hér vilja menn helst nálgast Skandinavíu og Danmörku. Þar er það þannig að þegar þú ferð inn á heimili, þá ert þú með þinn sjálfstæða fjárhag. Þú borgar fyrir matinn þinn, þrifin og þvottana þína. Þannig veit fólk nákvæmlega að hverju það gengur og hvað það hefur. Það getur kannski sparað sér eitthvað og haft úr meiru að spila. Aðalatriðið þar, sem er ekki hér, að það heldur sínu fjárforræði. Það er það sem koma þarf“.
Er ekki í golfinu en ég finn mér eitthvað
- Það eru ekki margir sem vinna hjá hinu opinbera í 37 ár. Hvað ætlar þú að fara að gera?
„Ég ætla að klára að ganga frá reikningunum fyrir árið 2013 og þessum næstum þremur fyrstu mánuðum þessa árs. Ég er ekki mikið í golfinu, en ég finn mér eitthvað. Þegar ég varð sjötugur var ég beðinn um að vera áfram til að sjá hvernig þetta færi hér og síðan eru liðin um tvö ár. Ég kvíði þessu ekki, þetta er orðið mjög gott. Þetta er orðið ágætt.“
Viðtal: Páll Ketilsson
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson