Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Aukin von fyrir marga lántaka
Snorri Snorrason hdl og Hallfríður Hólmgrímsdóttir.
Sunnudagur 9. nóvember 2014 kl. 10:00

Aukin von fyrir marga lántaka

Unnu mál í héraðsdómi vegna fasteignaláns hjá Sparisjóðnum í Keflavík.

Hallfríður Hólmgrímsdóttir tók fasteignalán árið 2006 til að fjármagna byggingu húss fyrir 7 manna fjölskyldu sína í Grindavík. Lánið stökkbreyttist í kjölfar hrunsins og var lánasamningurinn dæmdur ólögmætur í héraðsdómi í síðustu viku. Snorri Snorrason hdl. flutti málið fyrir dómnum. Blaðamaður Víkurfrétta hitti Snorra og Hallfríði og ræddi við þau um styrk vonarinnar og mikilvægi réttlætis í sambærilegum málum. Mál Hallfríðar er fyrsta mál vegna einstaklingsláns vegna svona lánagerðar sem fær þessa meðferð fyrir héraðsdómi.

Mikil von framundan

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er búið að einkennast af mikilli von frá því að Snorri tók málið að sér. Þá sá maður fram á að það væri kannski einhver glæta. Jólin í fyrra voru aðeins betri en jólin þar á undan,“ segir Hallfríður Hólmgrímsdóttir, sem tók lán í Sparisjóðnum í Keflavík árið 2006 til þess að fjármagna byggingu húss sjö manna fjölskyldu sinnar í Grindavík. Lánið hækkaði úr 23 milljónum í 49 á einni nóttu í kjölfar efnahagshrunsins árið 2008. Svo var það endurreiknað og lækkað í 34 milljónir árið 2011. Lánasamningurinn var dæmdur ólögmætur í héraðsdómi í síðustu viku. „Engu að síður kostaði okkur blóð, svita og tár að koma þaki yfir okkur. Afborgunin hækkaði svo gríðarlega við það að færa lánið yfir í íslenskar krónur með íslenska vexti. Staðan á mánuði var í raun verri við að gera það.“

Hús og heimili Hallfríðar í Grindavík.


Afborganir fóru í kvartmilljón
Hallfríður segist hafa séð fram á ofboðslega erfiða tíma, sem urðu svo sannarlega. „Það komu þarna greiðslustopp og það má segja að þau hafi kannski bjargað manni um tíma og maður hafði a.m.k. þó þá skynsemi að bera að spara peninginn í greiðslustoppunum til að eiga upp í það sem vantaði um hver mánaðamót. Ég sótti um allar þessar frystingar sem hægt var að fá til þess að eiga upp í næstu afborganir. Öðruvísi hefði þetta ekki gengið.“ Afborganir af láninu fóru úr 70-80 þúsund í 250.000 krónur á mánuði. Hallfríður hafði fram að því alltaf staðið í skilum með lánið og nánast aldrei greitt dráttarvexti. Það hefði ekki verið sjálfgefin staða í framtíðinni ef málið hefði ekki farið eins og það fór.

Svipt frelsi á einni nóttu
Eiginmaður Hallfríðar var einn útivinnandi þegar þau fengu skellinn og fjölskyldan þurfti að skipuleggja líf sitt upp á nýtt. „Það þurfti að skera niður alla aðstoð við elstu börnin og þau þurftu að fara út á vinnumarkaðinn samhliða námi og bjarga sér meira sjálf,“ segir Hallfríður.  Lánið stendur í rúmri 31 milljón og síðasta afborgun var 256 þúsund um síðustu mánaðamót. „Við hefðum sennilega reynt að fá láninu skilmálabreytt eða eitthvað þessháttar, s.s. breytt því í verðtryggt lán sem hefði ekki verið ákjósanlegur kostur. Lánið hefði fljótlega farið upp fyrir verðmæti eignarinnar. Eða við hefðum reynt að selja húsið en við hefðum sennilega ekki getað keypt annað hús því afgangurinn hefði ekki verið mikill. Ég hefði líklega gefist upp á þessari afborgun snemma á næsta ári og þannig þurft að bregðast við með einhverjum hætti. Þrátt fyrir að hafa varið ævinni í að vera skynsöm til að geta á einhverjum tímapunkti um frjálst höfuð strokið þá var ég svipt þessu frelsi á einni nóttu.“ Hallfríður viðurkennir að láninu hafi ekki verið prangað upp á hana en hvorki hún né neinn annar venjulegur neytandi gat ímyndað sér að lánið færi úr 23 milljónum í 49 nánast á einni nóttu. „Því miður þá hafði ég bara ekki meira vit á gengistryggingunni en þetta. Veðsetningarhlutfall eignar okkar var um 60% á sínum tíma og þó að eignfjárstaðan sé jákvæð um örfá prósent þá getur enginn staðið undir þessum afborgunum til lengdar og að því leytinu erum við föst.“

Fólk er að missa húsin sín
Lögmaðurinn Snorri bætir þarna inn í að hann hafi aðstoðað fólk sem sé með svona lán sem er að missa húsnæði sín. „Það eru fjölmargar eignir hérna fjármagnaðar á grundvelli gengistryggðra lána sem verið er eða búið er að bjóða upp. Fyrir þá sem eru að missa húsið sitt gæti þetta orðið til þess að þau fái mögulega lánin endurreiknuð og jafnvel staðið undir þeim. Þegar kveðið var á um viðurkenningu á ólögmæti lánsins fyrir héraðsdómi þá gerði ég mér strax grein fyrir því hvað það þýddi fyrir allt þetta fólk. Þess vegna er svo mikið atriði að þessi mál fái réttan endi á æðsta dómstigi.“ Hallfríður segist einmitt einnig hafa hugsað líka að hún væri ekki ein í þessari stöðu. „Fólk er jafnvel búið að missa húsin sín eða er við það að gera það. Hugsaðu þér hvernig jólin verða hjá þessu fólki? Ég get ekki hugsað það til enda. Ég varð fangi á eigin heimili, við komumst ekkert. Það yrði ekki ákjósanleg staða að fara á leigumarkaðinn með sjö manna fjölskyldu. Mér dugir ekki lítil blokkaríbúð með börnin á breiðum aldri. Við reistum húsið okkar sjálf og lögðum allt sem við gátum í það.“

Von um staðfestingu í hæstarétti
Snorri segir að svona mál geri starf sitt þess virði. „Ég tel þennan dóm vera frekari staðfestingu á þeirri reglu í gengismálum sem kalla mætti misræmisregluna.“ Hún felst í því að ef tilgreining fjárhæðar er í ósamræmi við önnur ákvæði samningsins, þá verði að skoða hann heildstætt. Sé fjárhæðin tildæmis tilgreind í erlendri mynt eins og í samningi Hallfríðar en kveðið á um gengistryggingu í öðrum ákvæðum, verði að skoða samningin heildstætt. Í 7. og 8. grein lánasamnings Hallfríðar er kveðið á um að ef vanefndir verði á samningnum skuli gengistryggingin haldast eftir að búið að gjaldfella lánið. „Það væri engin þörf að kveða á um gengistryggingu í þessum ákvæðum samningsins ef lánið væri ekki gengistryggt. Þegar maður skoðar greiðslukvittanir og annað, þá er hægt að reikna sig í gegnum hvernig erlenda fjárhæðin var aðeins til viðmiðunar. Erlendir vextir og afborganir voru alltaf gengistryggðar með margföldun við hið íslenska gengi við hver mánaðarmót. Alltaf fengust færri og færri erlendar myntir fyrir hverja íslenska krónu og þannig gengistrygging.“

Rétt er að leyfa dómaranum sem kvað um dóminn að eiga lokaorðin: „Þótt þessi ákvæði þyki ekki samrýmast efni lánssamnings málsaðila að öðru leyti verður ekki framhjá því litið að í þeim er kveðið á um að gengistrygging skuli haldast við vannefndir á samningnum, en engin þörf var að kveða á um slíkt ef lánið var í raun í erlendum gjaldmiðli.“
 

VF/Olga Björt.