Bæjarstjórinn flytur frá Grindavík
„Börnin mín og konan sem ég elska búa á höfuðborgarsvæðinu“
Róbert Ragnarsson bæjarstjóri í Grindavík hefur ákveðið að flytja úr bæjarfélaginu. Hann greinir frá því á Facebooksíðu sinni í dag að hann muni flytja á höfuðborgarsvæðið. Þar segir hann að vissulega sé það þverstæðukennt að hann sé að hvetja fólk til þess að flytja til Grindavíkur á meðan hann sjálfur sé að flytja burtu. „Mínar aðstæður eru hinsvegar þannig að börnin mín og konan sem ég elska búa á höfuðborgarsvæðinu. Þegar valið stendur milli þess að vera nálægt vinnunni, eða þeim sem ég elska, þá er svarið einfalt,“ segir Róbert í færslunni. Hann mun að sögn áfram sinna hagsmunum Grindavíkurbæjar sem bæjarstjóri líkt og undanfarin sex ár en hann tók við starfinu sumarið 2010. Færsluna hjá bæjarstjóranum má sjá hér að neðan.