Bárusker 2 síðasta fjölbýlishúsið í Sandgerði
Við Bárusker 2 í Sandgerði hefur risið ellefu íbúða fjölbýlishús á tveimur hæðum sem nú er komið í sölu. Uppbygging Skerjahverfis hófst árið 2021 en þar er gert ráð fyrir alls 136 íbúðum, þar af 33 íbúðum í fjölbýli og 103 íbúðum í sérbýli. Sérbýlisíbúðir skiptast í 35 íbúðir í raðhúsum, 27 íbúðir í keðjuhúsum, 18 íbúðir í parhúsum og 23 íbúðir í einbýlishúsum. Fjölbýlishúsin eru nú öll risin og er Bárusker 2 síðasta fjölbýlishúsið sem rís í Sandgerði samkvæmt gildandi skipulagi.

Halldór Kristján Sigurðsson, löggiltur fasteignasali hjá Skeifunni fasteignasölu, annast sölu íbúðanna í húsinu. Bárusker 2 er fjölbýlishús sem er byggt úr steyptum einingum og er staðsett í Sandgerði, Suðurnesjabæ. Þar eru 2ja, 3ja og 4ra herbergja íbúðir, 64 fermetrar þær minnstu og upp í 94 fermetra þær stærstu. Verðið er frá 46,9 milljónum króna. Íbúðirnar eru hannaðar inn í hlutdeildarlánakerfið. Halldór segir að Bárusker 2 sé álitlegur kostur til búsetu.
Íbúðirnar afhendast fullbúnar með vönduðum innréttingum ásamt gólfefnum. Í eldhúsi fylgja auk eldavélar bæði ísskápur og uppþvottavél. Svalir eru út frá stofu íbúða á efri hæðum. Sérafnotasvæði er út af stofu með íbúðum á jarðhæð. Íbúðirnar eru hannaðar til að hámarka náttúrulega birtu og nýtingu fermetra innan íbúða. Bílastæði eru á lóð og gert er ráð fyrir nokkrum fjölda hleðslustæða.
Bárusker er í nýju hverfi með alla þjónustu í næsta nágrenni. Skóli, verslun og þjónusta er í næsta nágrenni auk þess sem Suðurnesjabær hyggst í náinni framtíð byggja nýjan leikskóla við götuna rétt fyrir neðan Bárusker 2.
Erfitt fyrir ungt fólk að komast inn á fasteignamarkað
Staðan á fasteignamarkaði fyrir ungt fólk sem vill yfirgefa foreldrahús eða leigumarkað er erfið. Halldór segir að foreldrar þurfi helst að vera þokkalega vel fjáðir til þess að geta mögulega hjálpað börnunum með fyrstu kaup. Það sé erfitt að komast í gegnum greiðslumat og þá koma foreldrar og ættingjar til skjalanna með sitt framlag inn í fasteignakaupin. Þetta sé staðan víða á markaðnum. Í raun sé fasteigamarkaðurinn á Suðurnesjum áskorun fyrir alla. Það sé vilji allra að markaðurinn sé sem fjölbreyttastur og að kaupendur spanni alla flóruna. Að þar séu einstaklingar sem skili góðu útsvari til sveitarfélagsins í bland við þá sem þurfa meiri þjónustu eins og leikskóla og þess háttar. Það sé gert með því að bjóða upp á góða blöndu af húsnæði, þannig að íbúasamsetningin sé þannig að auðveldara sé að reka samfélagið. Ákveðinn íbúahópur kallar á meiri þjónustu en aðrir.
Húsnæðisfélög keypt flestar íbúðir í fjölbýli
Staðan á markaðnum er sú að það sé ekki mikið um íbúðir til sölu í nýjum fjölbýlishúsum og það sé ljóst að fleiri slík rísa ekki í Sandgerði á næstu misserum. Í Garði eru síðan framkvæmdir að hefjast við eitt fjölbýli og nokkur séu á skipulagi en ekki sé komið að uppbygginu þar alveg strax. Halldór segir að undanfarið hafi það verið þannig að húsnæðisfélög hafi keypt upp flestar þeirra eigna sem hafa komið á markað m.a. vegna Grindavíkur.
Halldór telur að það sé mögulega þörf fyrir fleiri íbúðir í fjölbýli á Suðurnesjum. Hann segir þó að fasteignasala á Suðurnesjum hafi verið nokkuð hæg þegar horft er framhjá þeirri fasteignasölu sem varð vegna uppkaupa á fasteignum Grindvíkinga. Lífið á fasteignamarkaði á síðasta ári var einna helst vegna þeirra fjárhæða sem greiddar voru út til Grindvíkinga vegna sölu þeirra á eignum til Þórkötlu.
Gæðahúsnæði á sanngjörnu verði
Byggingaraðili hússins er Rætur verktakar ehf. sem er byggingaverktaki á Suðurnesjum. Rætur er alhliða byggingafélag sem er byggt á yfir 25 ára grunni. Starfsmenn félagsins eru með áratuga reynslu af byggingaverkefnum og rekstri. Áhersla félaganna er bygging gæðahúsnæðis fyrir fjölskyldur á sanngjörnu verði. Hlutdeildarlán eru í boði.
Riss ehf. hannaði húsin, glugga, burðarvirki og lagnir. Tera sf. verkfræðistofa hannaði raflagnir. Verkefnastjóri er Ellert Hannesson. Byggingastjóri er Einar Hannesson byggingafræðingur og húsamíðameistari. Húsasmíðameistari er Hannes Einarsson. Rafvirkjameistari er Arnar Dór Hannesson. Pípulagningameistari er Benedikt Jónsson.