Djúpið kvikmyndað að stórum hluta á Suðurnesjum
Kvikmyndin Djúpið, sem Baltasar Kormákur framleiðir, er tekin upp að stórum hluta á Suðurnesjum. Kvikmyndagerðarfólkið hefur síðustu daga og vikur verið bæði í Garði og Reykjanesbæ að taka upp senur í myndinni.
Höfnin í Garði var notuð til að taka upp sjósundatriði í myndinni og eins atriði um borð í fiskibáti þar sem líkt var eftir því þegar báturinn væri að sökkva. Til að fullkomna þær senur var farið með bátinn í Helguvíkurhöfn þar sem honum var endanlega sökkt.
Einnig hafa verið tekin upp atriði í íbúðarhúsi í Garði, á Reykjanesi og nú standa yfir tökur í sundlauginni á Ásbrú.
Meðfylgjandi ljósmyndir voru teknar þar sem kvikmyndataka stóð yfir í Helguvíkurhöfn á dögunum. VF-myndir: Hilmar Bragi Bárðarson