Fréttir

Ekki opið um Grindavíkurveg yfir nýja hraunið ennþá
Grindavíkurvegur við Norðurljósaveg eftir að hraun hafði runnið yfir veginn öðru sinni á þeim slóðum. VF/Ísak Finnbogason
Mánudagur 25. mars 2024 kl. 20:07

Ekki opið um Grindavíkurveg yfir nýja hraunið ennþá

Það hefur ekki verið opnað fyrir umferð um Grindavíkurveg þar sem unnið er að gerð vegar yfir nýtt hraun öðru sinni. Unnið er að því að setja upp stikur og laga fláa til að bæta öryggi vegarins.

Unnið er að þessu af krafti og verður umferð hleypt á veginum fyrir þá sem þar mega um fara um leið og til þess fæst heimild. En ekki fyrr en að lokinni vinnu við að tryggja öryggi.

Þegar hann verður opnaður er mikilvægt er að vegfarendur virði að ekki er heimilt að stöðva á veginum hvorki til að taka myndir né til að virða fyrir sér hraunið. Hraði verður tekinn niður og ekki síður nauðsynlegt að ökumenn taki mið af þeim takmörkunum.

Vegagerðin mun tilkynna um leið og hægt verður að hleypa umferð um Grindavíkurveg yfir hraunið. Rétt er að minna á að eldgos er enn í gangi.

SSS
SSS