Fagnar áfanga á leið til betra lífs með göngu og söfnun í gleðisjóð
Snemma í morgun hóf Hilmar Bragi Bárðarson, fréttastjóri Víkurfrétta, göngu sem hófst við Heilbrigðisstofnun Suðurnesja og mun ljúka síðar í dag við Landsspítalann í Fossvogi. Gangan er farin á þessum tímamótum því í dag eru þrír mánuðir frá því Hilmar Bragi gekkst undir aðgerð á Landsspítalanum. Aðgerð sem bjargaði lífi hans og varð til viðhorfsbreytingar til eigin heilsu.
„Undanfarin ár hafði ég lítið hugsað um eigin heilsu, borðað óhollan mat og ekki stundað neina hreyfingu eða líkamsrækt. Með áunna sykursýki hrakaði heilsu minni snemma sumars og í byrjun júní varð ég fárveikur. Kominn með heiftarlega sýkingu og eitrun í blóðið. Síðdegis þann 11. júní sl. leitaði ég á bráðamóttöku HSS í Keflavík. Þar var fólki strax ljóst hvert stefndi með mig og ég því sendur með sjúkrabíl áfram á Landsspítalann í Fossvogi. Þar hófust strax rannsóknir og skömmu eftir miðnætti þann 12. júní var ég kominn í aðgerð þar sem unnið var á sýkingunni. Næstu þrjár vikurnar lá ég á sjúkrahúsi og í heilan mánuð var ég í umfangsmikilli lyfjagjöf í 18 tíma á sólarhring. Skurðsárameðferð tók svo tvo mánuði,“ segir Hilmar Bragi í ritstjórnarbréfi sem hann skrifar í Víkurfréttir í dag.
„Ég fékk strax að vita það að ég þyrfti að taka mér tak ef ég ætlaði að komast lifandi út úr þessum hremmingum sem ég hafði sjálfur komið mér í. Ég ákvað strax á fyrsta degi að nú yrði hafið nýtt líf. Gjörbreytt matarræði og hreyfing voru sett efst á listann. Fyrstu dagana var erfitt að komast nokkra metra á klósettið en fljótlega var ég farinn að arka ganga sjúkrahúsanna í Fossvogi og síðan á HSS.
Þann 12. júní fór ég á vigtina á Landsspítalanum og reyndist 152,7 kíló. Ég var í allt sumar frá vinnu hér á Víkurfréttum en notaði tímann til heilsueflingar. Fékk mér gönguskó og hef arkað um götur Reykjanesbæjar, Garðs og Sandgerðis. Hundruð kílómetra að baki og þegar stigið var á vigtina í gærmorgun stóð hún í 127,2 kílóum. Sentimetrarnir hafa líka fokið en fyrst og síðast er heilsan miklu betri og líðan mín allt önnur og betri. Sykraðir drykkir og sælgæti heyra sögunni til og maturinn orðinn miklu hollari og í hæfilegum skömmtum.
- Framhald neðan við mynd.
Göngugarparnir lögðu af stað í morgun. Hilmar fyrir miðju, með honum ganga Baldvin Haukur Júlíusson, bróðir Hilmars og Haraldur Haraldsson félagi hans. Páll Ketilsson ritstjóri Víkurfrétta er með þeim á myndinni fyrir ofan en hann gekk með þremenningunum fyrsta spölinn, frá Heilbrigðisstofnun Suðurnesja út að Fitjum í Njarðvík.
Öll höfum við okkar skoðanir á heilbrigðiskerfinu. Það er eitt að standa utan við sjúkrahúsið og segja sína skoðun á heilbrigðisþjónustu og annað að upplifa sjúkrahúsdvöl. Ég upplifði frábæra umönnun þessar vikur sem ég var á sjúkrahúsi. Ég upplifði einnig allt álagið á sjúkrahúsunum sem svo mikið hefur verið til umfjöllunar síðustu misseri og það hvernig allt er komið að þolmörkum. Ég gat ekki annað en dáðst af starfsfólkinu að vinna undir þessu álagi og skil vel kröfur þessa fólks. Þrátt fyrir allt álagið þá var starfsfólkið allt elskulegt og ég sem sjúklingur fékk ekkert annað en elskulegheit og framúrskarandi þjónustu. Það er líka skoðun mín eftir þessar vikur á sjúkrahúsi að við eigum að setja heilbrigðisþjónustu í landinu í fyrsta sæti.
Ég hef deilt reynslu minni með vinum mínum á Fésbókinni. Þar hef ég einnig staðið fyrir söfnun í svokallaðan Gleðisjóð. Hjúkrunarfólkið mitt gaf mikið af sér til mín og ég vildi gefa eitthvað til baka. Vinir mínir á Fésbókinni hafa tekið vel í þessa söfnun mína. Söfnunarfé verður varið til að gera hjúkrunarfólkinu mínu á Landsspítalanum og Heilbrigðisstofnun Suðurnesja glaðan dag. Hef hugsað mér að bjóða hópnum í leikhús. Ég mun greina ykkur nánar frá því þegar þær gjafir verða afhentar og birta myndir,“ segir Hilmar Bragi jafnframt í ritstjórnarbréfi vikunnar.
Með göngu sinni milli HSS og Landsspítala í dag vill Hilmar Bragi fagna þeim áfanga sem hann hefur náð á leið sinni til betra lífs. Einnig markar þessi dagur lok söfnunarinnar í Gleðisjóðinn sem 110 hjúkrunarfærðingar og sjúkraliðar á HSS og á deild A7 í Fossvogi munu njóta. Fyrir þá sem eru ekki á vinalista Hilmars á Fésbókinni þá er söfnunarreikningurinn 542-14-403394 og kennitalan 250570-3929.
Með göngu sinni milli HSS og Landsspítala í dag vill Hilmar Bragi fagna þeim áfanga sem hann hefur náð á leið sinni til betra lífs. Einnig markar þessi dagur lok söfnunarinnar í Gleðisjóðinn sem 110 hjúkrunarfærðingar og sjúkraliðar á HSS og á deild A7 í Fossvogi munu njóta.