Leoncie segir öryggisvörð úr Sandgerði hafa áreitt sig
Indverska prinsessan Leoncie segir farir sínar ekki sléttar eftir að hafa heimsótt Ísland á dögunum. Leoncie hélt tónleika á Gauki á stöng sem vöktu mikla lukku en þegar að hún hugðist fara af landi brott þá segist Leoncie ekki hafa fengið blíðar móttökur hjá öryggisgæslunni í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Leoncie sendi Víkurfréttum póst þar sem hún lýsir því hvernig kona sem starfar í öryggisgæslunni hafi áreitt hana og niðurlægt þegar hún fór í gegnum reglubundna skoðun. „Hún áreitti mig. Hún þuklaði á brjóstum mínum og á milli fóta mér, guð minn góður, aldrei hefur verið komið svona fram við mig áður,“ sagði indverska prinsessan í bréfinu. Hún bætir svo við: „Þetta var eitthvað allt annað en öryggisskoðun, hún var að reyna að niðurlægja mig.“ Leoncie segir að öryggisvörðurinn sé úr Sandgerði og hafi einnig yfirheyrt hana vegna ilmvatns sem Leoncie hugðist færa eiginkonu David Cameron, forsætisráðherra Bretlands. Það sé einkamál að sögn Leoncie.
Leoncie gengur svo langt að kalla konuna kynþáttahatara og geðsjúkling, og að þarna hafi hún fengið tækifæri til þess að níðast á sér. Heldur hefði Leoncie kosið að fá íslenskan herramann í stað kvenkynsöryggisvarðar til að snerta sig.
Hún segir að þegar að til London var komið hafi allt gengið eins og í sögu og ekkert áreiti átt sér stað. Að öðru leyti er Leoncie afar sátt með Íslandsförina en endurkoma hennar til landsins vakti kátínu meðal landsmanna.
Athugasemd: Í fyrstu útgáfu fréttarinnar var talað um tollgæslu í stað öryggisgæslu. Það leiðréttist hér með.