Kvenfélag Keflavíkur
Kvenfélag Keflavíkur

Fréttir

Margrét stöðvaði fyrirhugaða metanólframleiðslu á Reykjanesi
Fimmtudagur 27. febrúar 2025 kl. 06:24

Margrét stöðvaði fyrirhugaða metanólframleiðslu á Reykjanesi

Vantaði frekari upplýsingar um mengun og fleira. Bæjarstjórn frestaði samþykki og ætlar að fá að vita meira

Leyfi til reksturs metanólframleiðslu á lóð innan Auðlindagarðsins á Reykjanesi var ekki samþykkt á fundi bæjarstjórnar Reykjanesbæjar 18. febrúar en málið hafði fengið brautargengi í umhverfis- og skipulagsráði bæjarins. Margrét Þórarinsdóttir, oddviti Umbótar, lagði fram spurningar sem hún óskaði eftir að bæjarfélagið fengi svör við áður en hægt væri að samþykkja málið. Henni varð að ósk sinni og var málinu frestað.

Fyrirtækið Swiss Green Gas International sótti um bygginar- og framkvæmdaeyfi til framleiðslu metanóls í nágrenni Reykjanesvirkjunar. Margrét Þórarinsdóttir steig í pontu og furðaði sig á því að svo virtist sem upplýsingar m.a. um mengun vegna framleiðslunnar og fleiri atriði, hafi ekki verið skoðuð nógu vel. Í umhverfismatsskýrslu Verkís um framkvæmdirnar segir að áhrif þeirra á rekstrartíma séu metin neikvæð á sjó og ásýnd lands og landslag. Nokkuð neikvæð áhrif séu á ferðamennsku og útivist. Þá séu áhrif um efnahættu talin nokkuð neikvæð.

Þá spurði Margrét m.a. um rekstrarhæfi fyrirtækisins (SGGI) og hefur áhyggjur af fleiri málum.

„Ég vil því spyrja meirihlutann, Framsókn, Samfylkinguna og Beina leið, hvort að  Swiss Green Gas International hafi staðið við fyrri verkefni? Er rekstrarhæfi þess tryggt? Er raunverulega næg  koldíox (Co2) losun frá jarðvarmavirkjuninni til staðar fyrir 28 megavatta (MW) framleiðslu?  Ef svo er ekki, hvað þarf þá að flytja inn mikið magn af mengun? Hvernig verður tryggt að mengun og önnur áhrif verði í raun innan ásættanlegra marka, ekki bara í byrjun heldur áratugi fram í tímann? Í skýrslunni kemur fram að mengun verði „ásættanleg,“ það er í rauninni huglægt mat sem krefst frekari greiningar, sérstaklega þegar um er að ræða langtímaáhrif. Einnig kemur fram í skýrslunni með leyfi forseta, „áhættumat verður framkvæmt fyrir reksturinn og nákvæmari öryggisaðgerðir verða skilgreindar, byggt á sértækum hættum vegna hugsanlegs metanólsleka. Gerð verður grein fyrir þessum aðgerðum í starfsleyfi.“ Ég get varla orða bundist, hvers vegna er ekki gerð grein fyrir þessum aðgerðum í skýrslunni.

Í umræðum á bæjarstjórnarfundinum spurði Margrét líka bæjarfulltrúa á fundinum hvort þeir hefðu ekki fengið upplýsingar úr umhverfismatsskýrslunni sem reyndar hefði verið mikið „torf“ og erfið til lestar. „Við þurfum að fá sérfræðinga til að útskýra verkefnið betur áður en hægt er að samþykkja það,“sagði Margrét.

Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar tóku stutt fundarhlé og að því loknu steig forseti bæjarstjórnar í pontu og sagði að málinu yrði frestað og bæjarstjóra falið að skoða það betur.