Miðbærinn er sameiginlegt verkefni okkar allra
- Jón Stefán Einarsson, arkitekt
Jón Stefán Einarsson starfar hjá Batteríinu og vinnur nú að hönnun við uppbyggingu á Laugarvegsreitnum í Reykjavík sem er eitt umfangsmesta verkefni við þéttingu byggðar sem um getur í miðborg Reykjavíkur. Hann segir mikilvægt að horft sé á miðbæinn sem heilsteypt verkefni og að þar búi verðmæti.
„Miðbær eða miðja verslunar, þjónustu og menningar er nauðsynlegur hluti af umhverfi manneskjunnar, þar sem við erum í grunninn félagsverur og byggjum samfélag okkar á samskiptum, hvort sem um er að ræða vörur, þekkingu eða skemmtun. Ekki ólíkt forfeðrum okkar sem settust saman við eldstæðið og mynduðu grunninn.”
Verður miðbær ekki bara til af sjálfu sér?
„Í upphafi var mótun hans tilviljunarkennd, þar sem byggingar voru reistar í kringum verslunarmiðju. Í dag erum við kominn aðeins lengra, þar sem skipulag umhverfis okkar er unnið út frá margþættu kerfi eins og landskipulagsstefnu í svæðiskipulagi, aðalskipulagi og að lokum deiliskipulagi. Tilgangurinn með þessari þróun, er að vanda vel til verka með því að gefa ólíkum aðilum tækifæri til að hafa áhrif á mótun umhverfis síns.
Sumir segja lítið varið í miðbæinn- hvað segir þú?
„Sem heimamaður verð ég að segja að miðbærinn er mér mjög kær og að vissu leyti er hann hrífandi, en hann hefur vantað athyglina í stækkandi byggðafélagi, sem er eðlilegt þar sem fókusinn getur ekki verið á öllum stöðum í einu. Kannski er það kostur, þar sem við höfum enn möguleika á að móta hann inná við en við verðum að athuga að við erum uppi á tímum þar sem hlutirnir geta breyst hratt. Ekki fyrir alltof löngu var miðbærinn nánast aðeins staður þeirra sem bjuggu í bæjarfélaginu, en með auknum fjölda innlendra gesta og ferðamanna hefur miðbærinn aukið verðmæti sitt sem skapar mikið sóknarfæri fyrir bæjarfélagið.“
Hvað áherslur voru lagðar í þéttingu byggðar í þeim verkefnum sem þú hefur komið að?
„Ég myndi segja að við værum mest spenntir að finna tengingar við einkenni staðarins og gera þeim hátt undir höfðu. Ekki endilega að gera nákvæmar eftirlíkingar af því sem var, heldur móta nýjar byggingar eða byggðamynstur sem tekur mið af því umhverfi sem fyrir er og sögu staðarins. Það er nefnilega svo margt skemmtilegt sem er hægt að nýta aftur sem minnir á rómantík eldri miðbæja.“
Hver eru helstu mistökin sem gerð eru í miðbæjarskipulagi?
„Ég myndi telja að það sé skilningsleysi á verðmæti staðarins, rangur fókus og feimni við skilmála er varðar upplifun staðarins sem er undirstaða hönnunar td. staðarandi, umlyking, mannlegur skali og margbreytileiki.“
Hver er sérstaða miðbæjarins í Keflavík og hvernig á að skipuleggja hann?
„Hólmsbergið og elsti hluti bæjarins, gamli bærinn, er mikilvægur sem hluti staðarímyndar Reykjanesbæjar, það er að segja menningarlegri sérstöðu bæjarins og íbúa hans. Hann er sameiginlegt verkefni okkar allra, hann er miðjan í bæjarfélaginu okkar en ekki staður sumra.
Setja þarf saman þverfaglegan hóp ráðgjafa sem vinnur með íbúum og öðrum hagsmunaðilum í að móta stefnu og markmið til að styrkja miðbæinn. Nú er verið að skipuleggja litla reiti sem er varhugavert ef heildarmynd er ekki til staðar. Við þurfum að hafa stefnu um það hvað miðbærinn okkar á að gera og setja okkur markmið, eftir það er hægt að hleypa einstökum aðilum inn en að mínu mati tekur Aðalskipulag ekki nógu vel á þessu. Við viljum þétta byggð en við viljum ekki bara standa uppi með eitthvað sem er þétt heldur eitthvað sem er hluti af okkar samfélagi og við getum séð okkur í. Miðbærinn er eitthvað sem tilheyrir okkur öllum, hann skapar ásýnd okkar og gefur okkur karakter.“