Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Mjólk og ostur í sjoppunni en úrvalið vex hægt og örugglega
Bjarney hefur verið dugleg að standa vaktina í Söluturninum Skeifunni síðan í rýmingunni 10. nóvember í fyrra.
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson
Sigurbjörn Daði Dagbjartsson skrifar
laugardaginn 14. desember 2024 kl. 07:00

Mjólk og ostur í sjoppunni en úrvalið vex hægt og örugglega

„Síðasta eldgos er búið og þ.a.l. getum við spýtt í lófana,“ segir Bjarney Mahmutaj Högnadóttir en hún er Grindvíkingur sem hefur staðið í atvinnurekstri síðan 1. janúar árið 2021 þegar hún og eiginmaður hennar, Aljosha Mahmutaj, sem er frá Albaníu, festu kaup á sjoppu í verslunarmiðstöðinni svokölluðu í Grindavík, sjoppu sem hélt nafni sínu, Söluturninn Skeifan, og hefur verið í góðum rekstri en hamfarirnar settu vissulega strik í reikninginn.

Bjarney og Aljosha hafa nýlega fjölgað mannkyninu og var dóttirin Viktoría með mömmu sinni þennan dag, miðvikudaginn 20. nóvember, en þá var Hanna Þóra Agnarsdóttir, sem hefur verið í vinnu hjá hjónunum, á vaktinni og afgreiddi viðskiptavini um pylsur og annað á meðan Bjarney gat sinnt Viktoríu og spjallað við blaðamann.

„Þetta er búið að vera krefjandi ár, því er ekki hægt að neita. Við rýminguna í nóvember í fyrra fórum við í sumarbústað sem foreldrar mínir eiga í Gnúpverjahreppi, svo í íbúð á Selfossi, þaðan í Garðabæ og erum núna búin að koma okkur fyrir í Hafnarfirði. Við ætlum ekki að kaupa okkur fasteign, við viljum bara koma heim til Grindavíkur en það er auðvitað flókið á meðan ekkert skólahald er í Grindavík. Við erum búin að selja Þórkötlu en viljum gera samning sem gerir okkur kleift að dvelja eitthvað í húsinu. Ég trúi hreinlega ekki öðru en forsvarsfólk Þórkötlu endurhugsi þetta tilboð sem þeir kynntu í síðustu viku. Hver er að fara borga fyrir að sjá um viðhald fyrir Þórkötlu og það er ekkert í því fyrir Grindvíkinginn? Við reyndum að fá að geyma hluta búslóðar í húsinu en fengum þvert nei, það hlýtur að blasa við hversu gríðarlega stór mistök voru gerð í þessu ferli öllu og mér finnst Þórkatla skulda okkur Grindvíkingum að koma með aðlaðandi mótleik fyrir okkur Grindvíkinga, bæði til að bjarga þessum húsum frá eyðileggingu en ekki síst til að reyna bjarga samfélaginu sem við öll söknum svo sárt.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024
Mjólk og ostur í sjoppunni

Hjónin hafa verið dugleg að reyna hafa opið, þau voru búin að opna í desember og svo aftur í janúar og eru komin á fullt núna, eins langt og það nær m.v. núverandi aðstæður.

„Við opnuðum aftur 4. nóvember og höfum verið með opið alla daga frá 11 til 17. Það hefur verið mjög mikið að gera og við kvörtum ekki, mest um helgar þegar sumir Grindvíkingar hafa kíkt í heimsókn. Það hefur nú alltaf verið meira úrval hjá okkur en við erum hægt og bítandi að auka við vöruúrvalið, við erum með vefjurnar okkar góðu, subs, crepes og pylsur og allt helsta gos, sælgætið mætti vera meira en úrvalið mun aukast eftir því sem fleiri koma. Þar sem Nettó er ekki opin bjóðum við upp á mjólk, ost og það helsta í ísskápinn en ég vona nú innilega að Nettó muni opna sem fyrst, því þá veit ég að fjöldi Grindvíkinga verður orðinn það mikill og það er gleðiefni.

Nú er nýjasta eldgosið búið og þ.a.l. gefum við meira í og aukum við þjónustuna. Nú vona ég bara að yfirvöld, Þórkatla og allir Grindvíkingar geti snúið bökum saman og farið að vinna hlutina meira í sameiningu. Það er nóg komið af alls kyns bulli og leiðindum og því miður hef ég á tilfinningunni að þetta ástand sé aðeins búið að sundra okkur Grindvíkingum, þ.e. þeirra sem geta ekki snúið strax til baka eða treysta sér ekki til þess, og þeirra sem eru fluttir heim nú þegar. Við erum öll gul og eigum að sýna hvert öðru umburðarlyndi og skilning. Ég hlakka mikið til þegar ég verð búin að endurheimta yndislega samfélagið mitt,“ sagði Bjarney að lokum.