Næst stærsta gosið á Sundhnúksgígaröðinni
Eldgosið á Sundhnúksgígaröðinni hefur haldið áfram með stöðugri virkni í nótt líkt og undanfarna daga og litlar breytingar eru á gosóróa. Hraunflæðið frá virka gígnum er nú mest allt til suðausturs að Fagradalsfjalli. Veðurstofan hefur tekið saman ítarlega samantek um eldgosið.
Sérfræðingar Veðurstofunnar mældu útstreymi SO2 frá eldgosinu í gær, 28. nóvember. Mælingarnar sýndu að um 64 – 71 kg/s af SO2 streymdu frá eldgosinu. Áfram má því gera ráð fyrir gasmengun frá eldgosinu næstu daga sem gæti valdið óþægindum eða verið óholl. Þetta á sérstaklega við á gönguleiðum við Fagradalsfjall og eru nálægt gosstöðvunum. Hér má nálgast gasdreifingaspár veðurvaktar.
Mynd sem tekin var kl. 10:10 í morgun úr vefmyndavél Veðurstofunnar. Myndavélin sem sett var uppí gær á vestanverðu Fagradalsfjalli horfir til norðvesturs á virka gíginn og hraunánna sem rennur frá honum til suðausturs.
Næst stærsta gosið á Sundhnúksgígaröðinni
Sérfræðingar Náttúrfræðistofnunar voru einnig við mælingar í gær og flugu yfir gosstöðvarnar. Niðurstöður úr þeirra mælingum sýndu að hraunbreiðan sem hefur myndast í þessu eldgosi er orðin 9,1 km2 að flatarmáli, rúmmál hennar er um 47 milljón m3 og er hraunbreiðan að meðaltali rúmlega 5 m þykk.
Þetta eldgos sem hófst fyrir 9 dögum er þar með orðið það næst stærsta að rúmmáli af þeim eldgosum sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023.
Kort sem sýnir útbreiðslu hraunsins sem hefur myndast í þessu gosi eog staðsetningu virka gígsins eins gossprungunnar (rauð lína) eins og hún var kl. 03:39 í nótt. Einnig eru sýndar þær hraunbreiður sem hafa myndast á svæðinu frá desember 2023 (Fjólubláar þekjur). Kortið er byggt á gögnum úr ICEYE gervitungli.
Hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu sem stóð í um 15 daga, frá 22. ágúst til 5. september, er sú stærsta að rúmmáli eða um 61 milljón m3 . Hraunbreiðan sem myndaðist í eldgosinu frá 29. maí til 22. júní er sú þriðja stærsta eða um 45 milljón m3.
Efra grafið sýnir lengd þeirra eldgosa sem hafa orðið á Sundhnúksgígaröðinni síðan í desember 2023 í dögum. Neðra grafið sýnir rúmmál hraunbreiðanna sem hafa myndast í þeim eldgosum. Útreikningar á rúmmálinu eru afurð samvinnu margra aðila og byggðir á gögnum frá Náttúrufræðistofnun, Eflu, Verkís, Svarma og Veðurstofu Íslands
Vísbendingar um að kvika streymi áfram af dýpi inn í söfnunarsvæðið undir Svartsengi
Aflögunarmælingar á Svartsengissvæðinu sýna áfram litlar breytingar á milli daga. Það bendir til þess að innstreymi í kvikusöfnunarsvæðið undir Svartsengi sé sambærilegt við flæðið úr eldgosinu.
Á milli mælinga Náttúrufræðistofnunar, frá 23. til 28. nóvember, var meðalhraunflæði frá eldgosinu um 11 m3/s. Út frá SO2 mælingum sem gerðar voru í gær er áætlað að hraunflæðið þá hafi verið 7 – 8 m3/s. Því má gróflega áætla að hraunflæðið nú sé einhversstaðar á bilinu 5-10 m3/s.
Hættumat uppfært
Veðurstofa Ísland hefur uppfært hættumat vegna eldgossins og gildir það að öllu óbreyttu til kl. 15:00 þann 3. desember. Heildarhætta er óbreytt á öllum svæðum frá síðustu útgáfu. Hættumat fyrir svæði 4 (Grindavík) er óbreytt en ein breyting verður á svæði 1 (Svartsengi) þar sem hætta á gasmengun er nú metin töluverð en var áður metin mjög mikil.