Nú kostar að drolla við flugstöðina
Þann 4. mars næstkomandi verður gerð breyting á fyrirkomulagi í svokallaðri „rennu“ við brottfararinngang flugstöðvarinnar á Keflavíkurflugvelli. Rennan er ætluð þeim sem þurfa að aka upp að flugstöðinni og stöðva í stutta stund til þess m.a. að hleypa út farþegum eða losa farangur. Nokkuð hefur verið um að bílstjórar hafi lagt bílum í rennunni í lengri tíma, sem stíflar flæði umferðar og getur heft aðgengi farþega og viðbragðsaðila.
Með breytingunni er ætlunin að tryggja öllum sem eru t.d. að skutla farþegum á flugvöllinn skjótt og öruggt aðgengi. Það verður gert með því að taka gjald af þeim sem dvelja lengur en 5 mínútur í henni. Til að koma til móts við farþega höfum við lengt gjaldfrjálsa tímann á P2 skammtíma bílastæðunum komu megin við flugstöðina úr 15 mínútum í 30.
Frítt í 5 mínútur
Á milli 1.500 og 1.700 bílum er ekið í gegnum rennuna á dag og er umferðin mest á álagstíma á flugvellinum. Lítið má því út af bregða til að þar verði tafir og biðraðir myndist ef bílar eru stöðvaðir of lengi eða er jafnvel lagt í rennunni.
Athugun á notkun rennunnar yfir rúmlega mánaðar tímabil sýnir að dvalartími um 8% bíla er á bilinu 16-20 mínútur. Það hefur heft flæði í gegnum hana og leitt til biðraða sem valda öðrum gestum flugvallarins óþægindum. Til að sporna gegn þessu og stuðla að bættu flæði um rennuna verður tekið upp gjald á þau ökutæki sem eru lengur en fimm mínútur.
Langflestir ökumenn nýta rennuna eins og til er ætlast og stöðva bíla sína þar einungis í örskamma stund. Miðgildi dvalartíma er um tvær og hálf mínúta og um 80% bíla eru 5 mínútur eða skemur í rennunni.
Á grundvelli þessa var ákveðið að gefa 5 mínútur í rennunni og hefja gjaldtöku að því loknu til að tryggja gott flæði og aðgengi fyrir sem flesta gesti flugvallarins. Áfram verður frítt fyrir þau sem nýta rennuna eins og gert er ráð fyrir og ætlast er til.
Gjaldtaka verður samkvæmt gjaldskrá sem er aðgengileg hér
Frítími lengdur á P2 bílastæðum
Ökumenn sem þurfa að dvelja lengur en gert er ráð fyrir í rennunni geta nýtt sér skammtímastæði við flugstöðina, það er P1 sem er brottfarar megin og P2 sem er komu megin. Hingað til hefur ekki hefur verið tekið gjald fyrir að leggja á P1 og P2 fyrstu 15 mínúturnar. Til að mæta þörfum þeirra sem vilja eða þurfa að stöðva lengur en 5 mínútur, til dæmis þau sem eru að fylgja eða taka á móti vinum og vandamönnum, verður frítími á P2 lengdur í 30 mínútur.