Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Fréttir

Óheppilega dræm kjörsókn í íbúakosningunni - segir bæjarstjóri
Frá afhendingu undirskriftalistans með 2800 nöfnum sem vildu fá íbúakosningu um málefni kísilvers Thorsils í Helguvík. Dagný Steinsdóttir einn af forráðamönnum þess hóps sem haft hefur sig í frammi í málinu afhenti Kjartani bæjarstjóra gögn með nöfnunum.
Miðvikudagur 2. desember 2015 kl. 13:29

Óheppilega dræm kjörsókn í íbúakosningunni - segir bæjarstjóri

Nú líður senn að lokum 10 sólarhringa rafrænnar íbúakosningar um deiliskipulag í Helguvík. Þegar þetta er ritað, að morgni miðvikudagsins 2. des, hafa aðeins tæplega 6% íbúa á kjörskrá kosið eða um 600 manns af þeim rúmlega 10 þús. sem eru á kjörskrá. Kosningunni líkur aðfararnótt föstudagsins 4. des. kl. 02:00 svo enn er hægt að gera betur.

Eins og lögin gera ráð fyrir

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Í lögum er gert ráð fyrir að íbúakosningar séu ráðgefandi fyrir sveitar- og bæjarstjórnir nema annað sé ákveðið. Í umræðu um þessar kosningar hefur verið látið í veðri vaka að sú ákvörðun bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, að fylgja þeirri línu, sé ástæðan fyrri dræmri kjörsókn. Ef svo er er ástæða til að ætla að það sama gildi um allar íbúakosningar í framtíðinni því þær munu væntanlega flestar „aðeins“ verða ráðgefandi eins og lögin gera ráð fyrir. Að vísu er heimildarákvæði í lögum um að bæjarstjórn geti ákveðið að hafa kosningu bindandi út yfirstandandi kjörtímabil en ósennilegt að svo verði gert nema tryggt sé að sveitarfélag verði ekki fyrir fjárhagslegum skaða í kjölfarið.

Bæjarfulltrúar of heiðarlegir?

Annað sem nefnt hefur verið í þessu sambandi er sú fullyrðing margra bæjarfulltrúa að þeir muni ekki láta niðurstöður kosninganna breyta afstöðu sinni til verkefnisins. Allir 5 framboðslistarnir sem buðu fram í síðustu sveitarstjórnarkosningum í Reykjanesbæ töluðu með uppbyggingu á iðnaðarsvæðinu í Helguvík. Með því að gefa það strax út í upphafi undirskriftasöfnunarinnar í júní sl., að bæjarstjórn hyggðist halda sig við þá stefnu, voru þeir kannski of heiðarlegir því það mun hafa truflað einhverja að heyra að bæjarfulltrúar ætluðu ekki að skipta um skoðun þótt niðurstaða kosningarinnar yrði uppbyggingunni í Helguvík óhagstæð.

Mikilvægt að hlynntir kjósi líka

Það skýtur skökku við að af þeim rúmlega 2800 manns sem rituðu nafn sitt á undirskriftalistana, þar sem þessarar kosningar var krafist, skuli aðeins um 600 vera búnir að kjósa nú þegar innan við 2 sólarhringar eru eftir af kosningunni. Gera má ráð fyrir að þeir sem harðast hafa talað gegn uppbyggingu í Helguvík séu búnir að kjósa en að þeir sem eru fylgjandi málinu síður. Það er mikilvægt að fá skýra niðurstöðu í kosninguna og því eru allir bæjarbúar hvattir til að kjósa.

Verður ekki einfaldara

Allar nánari upplýsingar um kosninguna, s.s. um hvað er kosið, hvernig á að kjósa, mismunandi sjónarmið o.fl.,er að finna á vefnum www.ibuakosning.is Þeir sem ekki hafa aðgang að tölvu geta komið í Bókasafn Reykjanesbæjar, Tjarnargötu 12, á opnunartíma þess og fengið aðstoða við að nálgast íslykil ásamt aðgangi að tölvu til að kjósa. Aðferðarfræði rafrænnar íbúakosningar er bundin í lög og eins einföld og hún getur orðið um leið og tryggt er að um leynilega og örugga kosningu sé að ræða. Íbúalýðræði í formi rafrænna kosninga er mikilvægt tæki sem Reykjanesbær hyggst nota í ríkari mæli í framtíðinni. Þessi kosning er því mikilvægur liður í lærdómsferlinu og því vil ég hvetja alla til að gefa sér tíma til að kjósa, segir í pistli sem Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri í Reykjanesbæ, skrifar á vef Reykjanesbæjar.